10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Það er örstutt. Fyrst varðandi refsiákvæði frv. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson, 4. þm. Reykn., taldi nú — ja, ég veit ekki hvort á að segja brosleg en alla vega ekki mjög trúverðug. Það lýsir kannski bara því að hann hefur komið illa lesinn í tíma eins og e.t.v. fleiri. Refsiákvæðin eru sérstaklega sett inn vegna þess að hluti frv. leggur ábyrgð á herðar einstaklinga, þ.e. ábyrgðin á því að virða friðlýsinguna er að hluta til einstaklingsbundin, sbr. 4. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Enginn íslenskur ríkisborgari eða maður sem hefur varanlegt dvalarleyfi á Íslandi, erlendur ríkisborgari, sem er í þjónustu íslenska ríkisins eða dvelst innan hins friðlýsta íslenska svæðis, má búa til kjarnorkuvopn af neinu tagi“ og síðan eru þær kvaðir tíundaðar sem lagðar eru með þessari friðlýsingarlöggjöf einnig á herðar einstaklinga.

Það er augljóst mál að herskip eða flugvélar verða ekki sett í fangelsi sem slík til að sitja af sér refsingu, hvorki í tíu ár né annan tíma, en aðilar sem bera ábyrgð á ferðum slíkra farartækja gætu komið þar til greina og svo til að mynda allir þeir einstaklingar sem taldir eru upp í 10. gr. Það er ekki á nokkurn hátt óeðlilegt þótt eitthvert refsiákvæði sé sett inn í frv. af þessu tagi. Þessu veit ég að hv. þm. áttar sig á þegar hann skoðar frv. (KJóh: Reagan og Gorbatsjoff eru ekkert utan við þetta.) Ekki ef þeir kæmu inn í þessa lögsögu og færu að brjóta gegn ákvæðum laga sem af þessu leiddu.

Varðandi umræður um einhliða yfirlýsingu, herra forseti, þá er það svolítið villandi tal og mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það, en ég tel að það lýsi aftur því að menn séu ekki nógu vel lesnir, jafnvel hreinlega illa upplýstir um þessi mál. Staðreyndin er sú að kjarnorkuvopnalaust svæði, sbr. t.d. lokaályktun aukaþings Sameinuðu þjóðanna frá 1978, er ekki einangrað fyrirbrigði í heiminum heldur er þar beinlínis gert ráð fyrir tiltekinni málsmeðferð, tilteknum „prósess“ eins og nú er sagt á fínu máli sem felur auðvitað í sér tengsl við ytra umhverfi slíkra svæða. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að á grundvelli viljayfirlýsingar hinna Sameinuðu þjóða verði tiltekin málsmeðferð viðhöfð við að afla slíkum svæðum viðurkenningar. Það er nákvæmlega það sem gert hefur verið t.d. varðandi Suður-Ameríkusvæðið og sú yfirlýsing er orðin allgömul. Það væri mjög skynsamlegt fyrir hv. þm., eins og t,d. áhugamann um utanríkismál, hv. 4. þm. Reykn., að kynna sér þá hluti, kynna sér t.d. sögu Tlatelolco-samningsins um kjarnorkuvopnalaust svæði í Suður-Ameríku. Hann er á bls. 28 í fskj. með þessu frv.

Í samþykkt sem allar stærstu friðarhreyfingar á Norðurlöndum gerðu um útfærslu á því hvernig mætti koma á kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum, þetta er mjög vönduð samþykkt sem var unnin af færum alþjóðlegum sérfræðingum og hefur m.a. orðið mjög hjálpleg við samsetningu þessa frv., er vikið að því á bls. 26 hvernig ætti að vinna að frekari útvíkkun þess svæðis, þ.e. þá er miðað við að það sé í upphafi sett á afmarkað við tiltekið landsvæði, en hugsunin er frá byrjun sú að leitast við að útvíkka það svæði. Þar er einnig gert ráð fyrir ákveðnum aðgerðum til að afla svæðinu alþjóðlegrar viðurkenningar, t.d. viðbótarsamningum, og um það er fjallað á bls. 23 í frv., skuldbindingum kjarnorkuveldanna sem reynt yrði að afla við slíkt svæði. Það er fjallað um það á bls. 22 o.s.frv., herra forseti. Hér er alveg greinilega talsvert lesefni sem hv. þm. þyrftu að kynna sér vel áður en við ljúkum umfjöllun um frv.

