30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7152 í B-deild Alþingistíðinda. (5166)

450. mál, kynbótastöð fyrir eldislax

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir stuðningi við þessa till. Ég tel tillöguna merka og þarflega. Æskilegt hefði verið að tími hefði verið til að ræða þessi mál hér ítarlega í dag. Ég skal ekki vera langorður þar sem fleiri mál eru á dagskrá.

Ég er sammála hv. flm. um mikilvægi fiskeldis fyrir Íslendinga í framtíðinni og að í þeim efnum eigi ekki að láta neins ófreistað til að efla þessa atvinnugrein. Kynbætur eru mjög mikilvægt atriði í sambandi við eldislax, eins og fram kom í framsöguræðu hv. þm. Það verður að skoða þetta mál frá mörgum hliðum. Það þarf að skoða þetta mál m.a. út frá því sjónarmiði hvort Íslendingar ætla í framtíðinni að leggja megináherslu á fiskeldi í landi eða hvort þeir ætla að snúa sér í ríkari mæli að hafbeit. Hafbeit hefur ekki verið mjög ofarlega á dagskrá hjá Íslendingum í sambandi við fiskeldi, en þó eru starfræktar 2–3 stöðvar sem eru marktækar í þeim efnum þar sem nokkur reynsla hefur fengist. Það er álit sérfræðinga, innlendra sem erlendra, að líklegast muni hafbeitin vera besti kosturinn í sambandi við fiskeldi framtíðarinnar og muni skila Íslendingum mestu í aðra hönd.

Margt styður þessa skoðun. Í fyrsta lagi eru aðstæður mjög sérstakar við Ísland. Eyjan er nyrst norður í Atlantshafi sem gerir að verkum að sjór í kringum landið og við strendur landsins er ómengaður. Þá er það einnig mikilvægt atriði og grundvallaratriði að uppeldisskilyrði fyrir fisk eru einstaklega hagstæð í hafinu í kringum Ísland.

Þá er það ekki lítið atriði að allar laxveiðar í sjó eru bannaðar við Ísland. En til þess að hafbeit geti notið sín eða skilað þeim árangri sem skyldi er það reynsla þeirra sem þegar hafa fengist við hafbeit við Ísland, og nefni ég þar Vogalax hf. sem hefur unnið að þessum málum allt frá árinu 1980, að það sé mjög mikilvægt skilyrði að hafbeitarstöðvar liggi þannig við sjó að þar sé fyrir hendi nægilegt vatn, heitt og kalt, og einnig að sjórinn sé algjörlega ómengaður þar sem hafbeitarstöðvarnar eru.

Víða við strendur landsins eru skilyrði góð til hafbeitar og þó að tilraunir hafi einkum verið gerðar hér á suðvestursvæðinu og einnig fyrir norðan á einum stað er það ekki nokkurt vafamál að hafbeitarskilyrði eru mjög góð við Suðvesturland.

Þá ræður það líka miklu, þegar verið er að fjalla um þessi mál, að í sambandi við seiðaeldi er þýðingarmikið að kynbæta seiðin áður en þeim er sleppt í sjó og það sem gert er og reynt hefur verið m.a. hjá Vogalaxi hf. er að laxaseiðin hafa verið hert upp áður en þeim er sleppt. Það tengist mjög því máli sem hér er til umræðu og legg ég áherslu á það að þetta mál fái afgreiðslu í hv. þingi þannig að það dragist ekki úr hömlu að taka þannig á þessum málum sem nauðsyn, krefur.

Að lokum, þetta: Án nokkurs vafa eru framtíðarmöguleikar Íslendinga mjög miklir í sambandi við fiskeldi. Hér er hægt að framleiða mikið magn af góðum matvælum með tiltölulega litlum tilkostnaði og ekkert land er betur búið en Ísland til þess að vera með stórar og vel reknar hafbeitarstöðvar.