30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7139 í B-deild Alþingistíðinda. (5154)

437. mál, löggjöf um forskólastig og uppbyggingu dagvistarstofnana

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Óla Þ. Guðbjartssyni fyrir þeirra ræður og stuðning við þetta mál, eindreginn stuðning eins og fram kom í ræðum þeirra. Það er hárrétt ályktað hjá hv. síðasta ræðumanni að kjarni þessa máls snýr að sjálfsögðu að börnunum, þarf að snúast um börnin og heill þeirra og að þeim verði sköpuð þau þroskaskilyrði sem öllu skiptir fyrir uppvöxt þeirra og líf á fullorðinsárum. Það er viðkvæmasta stig mannsævinnar sem við erum að ræða um, þetta forskólastig, alveg tvímælalaust. Skilningur á því hefur hins vegar engan veginn verið sem skyldi hjá þeim sem mótað hafa stefnu og ráðið hafa fjárveitingum í þessum málum. Það ber óneitanlega vott um að Alþingi hefur ekki alltaf borið gæfu til að skilja kall tímans eða þær hraðfara breytingar sem eru í samfélaginu og nauðsynina á að bregðast þar við með breyttum háttum, með breyttri skipan mála.

Ég ætla ekki að auka miklu við það sem ég ræddi í framsögu minni þó af mörgu sé að taka. Ég vil þó leggja áherslu á kjarnann í þessu máli sem snýr að jafnrétti fyrir börnin og felur einnig í sér jafnrétti fyrir foreldrana, gildi þess að koma málefnum forskólastigsins í viðunandi horf. Eins og sagt er í grg. með tillögunni, ég leyfi mér að vitna til hennar um þessi efni: „Mikilsverðast í því sambandi er að veita börnunum gott uppeldi og sem jafnasta aðstöðu til að þroska hæfileika sína. Fyrir foreldra hefur það ómetanlega þýðingu að vita börnin í góðum höndum við holla iðju. Fyrir mæður er vistun barnanna á góðri forskólastofnun ein mikilvægasta forsendan til að ná jafnstöðu á við karla í samfélaginu hvort sem um er að ræða konur í námi eða við störf innan eða utan heimilis. Fyrir atvinnulífið hefur það ótvírætt og vaxandi gildi að foreldrar eigi greiðan aðgang að dagvistarstofnunum og fyrir byggðaþróun er það lykilatriði að þjónusta við börn sé sem best.“

Það er auðvitað matsatriði hversu margt eigi að binda í löggjöf. Margt má setja í reglugerð innan ramma löggjafar og hér er gert ráð fyrir rammalöggjöf um þessi efni. En í því sambandi hljóta að koma til álita þættir eins og ábyrgð og eftirlit á þessu væntanlega skólastigi, húsnæði, annar aðbúnaður, fjöldi barna í hópum, starfslið, uppeldisleg markmið og fræðsla, rannsóknir, sérfræðiþjónusta, aðlögun að vinnumarkaði, sérþarfir einstakra hópa og samvinna við grunnskóla og skóladagheimili.

Það þarf að fjalla um menntun starfsliðs, um fóstrunámið og sérstök nefnd var skipuð í síðasta mánuði til að móta tillögur um það, um menntun annars starfsfólks og endurmenntun og, eins og ég gat um áðan, hvað varðar skilin milli forskóla og grunnskólastigs, bæði varðandi menntun starfsfólks og uppeldislega stefnu.

Þá ber að undirstrika þörfina á rannsóknum varðandi þetta aldursstig og þetta væntanlega skólastig út frá okkar séríslensku aðstæðum því að hér í okkar samfélagi er margt með öðrum hætti en í nágrannalöndum og við þurfum að hafa vitneskju um það til þess að bregðast þar rétt við.

Eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir réttilega kom að í sínu máli og ég hefði nefnt í minni framsögu ef tími hefði leyft liggur fyrir mikilvægt innlegg til þessara mála í uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, markmið og leiðir, gefinni út af menntmrn. 1985. Þetta var unnið af ég hygg níu manna nefnd þar sem Valborg Sigurðardóttir, fyrrum skólastjóri Fósturskóla Íslands, var starfsmaður, en upphaf að þessu verki var að finna í frumkvæði hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur sem flutti tillögu um breytingu á lögum um dagheimili á árinu 1981, viðauka einmitt um það að gerð skyldi sérstök uppeldisleg áætlun sem tengdist þessum málum. Það er mjög ánægjulegt að fara í gegnum þessa áætlun sem er að mörgu leyti vel unnið plagg og stendur fyrir sínu og getur orðið þáttur í athugun þessara mála fyrir þá nefnd sem tillagan gerir ráð fyrir að móti þessa rammalöggjöf.

