30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7142 í B-deild Alþingistíðinda. (5157)

430. mál, arðgreiðslur viðskiptabanka í ríkiseign

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar till. til þál. sem hér er til umræðu vil ég taka fram að ríkisstjórnin hefur þegar gert ráðstafanir til þess að viðskiptabankar í eigu ríkisins greiði arð til ríkissjóðs. Við undirbúning gildandi fjárlaga var ákveðið að ríkisfyrirtæki skyldu greiða arð í ríkissjóð á árinu 1988. Í tekjuhlið fjárlaganna er því gert ráð fyrir slíkum greiðslum.

Eftir athugun á sl. hausti var talið heppilegast að setja slíka arðgreiðslukvöð á fyrirtæki í ríkiseign án lagasetningar og var ákveðið að koma henni á með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt sem einstök ráðuneyti skyldu síðan fylgja eftir. Slík ríkisstjórnarsamþykkt var svo gerð formlega hinn 4. febr. sl. Í samþykktinni er fyrirtækjum, sem ríkið á að öllu eða verulegu leyti, skipt í fjóra flokka.

Í fyrsta lagi fyrirtæki sem greiða skuli í arð til ríkissjóðs á árinu 1988 fimmtung af meðalhagnaði síðustu þriggja ára, þ.e. áranna 1985, 1986 og 1987. Í þessum hópi eru ýmis fyrirtæki sem stunda margvíslegan atvinnurekstur, en reyndar fleiri.

Í öðru lagi eru svo fyrirtæki sem greiða skulu til ríkissjóðs 1% af eigin fé sínu í árslok 1987. Í þennan flokk í samþykktinni falla bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn.

Í þriðja lagi eru svo fyrirtæki rekin í hlutafélagsformi þar sem ríkið á stóran hlut. Þeim er ætlað að greiða 5% af nafnverði hlutafjár í árslok 1987. Í þennan flokk fellur Útvegsbanki Íslands hf.

Í fjórða lagi var svo loks ítrekað að Landsvirkjun skuli greiða arð í samræmi við ákvæði laga um það fyrirtæki.

Þessar tillögur voru mótaðar á grundvelli arðs og afkomu á árunum 1985 og 1986 og í samanburði við sambærilegan rekstur.

Á þessum grundvelli skrifaði ég Landsbankanum og Búnaðarbankanum og kynnti þeim samþykkt stjórnarinnar. Ég gerði líka bankaráði Útvegsbankans hf. grein fyrir þessari samþykkt og á aðalfundi Útvegsbanka Íslands hf. lagði ég til fyrir hönd ríkisins að greiða skyldi arð sem svaraði 5% á hellu ári af nafnverði hlutafjárins eða sem svarar nálægt 31/2% vegna rekstrartímabilsins sem 1987 voru mánuðirnir maí-desember hjá hinu nýja hlutafélagi. Þessi tillaga var samþykkt. Fjmrn. mun svo líta eftir því að þessar arðgreiðslur verði framkvæmdar.

Af þessu sést að ríkisstjórnin hefur þegar gert það sem til er lagt í þáltill. Það er líka eðlilegt að leggja slíka kvöð á ríkisbankana. Arðgreiðslurnar hljóta hins vegar að miðast hverju sinni við afkomu í rekstri. Ekki síður þarf að gæta þess að upp séu byggðir eðlilegir varasjóðir í slíkum fyrirtækjum til að mæta sveiflum, áföllum í lánveitingum og fleira af því tagi. Þarna eiga auðvitað bankaleg sjónarmið að ráða. Þannig er alls ekki unnt að mínum dómi að slá því föstu með einni tölu fyrir öll fyrirtæki í sömu grein á sama ári eða fyrir sama fyrirtæki ár eftir ár hver slík arðgreiðsla eigi að vera.

Ég bendi líka á að hlutfall hlutafjár af eigin fé í fyrirtækjum er mjög breytilegt, t.d. í viðskiptabönkunum, sem eru reknir í hlutafélagsformi, á bilinu 55% í árslok sl. árs upp í 81,5%. Iðnaðarbankinn hefur lægst hlutfall hlutafjár af eigin fé í lok 1987, Útvegsbankinn langhæst af viðskiptabönkum.

