30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7149 í B-deild Alþingistíðinda. (5165)

450. mál, kynbótastöð fyrir eldislax

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 800 um kynbótastöð fyrir eldislax. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta reisa og reka kynbótastöð fyrir eldislax.“

Laxeldi er þegar orðin mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi seint vaknað og flestar nágrannaþjóðir okkar eða margar séu lengra komnar í þessari mikilvægu atvinnugrein er ekki ólíklegt að útflutningur fiskeldisafurða nemi um 600 millj. kr. á þessu ári. En ekki hvað síst vegna þess hversu Íslendingar tóku seint við sér er hætta á að þeir dragist aftur úr í samkeppninni um eldislaxinn vegna þess að samkeppnisaðilar okkar hafa þegar hafið markvissar kynbætur á laxi, náð fram allt að 3–5% vaxtaraukningu á ári, en einmitt vaxtarhraði íslenska laxins og það hversu snemma hann verður kynþroska getur orðið okkur fjötur um fót í áframhaldandi eldi á komandi árum.

Á sl. ári var framleiðsla á sláturlaxi um 530 tonn á Ísland , þar af voru 40 tonn frá hafbeit. Þessi framleiðsla kom frá 29 stöðvum og var þess vegna á árinu 1987 um 180% magnaukning frá árinu 1986 þegar sláturlax nam um 188 tonnum frá 15 stöðvum. Ársstörf í fiskeldi voru um 240 árið 1987 sem var 33% aukning frá árinu á undan.

Áætlanir benda til að á þessu ári, 1988, verði framleiðsla á sláturlaxi um 1400 tonn og á næsta ári, 1989, 2500 tonn. Árið 1990 getur þessi framleiðsla að líkindum orðið 3500 tonn og er ekki óeðlilegt að miða við að það svari til um 25 000 tonna af þorski ef maður miðar við að kg af laxi sé í skilaverði u.þ.b. sjö sinnum verðmætara en kg af þorski. Auk þessarar matfiskframleiðslu er áætluð framleiðsla á gönguseiðum um 12 millj. seiða 1988 og gæti orðið 15–20 millj. seiða 1989. Laxeldi er sú grein fiskeldis sem hraðast hefur vaxið, ekki bara hér á landi heldur í nágrannalöndunum.

Ég er þeirrar skoðunar að ef rétt er á málum haldið gæti laxeldi orðið gífurlega mikilvæg atvinnugrein hér á landi í framtíðinni. Ég hygg að það sé erfitt að benda á atvinnugrein sem býr yfir öðrum eins vaxtarmöguleikum.

Ég hef margoft bent á yfirlýsingar Norðmanna þar sem þeir segja að þeir hafi meiri tekjur og höfðu þegar árið 1985 meiri tekjur af laxeldi en af þorskveiðum, að mikilvægasta fisktegund Norðmanna, sem þó eru meðal mestu fiskveiðiþjóða heimsins, er nú eldislax. Áætlanir Norðmanna benda til að innan tiltölulega fárra ára eða nánar tiltekið 1990 verði tekjur af fiskeldi í Noregi þrisvar sinnum meiri en af öllum fiskveiðum þeirra samanlagt og eru þeir þó, eins og áður segir, meðal mestu fiskveiðiþjóða heims.

Íslendingar búa á ýmsum sviðum yfir einstæðum möguleikum til fiskeldis og miðað við þá yfirsýn sem menn hafa í dag er erfitt að benda á nokkra atvinnugrein sem gæti aukið þjóðartekjur útlendinga jafnmikið og fiskeldi. Fiskeldi gæti í framtíðinni orðið sambærilegt í þjóðarbúskapnum og fiskveiðar. Það kann að vera að mönnum þyki hér stórt til orða tekið, en mér virðist að árið 1990, þá þegar, miðað við matfiskframleiðslu um 3500 tonn og miðað við útflutning á seiðum sem gæti numið um 4 milljónum seiða, svipað og menn áætla á þessu ári, muni laxeldi svara til 11–12% tekna af þorskveiðum Íslendinga. Það er ekki fráleitt að áætla, miðað við þann vöxt sem verið hefur í þessari grein og reyndar er alveg á barnsskónum á Íslandi, að innan fárra ára, kannski ekki síðar en 1995, gæti matfiskeldi á Íslandi verið orðið 30–35 000 tonn, en það svarar til þess að innan fáeinna ára, ef vel og rétt er á haldið, hefðu Íslendingar svipaðar tekjur af laxeldi og af þorskveiðum. Þá sjá menn stærðargráðurnar sem hér er um að ræða, að líklega felst ekki í nokkurri atvinnugrein annar eins möguleiki til að auka þjóðartekjur og bæta lífskjör og einmitt í fiskeldi og þá fyrst og fremst, eins og staðan er í dag, í laxeldi.