Ég vék að því að í nágrannalöndunum væru þessi mál til meðferðar. Ég hef í höndum sérstaka skýrslu sem lögð var fram í norska þinginu í vetur undir heitinu „Barnehager mot aar 2000“, Barnaheimili til ársins 2000. Það er að finna mjög gagnlegar ábendingar í þessari skýrslu og m.a., og ég vek athygli á því, þann þrýsting, ég held að það sé óhætt að orða það þannig, af hálfu ríkisstjórnarinnar norsku að ef sveitarfélögin ekki sinna skyldum sínum eins og ætlast er til sem frumkvæðisaðili í þessum málum muni ríkisstjórnin grípa inn í og lögbjóða aðgerðir. En þarlendis er sem sagt reynt að fá sveitarfélögin og forustu í fylkjunum til að knýja fram stórauknar aðgerðir, uppbyggingu á þessu forskólastigi.

Katrín Thoroddsen, sem ég nefndi í minni framsögu, var svo stórhuga að hún lagði það til í lagafrv. 1946 að lögbjóða eins og það heitir í 5. gr. í hennar frv.: „Stofnun dagheimila skal hagað svo: Í Reykjavík skal byggja tvö dagheimili á ári uns þörfinni er fullnægt og í kaupstöðum utan Reykjavíkur skal koma upp einu dagheimili á ári uns þörfinni er fullnægt.“

Þetta vildi hún lögbjóða á þessum tíma. Hér er verið að leggja til áætlun til tíu ára. Ég er ekki með því að gera því skóna að ekki verði hægt að leysa brýnustu þörf innan tíu ára. Auðvitað þarf að gera það sem allra fyrst og það þarf að verða stórfelld stefnubreyting af hálfu fjárveitingaraðila og þá fyrst og fremst af hálfu Alþingis. Alþingi á ekki að hlaupa frá þessu máli og varpa fjárhagsáhyggjunum yfir á sveitarfélögin einvörðungu eins og því miður hafa verið hugmyndir um. Alþingi á að koma inn í þessi mál. Sú tillaga sem ríkisstjórn fékk í hendurnar 1980 hefur því miður verið svikin óþyrmilega eða ekki framkvæmd. Ég held að það verði að tala um svik. Það er kannski stórt orð og ljótt er orðið. En þetta var liður í kjarasamningum þar sem stjórnvöld komu inn í málið m.a. með í huga að dagvistarmálin fengju þarna jákvæða meðferð á næsta tíu ára tímabili. Þessi mál hefur vissulega eins og hér hefur verið minnt á borið á góma á yfirstandandi þingi með tillögu hv. varaþingmanns Ásmundar Stefánssonar sem hér sat á þingi um tíma og flutti tillögu um fjármögnun, sérstaklega varðandi rekstrarkostnað dagheimila og hvernig tekna yrði aflað í því sambandi til að hvetja til öflugrar uppbyggingar, svo og það frv. um tekjuöflun sem hv. þm. Sigríður Lillý Baldursdóttir flutti og hafði að geyma mjög athyglisverðar hugmyndir einnig. Þessar tillögur tel ég að geti komið til skoðunar á vegum þeirrar nefndar sem gert er ráð fyrir að kosin verði samkvæmt þessari tillögu til þess einnig að undirbúa framkvæmdaáætlun.

Ég marka það af góðum undirtektum við þetta mál að vænta má jákvæðrar meðferðar af hálfu þingsins í sambandi við þetta forskólastig og þó að ég geri því ekki skóna að unnt verði að afgreiða svo stórt mál á þeim stutta tíma sem trúlega er til þingloka fái málið undirtektir þegar það verður tekið upp að hausti því að sú er ætlan mín að flytja þetta mál á nýjan leik, fái það ekki afgreiðslu nú, inn í þingið og þá kannski betur undirbúið og í ljósi þeirra ábendinga sem kunna að koma fram um þessa tillögu fram að þeim tíma.