02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7174 í B-deild Alþingistíðinda. (5197)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni alvarlegt mál og ég verð að segja eins og er að mig undrar stórlega að valið skuli vera að fljúga með þetta hættulega efni. Jafnvel þótt líkurnar á slysi séu litlar getur það gerst og þá er ekkert til ráða. Sjóflutningar hafa verið venjan í sambandi við flutninga á hættulegu efni og ég tel að það eigi við í þessu tilviki eins og öðrum þannig að ég undrast það stórlega að menn velji að fljúga með þetta efni.

Ég get heldur ekki og við getum alls ekki viðurkennt að flugleiðir séu valdar frekar yfir haf en land. Mengunarslys yfir hafi geta ekki síður haft alvarlegar afleiðingar en yfir landi. Vitaskuld er þetta ekki bara spurningin um að ekki sé farið yfir lögsögu okkar heldur að ekki sé farið yfir hafsvæðin í grennd við okkur og reyndar að mínum dómi að ekki sé flogið með þetta efni.

Ég veit að ríkisstjórnin hefur þegar tekið þetta mál til umfjöllunar og ég vænti þess og treysti því, og við gerum það alþýðuflokksmenn, að hún taki það mjög föstum tökum og beiti öllum tiltækum ráðum, ekki bara lagalegum og ekki bara á grundvelli samninga heldur nýti einnig stjórnmálalegan þrýsting eftir því sem við verður komið, til þess að horfið verði frá því að flytja þetta hættulega efni flugleiðis. Síst af öllu má flytja það flugleiðis yfir norðurslóðir sem er mjög viðkvæmt hafsvæði.