02.05.1988
Efri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7181 í B-deild Alþingistíðinda. (5217)

130. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála í héraði, með síðari breytingum. Nál. er svohljóðandi:

„Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess með þeim breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj.

Umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands. Á fund nefndarinnar komu Friðgeir Björnsson, yfirborgardómari og formaður stjórnar Dómarafélags Íslands, sem lagði til nokkrar brtt. Eru þær allar teknar upp af nefndinni. Allir aðilar mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum sem nefndin leggur til að samþykktar verði og telja þær til bóta.

Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu.“

Að öðru leyti skrifar öll allshn. undir þetta álit. Ég vil taka það fram, af því að umsagnir þeirra aðila sem ég nefndi voru frekar stuttar og gagnorðar, að t.d. Sýslumannafélag Íslands skrifar svohljóðandi og það er niðurstaða þeirra umsagnar:

„Stjórnin telur að .þær breytingar á einkamálalögunum sem frv. gerir ráð fyrir horfi allar til bóta og gerir því engar athugasemdir.“

Lögmannafélagið segir þetta í stuttu máli: „Laganefnd er samþykk efni frv. um breytingar á lögum nr. 85 frá 1936 og telur þær til bóta.“

Og stjórn Dómarafélagsins mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt sem lög og telur fyrirhugaðar breytingar allar til bóta, en leggur síðan til nokkrar brtt. eða viðbætur réttara sagt sem nefndin hefur tekið upp.

Forsaga þessa frv. er sú að 1981 voru samþykktar allverulegar breytingar á meðferð einkamála í héraði, á þeim lögum sem eru nú orðin nokkuð við aldur eða að stofni til frá 1936, og stefndi það allt að því að gera meðferð þessara mála bæði einfaldari og greiðari og afgreiðslu dómstóla skilvirkari. Að lokinni þeirri reynslu, sem er orðin af þeim lögum, taldi réttarfarsnefnd rétt að taka til athugunar hvernig þau hefðu reynst og ritaði ýmsum aðilum og bað um álit þeirra á því.

Það kom í ljós að flestir eru nokkuð ánægðir með reynsluna af þessari breytingu og telja hana hafi verið til bóta, en bentu þó á nokkur atriði sem væri rétt að taka til viðbótar og endurskoðunar. Réttarfarsnefnd hefur tekið mikið af þeim athugasemdum upp og er þetta frv. að stofni til unnið eftir þeim ábendingum og þeirri reynslu sem þegar hefur komið.

Ég held að ég fari ekki að lesa upp þessar breytingar. Þær eru á þskj. 966 og eru allar utan ein frá stjórn Dómarafélagsins. Sú eina sem er það ekki er 5. liður við 25, gr. 1. stafliður 2. málsgr. b-liðar 223 orðist svo: „Nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað.“ Í frv. segir: „Nöfn aðila, stöðu, heimili eða dvalarstað.“ Við vorum sammála um að staða manns væri kannski ekkert höfuðatriði heldur væri nær að taka upp það nýja númerakerfi sem núna er farið að nota, þ.e. kennitöluna, til að forða öllum misskilningi á milli aðila ef t.d. tveir menn bera sama nafn og búa á svipuðum slóðum, svo dæmi sé tekið.

Að öðru leyti leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.