Á þetta vil ég benda. En það er fleira sem á þarf að benda. Það er auðvitað rétt, sem fram kemur hjá flm., að það varð umtalsverður hagnaður af viðskiptabankarekstrinum á árinu sem leið. Þannig var hagnaður landsbankans um 5,3% af eigin fé, Búnaðarbankans 9,5%, Útvegsbankans 9,3%, Iðnaðarbankans 15,4%, Verslunarbankans 9,6%, Samvinnubankans 10,6%, Alþýðubanka 24,3%. Þetta eru mjög misjafnar tölur, en þó vekur það athygli að hvorki Búnaðarbanki, Landsbanki né Verslunarbanki ná 10% tölunni sem tillaga er gerð um í þessari þáltill., eða grg. með henni, að arðgreiðsla ríkisbanka skuli vera.

Það er heldur ekki rétt, sem segir í grg., að arðgreiðsla einkabankanna hafi almennt verið 10% af hlutafé fyrir árið 1987. Hún var sem hér segir samkvæmt upplýsingum Bankaeftirlitsins: Iðnaðarbanki 9,5% af nafnverði hlutafjárins, en það svarar samkvæmt reikningum bankans til 5,2% af bókfærðu eigin fé í árslok. Verslunarbankinn úthlutaði 10% af nafnverði hlutafjárins, en það svarar til 6,1% af bókfærðu eigin fé. Samvinnubankinn úthlutaði 5% af nafnverði hlutafjárins sem samsvarar 2,2% af eigin fé bankans. Alþýðubankinn greiddi ekki út arð af hlutafé þrátt fyrir góða afkomu í hlutfalli við eigin fé. Af hverju var það ekki gert? Það er af því að þeir Alþýðubankamenn vilja þar byggja upp eiginfjárstöðu bankans m.a. skv. viðskiptabankalögum. Þannig eru ýmsar hliðar á þessu máli sem alls ekki er til skila haldið í grg. þáltill. Útvegsbankinn mun, eins og ég nefndi, greiða samkvæmt tillögu ríkisins 5% arð miðað við heilt ár eða sem svarar 4,1% af eigin fé í árslok. Þetta er þess vegna miklu nær því sem er hjá einkabönkunum en virðast kann við fyrstu augsýn. Það er líka staðreynd að arðsúthlutun í fyrra er hjá sumum einkabankanna til muna meiri en verið hefur undanfarin ár.

Af þessu er ljóst að því fer fjarri að einkabankarnir greiði yfirleitt arð sem svarar 10% af eigin fé. Tillagan er þess vegna að mínum dómi alls ekki byggð á samræmingu milli aðila í sambærilegum rekstri og rekur sig einfaldlega á þá staðreynd að Landsbankinn t.d. hafði alls ekki þann hagnað af sínum rekstri í fyrra að hann gæti greitt þetta. Reyndar tel ég líka að slík greiðsla mundi stefna lausafjárstöðu þessara mikilvægu þjónustustofnana undirstöðuatvinnuveganna í landinu í tvísýnu.

Þetta þarf þess vegna að athuga miklu betur. Það er eðlilegt, sem fram er haldið í tillögunni, að leggja skuli sambærilegar kvaðir á þá sem stunda sambærilegan rekstur hvort sem um ríkisfyrirtæki er að ræða eða fyrirtæki í einkarekstri. Þetta er líka stefna stjórnarinnar. Þessi stefna er þegar komin í framkvæmd og henni verður beitt eftir því sem breytilegar aðstæður krefjast, en það er ekki hyggilegt að slá arðgreiðslu fastri með einfaldri tíund.

Ég bið hv. fjvn., sem ég vænti þess að fái þessa þáltill. til meðferðar, að huga að öllum þeim atriðum sem ég hef nefnt og ráðfæra sig við viðskrn., fjmrn. og Bankaeftirlitið áður en ákvarðanir eru teknar í þessu máli.