Norðmenn áætla að árið 1990, sem er rétt komið, muni þeir framleiða um 110 þús. tonn af laxi. Skotar áætta að þeir muni framleiða árið 1990 55 þús. tonn af laxi. Færeyingar áætla að framleiðsla þeirra árið 1990 verði 8000 tonn af eldislaxi og Írar að þeirra framleiðsla verði 15 000 tonn.

Ég er þeirrar skoðunar að aðstaða á Íslandi til fiskeldis sé að mörgu leyti hin ákjósanlegasta og ekki bara það heldur að framtíð Íslands sem matvælaframleiðslulands geti orðið mikil. Lega landsins býður upp á það hér norður við heimsskautsbaug, úti í miðju Atlantshafi og er ákjósanleg til matvælaframleiðslu hér einmitt í heimi vaxandi mengunar þegar jarðarbúar munu í vaxandi mæli sækja í hollt og náttúrlegt fæði, framleitt við bestu aðstæður, án hvers konar mengunar, geislunar o.s.frv.

Stærð Íslands og lág íbúatala skipta miklu í þessu sambandi. Hér er gnægð af fersku, góðu og smitfríu vatni til eldis. Sjór og loft eru hrein og ómenguð. Jarðhiti býður upp á möguleika til aukins vaxtarhraða, möguleika sem fáir geta keppt við. Gnægð raforku er hér til dælingar og annarrar orkunotkunar. Fóður til fiskeldis má framleiða hér, enda hráefnið að mestu innlent. Aðflutt aðföng eru því fremur lítil. Einangrun landsins minnkar áhættu af sjúkdómum. Allt leggst þetta á eitt. Líklegt er að fáar þjóðir geti keppt við Íslendinga í hagkvæmni seiðaeldis í framtíðinni.

En til þess að Íslendingar eigi þá björtu framtíð í fiskeldi sem allar aðstæður bjóða upp á er óhjákvæmilegt fyrir þá að hefja kynbætur á íslensku laxastofnunum.

Norðmenn hafa um nokkurt árabil stundað kynbætur á eldislaxi. Tilraunastöðin í Sunndalsöra var t.d. stofnuð 1971. Sjálfur hef ég skoðað kynbótastöð í Kyrkjesætersöra í Noregi og þær eru fleiri.

Við kynbætur á laxi hafa Norðmenn lagt meginþunga á þrjú atriði, þ.e. aukinn vaxtarhraða, síðbúinn kynþroska og aukna mótstöðu gegn sjúkdómum. Árangur er mjög mikill eða 3–5% aukning vaxtarhraða á ári, en það gefur auga leið að í eldi skiptir vaxtarhraðinn geysilegu máli. Sem dæmi má nefna að 3% vaxtarhraðaaukning á ári þýðir tvöfaldan vöxt á 24 árum, en 5% vaxtarhraðaaukning á ári þýðir tvöfaldan vöxt á 14 árum.

Gífurleg eftirspurn er eftir hrognum úr kynbættum laxi í Noregi. Það er ljóst að einmitt þessi aukni vaxtarhraði norska eldislaxins og síðbúinn kynþroski, sem þeir fá fram með kynbótum. mun gera íslenskum eldisstöðvum erfitt fyrir í framtíðinni í samkeppninni.

Íslensku laxastofnarnir verða í stórum mæli kynþroska eftir eitt ár í sjó. Við kynþroska fer fóður og orka mest í að þroska hrogn og svil. Fiskurinn vex ekki þrátt fyrir eldi og gæði fisksins til matar minnka. Úrval af seiðum til undaneldis er lítið hér og kynbætur nánast engar. Brýnasta málið við eldi á laxi á Íslandi er nú að kynbæta stofna til undaneldis. Vart er unnt nema í litlum mæli að treysta á innflutt hrogn, og áhætta af því mikil, e.t.v. mjög mikil því erfiðir sjúkdómar geta borist með hrognunum.

