30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7145 í B-deild Alþingistíðinda. (5159)

430. mál, arðgreiðslur viðskiptabanka í ríkiseign

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka af öll tvímæli um það að mín ræða var engin varnarræða fyrir ríkisbankana. Þeir geta varið sig sjálfir. Ég vildi eingöngu benda á einfaldar staðreyndir vegna þeirrar till. sem hér liggur fyrir til umræðu. Ábendinga um það hver arðgreiðsla skyldi vera sem fylgir í grg. tillögunnar varðandi þetta tiltekna ár. Það er vel ljóst, eins og kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv., að um þetta er tillagan, en hún rekst á þá staðreynd að hagnaður ríkisbankanna eftir skatt á árinu 1987 nær ekki tölunni sem þeir benda á. Það er 5,3% afgangur hjá Landsbankanum eftir skatta — Ríkisbankarnir greiða nefnilega skatta samkvæmt sömu reglum og aðrir bankar. — og 9,5% hjá Búnaðarbankanum sem gekk þó allvel. Þetta er hvort tveggja miðað við bókfært eigið verð í árslok.

Nú vil ég ekki draga af þessari þáltill. víðtækar ályktanir. Ég vildi eingöngu nefna þetta vegna þess að ég tel að hér sé hreyft mikilvægu máli og hafi hv. 14. þm. Reykv. skilið það svo að ég eða ríkisstjórnin væri því á einhvern hátt andsnúin að þessi skilyrði verði samræmd vil ég leiðrétta það. Það er svo sannarlega ásetningur þessarar stjórnar að samræma starfsskilyrði milli þeirra sem fást við sömu eða sambærileg störf jafnt á fjármagnsmarkaði sem á öðrum sviðum atvinnulífsins. Auðvitað eru bankar eða eiga að vera ekkert annað en atvinnutæki landsmanna.