30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7164 í B-deild Alþingistíðinda. (5179)

421. mál, íslenskunámskeið fyrir almenning

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér í ræðustól til að þakka flm. þessarar ágætu tillögu. Ég held að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af að einhverjir aðrir hafi áður flutt tillögur um úrbætur varðandi íslenska málmenningu. Ég held að það sé aldrei of oft gert og ég lýsi því, eindregnum stuðningi mínum við þessa tillögu. Ég held að hún sé þörf.

Ég vil þó að það komi fram að þáttur Ríkisútvarpsins hefur alla tíð verið verulegur varðandi málvöndun og góða málnotkun. Má þá minna á þætti sem hafa orðið vinsælir eins og Daglegt mál og Íslenskt mál. Hins vegar er því ekki að neita að það fer varla fram hjá nokkrum manni að málnotkun fjölmiðlafólks fer hrakandi og ekki síst í þeim nýju fjölmiðlum sem nú hafa bæst við í fjölmiðlaheiminum. Það verður auðvitað aldrei of oft sagt að forstöðumönnum fjölmiðla ber að stuðla að því að starfsfólk þeirra reyni að vanda málfar sitt sem kostur er.

Það má einnig geta þess að t.d. Morgunblaðið sem stærsta dagblað landsins hefur verið heldur til fyrirmyndar að því leyti sem varðar íslenskt mál. Mér er kunnugt um að þar á bæ reyna menn að sjá svo til að þeir sem í blaðið skrifa séu sæmilega ritfærir á íslenskt mál. Það er stefna þar en ekki einungis háð tilviljun hvort ákveðnir starfsmenn kunna eitthvað fyrir sér í notkun íslensks máls.

En hér var fyrr í dag talað fyrir þáltill. um málefni barna á forskólaaldri og það minnir okkur á það að e.t.v. eru börnin í landinu í mestri hættu að þessu leyti með þeim aðbúnaði sem einmitt þar var talað um. Börn hafa lítil tækifæri til að læra að nota sitt eigið tungumál. Þau eru háð erlendum fjölmiðlum stóran hluta dagsins vegna þess að enginn er heima til að sinna þeim, og ef við höldum áfram á þeirri braut eins og við höfum gert á síðustu árum held ég að við verðum að horfa framan í verulegan vanda í þessum efnum að örfáum árum liðnum.

Málmennt er auðvitað aðeins einn þáttur almennrar menningar og því aðeins að við búum landsmönnum og ekki síst börnunum sæmileg lífsskilyrði getum við vænst þess að við getum haldið uppi þeirri mennt og menningu í þessu landi sem við öll svo gjarnan vildum. Menn hafa ekki sýnt því sérstakan áhuga að efla barnamenningu. Það er ekki mikið gert til þess að hvetja fólk til að skrifa bókmenntir fyrir börn. Því síður eru leikhúsin styrkt til að halda uppi reglulegum leiksýningum fyrir börn. Tónlistarlífið er á svipuðu róli og það sama held ég að gildi um flestar aðrar listgreinar. Ef okkur er einhver alvara að halda uppi og halda við og efla þá menningarlegu hefð sem við eigum og byggjum raunar tilveru okkar á er ég hrædd um að við verðum að líta í kringum okkar í öllu þjóðfélaginu. Það nægir ekki að framkvæma einhverjar aðgerðir á einu sviði. Ég held að við verðum að hafa einhverja heildarmynd af því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu öllu.

Vegna þess að flm. þeirrar tillögu sem hér um ræðir, hv. 7. þm. Reykn., minntist á umkvartanir mínar varðandi erlend nöfn á íslenskum fyrirtækjum vil ég taka fram að annar hv. þm. beitti sér einnig töluvert á því sviði, en það var fyrrv. hv. þm. Vilmundur Gylfason. Ég vil að það komi fram að hæstv. viðskrh. brást mjög vel og skjótt við því erindi sem ég átti við hann um þessi mál, að mig minnir á þessu þingi eða jafnvel því síðasta, og lét boð út ganga til þeirra aðila sem þau mál varða, og ég er ekki frá því að þetta hafi þegar haft áhrif. Menn eru ekki eins frjálsir, að ég hygg, nú til að nefna fyrirtæki sín erlendum nöfnum og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að halda áfram að vinna að því.

Einu atriði vil ég koma hér að sem ég hef ekki tekið eins eftir fyrr en ég fór að hlýða á hv. þm. úr virðulegum forsetastóli. Þegar ég sit í mínu eigin sæti er oftast verið að einbeita sér að efni þess sem sagt er. En það hefur ekki farið fram hjá mér að framburður hv. þm. hefur fengið undarlegan hljóm sem ég hef leyft mér í glensi að kalla framsóknarframburð, þ.e. menn leggja áherslu á annað, þriðja og jafnvel fjórða atkvæði orða. Einn hæstv. fyrrv. ráðherra hafði einkarétt á þessu og enginn kvartaði yfir því. En með allri virðingu fyrir hans annars ágæta málflutningi held ég að engin ástæða sé til þess að hafa framburð hans að fyrirmynd. Ég vildi mælast til þess að hv. þm. héldu þeim gamla, góða íslenska sið að leggja áherslu á fyrsta atkvæði orða. Hv. 6. þm. Suðurl. býr ekki á Selfossi. Hann býr á Selfossi, og kynni því illa að breyta því enda málvöndunarmaður. Hafi menn ekki gerst leiðir á þeim þjóðlega framburði held ég að menn ættu að reyna að halda sig við gamlar dyggðir í því efni.

Hæstv. forseti. Ég skal ekki eyða tíma þingsins lengur að þessu sinni en vildi að þetta kæmi fram. Ég held að hér hafi verið hreyft mjög merku máli sem hefði mátt vera fyrr á ferðinni þannig að tími hefði gefist til þess að afgreiða það. Nú má vel vera að menn bregði skjótt við og geri það og ég styð það svo sannarlega. En ég þakka hv. flm. fyrir till. Ég held að hún sé þörf og nái hún ekki fram að ganga á þessu þingi er jafnrík ástæða til að hún komi fram þegar í upphafi næsta þings.