02.05.1988
Efri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7179 í B-deild Alþingistíðinda. (5214)

212. mál, fangelsi og fangavist

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði fyrr í umræðum um málin, sem ég mælti fyrir áðan, er þetta meginmálið og hin málin flutt til samræmingar.

Hér er búinn til einn nýr lagabálkur um fangelsi og fangavist og sett í einn heildarfrumvarpsbálk sem verður væntanlega að lögum.

Árið 1982 var samþykkt þáltill. um fangelsismál þar sem Alþingi ályktaði að kjósa sjö manna nefnd til að gera heildarúttekt á fangelsismálum og endurskoða lög og reglur þar að lútandi. Vorið 1982 skipaði Alþingi síðan í nefndina sem skilaði af sér frv. til ráðherra og er frv. að meginstofni eins og þeir gengu frá því.

Allshn. hefur fjallað um frv. og gert um það svohljóðandi nál.:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og kallað á fund sinn Björn Friðfinnsson, aðstoðarmann dómsmrh., Björn Einarsson, starfsmann Verndar, og Erlend Baldursson hjá Skilorðseftirliti ríkisins.

Umsagnir bárust frá Fangavarðafélagi Íslands, forstjóra vinnuhælisins á Litla-Hrauni og Landssambandi lögreglumanna.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem flutt er till. um á sérstöku þskj." Undir þetta skrifar öll allshn.

Það eru þrjár brtt. sem við leggjum til við frv. eins og kemur fram á þskj. 957.

Það hefur orðið mikil umræða um meðferð þeirra í öryggisgæslu sem eru geðsjúklingar og hafa önnur þau vandamál við að stríða sem samræmist því ekki að vera í fangelsi, í flestum tilfellum er frekar um heilbrigðismál að ræða. Í því sambandi er rétt að taka fram að meðferð þessara manna hefur lengi verið vandamál í þeim skorti á húsnæði og aðstöðu sem fangelsin hér á landi hafa búið við í mörg ár og reyndar frá upphafi. En nú hefur heilbrmrh., að beiðni dómsmrh., skipað nefnd til að reyna að komast að niðurstöðu um þetta. Sú nefnd hefur þegar hafið störf. Því leggjum við til að svo komnu máli að fella niður þessa setningu: „Ef sérstakar ástæður krefja er einnig heimilt að vista þar þá sem dæmdir eru í öryggisgæslu.“

Í 11. gr. teljum við rétt að fangelsismálastofnunin geti leyft að dómfelldur maður sé um stundarsakir eða allan refsitíma vistaður á sjúkrahúsi, en ekki ákveðið. Við teljum að það sé læknisins að ákveða þörfina.

Í 26. gr. teljum við að nægilegt sé að einangrunarheimildin sé í 30 daga, en ekki 60 eins og var í upphaflega frv. Teljum að það sé á mörkunum að halda mönnum mikið lengur en 30 daga í algerri einangrun.

Um frv. í heild hefur það komið fram í öllum umsögnum sem við höfum fengið og þeim viðtölum sem við höfum átt við ýmsa aðila að þó ýmsir hafi nokkuð aðra skoðun á einstökum liðum frv. telja þeir það í heild vera til mikilla bóta og að nauðsynlegt sé að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir núna og taka þá frekar einstök atriði þess til endurskoðunar þegar ástæða þykir til. Um þetta voru allir sammála, bæði þeir sem komu frá Vernd og Skilorðseftirlitinu. Reyndar má segja, með örfáum undantekningum eins og ég sagði áður um einstök smáatriði, að umsagnir hafi allar verið jákvæðar. Þess vegna hefur nefndin lagt til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.