02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7173 í B-deild Alþingistíðinda. (5195)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur og raunar heiminn allan að vera á varðbergi þegar um svo hættuleg geislavirk efni er að ræða, en plútóníum er talið vera eitt af hættulegustu geislavirku efnunum. Þarna er um að ræða alfageisla sem eru mjög hættulegir og langhættulegastir ef þeir komast inn í líkamann borið saman við önnur geislavirk efni. Ef það kemst t.d. í fisk erum við orðin mjög illa úti. Þetta er t.d. miklu hættulegra en úraníum. Það er því fyllsta ástæða fyrir okkur að leita allra leiða til að koma í veg fyrir þessa flutninga.

Það vekur t.d. athygli að Bandaríkjamenn hafa bannað að flugvélar með plútóníum fari yfir þeirra landsvæði. Þeir vilja ekki eiga á hættu að fá farma af þessu hættulega efni á sitt land. Í samningnum milli Japans og Bandaríkjanna er gert ráð fyrir að Bandaríkjamenn þurfi að samþykkja með hvaða hætti flutningarnir verða, bæði öryggiskröfur og annað. En hvað með aðrar þjóðir eins og t.d. okkur? Við viljum hvorki fá geislavirk efni á okkar land né í sjóinn. Það þarf ekki nema óverulegt slys til að setja allan okkar fiskútflutning í hættu, jafnvel þó ekki væri talin hætta á að efnið komist út í hafið.

Ég skora því á hæstv. forsrh. að beita sér á alþjóðavettvangi gegn þessum flutningum og efast ekki um að hann muni gera það miðað við það sem kom fram í máli hans áðan.