02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7175 í B-deild Alþingistíðinda. (5200)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir viðbrögð hans og yfirlýsingar í tilefni af mínum fsp. og ég þakka fulltrúum allra þingflokka sem tekið hafa til máls og lýst yfir hug sínum í þessu efni og tekið hafa undir áhyggjur mínar út af þessum fyrirhuguðu flutningum. Þær áhyggjur eru um leið áhyggjur allra Íslendinga og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að við hljótum ekki aðeins að beita okkar formlegum samningslegum rétti til að reyna að koma í veg fyrir þessa flutninga heldur einnig að taka málið upp eftir stjórnmálalegum leiðum.

Það er þarfleg ábending frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, sem hann kom fram með, að hæstv. forsrh., sem er á förum senn í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna, taki á þessu máli þar ef honum finnst það hentugt og ég hvet hæstv. ráðherra til að nota það tækifæri sem þar býðst.

Það er margt sérkennilegt í þessu máli. Það er sérkennilegt að það skuli valin flugleið yfir viðkvæm svæði og það er sérkennilegt að það skuli fyrst koma í ljós hér uppi á Íslandi og vitnast að þessi samningur er á lokastigi eftir að búið er að fjalla um hann lengi á Bandaríkjaþingi og órói hefur verið þar í landi út af þessari samningsgerð. Meðal þingmanna sem mér er kunnugt um að halda enn uppi andófi gegn samningnum er John Glenn fyrrum geimfari, sem sæti á á Bandaríkjaþingi, og fleiri reyndar sem þar eru enn í andófi gegn þessum áformum.

Hér er á ferðinni flug sem ef illa til tækist gæti eyðilagt markaðsmöguleika Íslendinga varðandi sjávarafurðir, jafnvel þó að ekki verði sannað að um hættulega geislun sé að ræða í hafinu. Það er þetta sem við þurfum að horfast í augu við. Mér er tjáð að líklegasta flugleiðin liggi rétt austur af landinu, svona 60 sjómílur austur af landinu yfir okkar efnahagslögsögu, og af því má marka hver vá getur þarna verið á ferðinni.

Það er sagt frá því að Japanar hyggist einhvern tíma í framtíðinni sjálfir byggja endurvinnslustöðvar, en það er ekkert ákveðið í þeim efnum þannig að fyrst um sinn samkvæmt samningsdrögum verða notaðar endurvinnslustöðvar í Frakklandi og Bretlandi. Við höfum þegar hér á Alþingi í vetur mótmælt slíkri aukinni endurvinnslu í Dounreay í Skotlandi. Allt Alþingi tók undir það. Dounreay liggur allfjarri okkur. Hér er margfalt meiri hætta á ferðinni. Sá geislavirki úrgangur sem hér er verið að vinna úr er meiri en það geislavirka efni sem er í kjarnorkuvopnabúrum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna samanlagt eftir því sem Washington Post upplýsir 22. apríl. Af því geta menn markað hversu gífurlegt magn hér er á ferðinni og hér yrði um flug að ræða a.m.k. einu sinni í mánuði, kannski þrisvar eftir því hversu mikið magn yrði flutt hverju sinni.

Ég ítreka, herra forseti, þakkir mínar til Alþingis og til hæstv. forsrh. varðandi fsp. um þetta mál. Við þurfum hér sannarlega að vera vel á verði. Það er alveg með ólíkindum hvernig tíðindi af þessu tagi geta komið okkur í nánast opna skjöldu frá þjóðum sem við þó eigum tíð og veruleg samskipti við.