10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. hefur nokkrum sinnum í þessari umræðu látið þau orð falla að aðrir þátttakendur í umræðunni séu illa lesnir í frv. Nú hefur hv. flm. gert örstutta athugasemd sem lýtur að því að frv. feli ekki í sér einhliða yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust svæði. Það gefur tilefni til að allt þetta mál sé skoðað og íhugað mjög vendilega því að auðvitað skiptir þessi yfirlýsing hv. flm. afar miklu máli ef það er nú hans skoðun að frv. feli ekki í sér einhliða yfirlýsingu og enn fremur að það sé rétt stefna af Íslands hálfu, svo sem fylgt hefur verið, að taka ekki þátt í einhliða yfirlýsingum af þessu tagi.

Ég hygg að um meginmarkmið í afstöðu til kjarnorkuvopna séu Íslendingar sammála. Við sem smáþjóð hljótum að leggja afar ríka og þunga áherslu á útrýmingu kjarnorkuvopna. Við hljótum að fylgja fram stefnu í þeim efnum sem líklegust er til að skila árangri sem fyrst. Hér eru ekki kjarnorkuvopn og verða ekki. Ísland er kjarnorkuvopnalaust land. Þau eru ekki á Íslandi og verða ekki á Íslandi nema með samþykki íslenskra stjórnvalda. Íslendingar hafa ótvíræðan fullveldisrétt í þessu efni sem öðrum og munu auðvitað ekki undir neinum kringumstæðum láta hann eftir.

Við höfum hins vegar tekið þá afstöðu að vænlegasta leiðin til að útrýma kjarnorkuvopnum séu gagnkvæmir samningar og einhliða yfirlýsingar, sem rýra möguleikana á gagnkvæmum samningum um útrýmingu kjarnorkuvopna, eru þess vegna varhugaverðar og öll þátttaka okkar í umræðum um kjarnorkuvopnalaus svæði hlýtur því að tengjast þessu markmiði. Að sjálfsögðu er ekki hægt að útiloka eða skella skollaeyrum við umræðum um kjarnorkuvopnalaus svæði, en þau hljóta undir öllum kringumstæðum að tengjast þessu markmiði, tengjast víðtækari alþjóðlegum samningum um fækkun og útrýmingu kjarnorkuvopna. Þeirri meginstefnu hefur verið fylgt. Nú veit ég ekki gerla hvernig á að skilja yfirlýsingu hv. flm., en það er fagnaðarefni ef hann er nú kominn til þeirrar skoðunar að við eigum ekki að fara inn á braut einhliða yfirlýsingar, ef þetta frv. er þess eðlis, og þá er rétt að það verði skoðað í þeirri hv. nefnd sem fær það til meðferðar. Að öðru leyti tek ég undir þau sjónarmið að öll umræða um þessi efni er gagnleg og þarfleg.