02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7174 í B-deild Alþingistíðinda. (5196)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að gefa þessu máli gaum því það er alveg grafalvarlegt. Ég tók þetta mál upp í flugráði á síðasta fundi ráðsins. Fluginu á milli Evrópu og Japans er þannig háttað að öll flugfélög láta vélar sínar millilenda. Oftast er það annaðhvort í Thule á Grænlandi og þá liggur flugleiðin rétt austan Íslands eða þá að flogið er nálægt núllbaug norður á pól og yfir til Anchorage í Alaska.

Það er ein undantekning á þessu. Finnair heldur uppi flugferðum beint án millilendingar frá Helsingfors til Japans og það byggist á því að þeir hafa náð samningum við Rússa um að mega fljúga yfir þeirra land.

Flugþol núverandi flugvéla leyfir ekki flug í einum áfanga án eldsneytisáfyllingar, a.m.k. ekki ef þær eru lestaðar, en árið 1990 eða um 1990 verða komnar í notkun Boeing-747–400 vélar sem hafa nægilegt flugþol til að fljúga á milli Frakklands og Japans án millilendingar eða eldsneytistöku, lestaðar.

Flugráð fól flugmálastjóra að hafa samband við flugmálayfirvöld í Danmörku vegna málsins. Yfirvöld í Danmörku munu ekki heimila flug yfir Grænland og ekki millilendingu í Thule.

Starfsmönnum Flugmálastjórnar var uppálagt að hafa á sér sérstakan andvara og láta stjórnvöld vita ef þeir yrðu varir við slíka flutninga um íslenskt flugstjórnarsvæði, en mestar líkur eru til þess að svo verði þar sem flugstjórnarsvæði okkar er mjög stórt á Norður-Atlantshafi og nær alla leið norður á pól.