Tal um einhliða yfirlýsingar í þessu sambandi er villandi og lýsir í raun og veru misskilningi. M.a. þess vegna er gert ráð fyrir að gildistaka laganna yrði miðuð við dagsetningu alllangt fram í tímann þannig að sá tími sem ynnist frá því að slíkt frv. yrði að lögum og þangað til það tæki gildi er hugsaður beint í þessu samhengi til að afla svæðinu viðurkenningar og tryggja það í sessi.

Ég verð að segja að ég skil ekki almennilega hæstv. utanrrh., hvernig hann getur næstum að segja í sömu setningunni tekið undir hvert einasta orð með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. (Utanrrh.: Hv. 10. þm. Reykv. tók ég undir með.) Nú, afsakið. Þá hef ég misheyrt eða misskilið. Það gleður mig stórlega að hæstv. utanrrh. var ekki að taka undir með hv. 4. þm. Reykn. því það fer að mínu mati illa saman að vera með þessa fyrirvara og tala um að einhliða yfirlýsingar komi ekki til greina og styðja síðan meginmarkmið frv. Þetta er ekki sambærilegt með þessum hætti. Hér er í raun og veru um aðra hluti að ræða.

Ég vil svo í lokin aðeins minna menn líka á hvað er að eiga sér stað, ekki bara í rétta átt þar sem er um að ræða væntanlega samninga milli stórveldanna um kjarnorkuafvopnun á tilteknu sviði, sem eru vissulega fagnaðarefni. Sömuleiðis má nefna þá miklu umræðu og miklu hreyfingu sem er á þessum málum, t.d. á Norðurlöndum, og þá mjög vaxandi andstöðu almennings við yfirgang kjarnorkuveldanna sem er vissulega mikill í heiminum. Og þá er ég ekki bara að tala um stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin. Mesta kjarnorkuofbeldisþjóð heimsins eru Frakkar. Þessi mikli yfirgangur, sem m.a. felst í því að gera tilraunir eins og þessum löndum sýnist, og margt fleira mætti tilnefna, sætir nú vaxandi andstöðu í heiminum. Það er afveg greinilegt. Þeim ríkjum fjölgar stöðugt sem friðlýsa sitt land fyrir kjarnorkuvopnum. Þeim sveitarfélögum fjölgar stöðugt í heiminum, jafnvel innan NATO-ríkjanna, sem lýsa því yfir að þau séu kjarnorkuvopnalaus svæði og landsvæði gera það einnig. Þannig hófst sú þróun í Nýja-Sjálandi sem nú hefur leitt til þess að landið allt og landhelgin eru friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Hún hófst með því að sveitarfélög og landeigendur byrjuðu að lýsa yfir kjarnorkuvopnaleysi sinna svæða og síðan áfram.

En því miður eru líka ýmsir váboðar uppi sem við þurfum að hyggja að. Ég nefni þá hættu, sem oft hefur verið rætt um að undanförnu, að afvopnun á landi leiði til fjölgunar vígtóla eða kjarnorkuvopna í höfunum. Sú hætta er vissulega uppi og um hana var rætt á varnarmálafundi NATO-ríkjanna í Monterey í Kaliforníu fyrir skömmu. Það er lítið gleðiefni okkur Íslendingum ef þessi afvopnun á landi í Evrópu leiðir til stórkostlegrar vígvæðingar á höfunum í kringum okkar.

Við megum heldur ekki gleyma því, herra forseti, að fyrir þetta, þegar eru sem sagt uppi áform og reyndar ákvarðanir yfirmanna heraflanna, bæði í Sovétríkjunum og NATO-löndunum, um að auka vígbúnað á höfunum. Þessi áform liggja fyrir í dag. Til viðbótar kemur svo sú hætta, sem margir hafa bent á, að samningar um takmörkun vopna eða afvopnun á landi gæti leitt til aukins þrýstings á vígbúnað í höfunum. Í þessu samhengi vil ég því líka gjarnan að menn ræði alvöru þess máls sem hér er til umræðu.

En ég fagna að sjálfsögðu með þeim orðum sem ég hef þó um það haft þeirri yfirlýsingu hæstv. utanrrh. að hann sé mjög hlynntur þeirri hugsun eða þeim markmiðum sem þetta frv. er grundvallað á og ég vona að það verði til að auka líkurnar á því að það fái rækilega skoðun allra þeirra aðila sem er málið skylt.