02.05.1988
Efri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7180 í B-deild Alþingistíðinda. (5215)

212. mál, fangelsi og fangavist

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. allshn. þessarar deildar fyrir hennar störf að þessu frv. og lýsa mig samþykkan þeim brtt. sem nefndin flytur og tek undir það með hv. formanni nefndarinnar að það sé þarft og nauðsynlegt að lögfesta þetta frv. þótt um einstakar greinar þess kunni að vera skiptar skoðanir og tek undir hans ábendingu að það sé þá frekar hægt að færa það til betri vegar sem reynslan sýnir að bæta má og það sé ekki síst nauðsynlegt að lögfesta nú þetta frv. vegna þess að í gildi eru lög um fangelsi sem hafa að geyma ýmsar greinar sem alls ekki er fylgt og kannski ekki er nokkur leið að framfylgja. Það er ekki sísta ástæðan til þess að Alþingi taki nú af skarið.

Ég tek einnig undir það sem hv. form. allshn. þessarar deildar sagði um málefni geðsjúkra fanga og þeirra sem dæmdir eru til öryggisgæslu vegna þess að þeir eru ekki sakhæfir. Nú er unnið að tillögugerð í samstarfi heilbrmrn. og dómsmrn. um það hvernig best sé að koma þessu viðkvæma og vandasama verkefni fyrir í okkar stofnanakerfi. Það gildir bæði um fangelsin og um heilbrigðisstofnanir.