30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7141 í B-deild Alþingistíðinda. (5156)

430. mál, arðgreiðslur viðskiptabanka í ríkiseign

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um arðgreiðslur viðskiptabanka í ríkiseign, en flm. eru Guðmundur H. Garðarsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, og hljóðar hún sem hér segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir er tryggi að viðskiptabankar í eigu ríkisins greiði árlega eðlilegan arð af eigin fé bankanna í ríkissjóð.“ Með þessari þáltill. segir m.a. í greinargerð:

„Nú liggja fyrir reikningar um afkomu banka síðastliðið ár. Samkvæmt þeim hefur bankastarfsemi gengið vel á árinu 1987 og hagnaður verið umtalsverður. Athygli vekur að einkabankar landsins greiða eigendum sínum, hluthöfum, ákveðinn arð af hlutafjáreign. Árið 1987 var þessi greiðsla almennt um 10% af hlutafé. Á sama tíma á engin sambærileg greiðsla sér stað hjá viðskiptabönkum í ríkiseign þrátt fyrir mjög góða rekstrarafkomu.

Eðlilegt er, miðað við aðstæður, að viðskiptabankar í eign ríkisins greiði ákveðinn arð í samræmi við eigið fé til ríkissjóðs (eigenda) á sama hátt og einkabankar greiða arð af hlutafé. Þessi þáltill. er þess vegna fram borin. Eðlilegt hlýtur að teljast að ríkisstjórn fyrir hönd eigenda geri þær kröfur til viðskiptabanka í ríkiseign að þeir greiði hið minnsta 10% arð af eigin fé í ríkissjóð vegna afkomu ársins 1987.

Í þessu felst einnig nokkur jöfnun á samkeppnisaðstöðu milli viðskiptabanka í ríkiseign annars vegar og einkabanka og sparisjóða hins vegar.

Lágmarkskrafa nútímaviðskiptahátta er að rekstraraðilar í sambærilegum rekstri sitji við sama borð“, þ.e. að sérréttindi hljóti að víkja.