Íslensku fiskeldisstöðvarnar eru flestar ungar að árum og eiga fullt í fangi með að halda rekstrinum gangandi fyrstu árin. Það tekur þrjú ár frá því að hrogninu er klakið út þar til unnt er að selja laxinn sem eldislax. Því virðist ljóst að fiskeldisstöðvarnar eru þess ekki megnugar að reisa og reka kynbótastöð og ríkið er sá aðili sem eðlilegast væri að kæmi starfseminni af stað. Hvert ár sem tapast er dýrt. Mikilvægt er að hefja kynbætur hið fyrsta. Það tekur mörg ár að ná árangri. Framleiðsla landanna í kringum okkur eykst hröðum skrefum, en kynbótastöð mun stórbæta samkeppnisaðstöðu okkar.

Í Kollafirði eru hafnar kynbætur á hafbeitarlaxi. Þar er að hluta verið að leita annarra eiginleika en í eldi, svo sem ratvísi eða aukinna endurheimta. Þar er notuð kynbótaaðferð sem nefnd er fjölskylduval og þar eru í eldi um 150 fjölskyldur af þremur stofnum. Vonir eru bundnar við að þessar kynbætur geti aukið arðsemi við hafbeit um 3–6% á ári með hærri endurheimtum og meiri meðalþunga sláturlax. Af þeim tölum sjá menn hversu mikið er í húfi varðandi eldislaxinn.

Kynbótastöð fyrir eldislax þarf að vera við sjó. Ég tel að strandlengjan við Þorlákshöfn kæmi mjög vel til greina, en fleiri staðir eru sjálfsagt líklegir eins og t.d. víða á Reykjanesi. Stöðin þarf að standa sér og nokkuð einangruð vegna sjúkdómahættu, en vel má vera að fluttir yrðu til hennar stofnfiskar frá mörgum stöðum í byrjun. Aðstaða þarf að vera til klaks, seiðaeldis, geymslu stofnfisks og einhvers áframeldis. Gera verður ráð fyrir að seiði yrðu alin í nokkrum matfiskastöðvum samkvæmt samningi við kynbótastöðina. Mælingar á þroska fisksins og sláturþunga væru síðan notaðar til vals á fiski til undaneldis. Það val væri framkvæmt á fiski sem alinn er í sjálfri kynbótastöðinni. Kynbótastöðin gæti síðan selt hrogn í framtíðinni. Af reynslu Norðmanna að dæma er hér um mjög arðbært fyrirtæki að ræða, en þeirra reynsla er að kynbótastöðvarnar séu arðbærustu fyrirtækin í fiskeldinu.

Sjálf skipulagning og tölvustýring kynbótanna gæti verið framkvæmd af sérfræðingum hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Sérfræðingar landbúnaðarins hafa þegar mikla reynslu í kynbótum og undirbúningur vegna kynbóta á hafbeitarlaxi mundi nýtast vel í kynbótastöð fyrir eldislax.

Eðlilegt væri að hugsa sér að ríkið stofnaði og ræki þessa kynbótastöð í byrjun. Kynbótastöðin væri hins vegar hlutafélag þar sem áhugaaðilum, svo sem fiskeldisstöðvum, gæfist kostur á kaupum á hlutabréfum. Þannig gætu fiskeldisstöðvarnar og landssamtök þeirra tekið við rekstrinum síðar meir er þeim vex fiskur um hrygg. Mikilvægt er að í stjórn kynbótastöðvarinnar ættu sæti frá byrjun fulltrúi landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva og fulltrúi rannsóknaaðila, e.t.v. Háskólans, auk aðila með rekstrarþekkingu.

Framtíð fiskeldis á Íslandi veltur á því að rannsóknir og tilraunir verði efldar. Íslendingar hafa þegar dregist aftur úr öðrum þjóðum í fiskeldi. Þróunin er mjög hröð, og nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum ef ekki á að verða um seinan að hasla sér völl í þessari mikilvægu framtíðargrein.

Herra forseti. Ég legg til að að loknum umræðum verði þessari till. vísað til allshn.