10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

64. mál, Þjóðhagsstofnun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér um ræðir er að vissu leyti góðra gjalda vert. Hér er um það að ræða að fela Þjóðhagsstofnun að afla gagna um ýmsar þjóðhagsstærðir og vinna úr þeim á nákvæman og sundurgreindan hátt, sem í sjálfu sér getur verið mjög gott og þarft. Þó finnst mér ekki hægt að taka undir þessa till. athugasemdalaust.

Það er þá kannski fyrst að nefna að eitt þeirra verkefna sem talin eru upp í frvgr. á væntanlega betur heima annars staðar. Á ég þá við síðasttalda verkefnið, að afla upplýsinga um innlán og útlán innlánsstofnana og birta þær opinberlega einu sinni á ári í aðgengilegu formi, eins og stendur í 1. gr. Þetta verkefni finnst mér í öllu falli eðlilegra að fela Seðlabanka. Enda kemur fram í svari í fskj. með frv. að upplýsingar, sem þar var óskað eftir, fengust hjá Seðlabanka. Mér finnst ekki ástæða til þess að stuðla að skörun í kerfinu eða flækingi á milli stofnana.

Öðrum upplýsingum er hins vegar eðlilegt að leita eftir hjá Þjóðhagsstofnun, a.m.k. meðan hún er við lýði, en eins og hv. þm. vita þá eru alls ekki allir svo sannfærðir um tilverurétt þeirrar stofnunar. Sú sem hér stendur fyllir reyndar flokk þeirra sem gjarna vildu láta endurskoða tilverurétt og umfang þeirrar stofnunar og hvort ekki væri unnt að hagræða og samræma í kerfinu og fela verkefni Þjóðhagsstofnunar t.d. Hagstofu, Byggðastofnun, hagdeild Seðlabanka og e.t.v. fleiri aðilum. Þetta vildi ég gjarna sjá athugað þó að í mínum huga sé reyndar ekki um neitt sáluhjálparatriði að ræða.

En svo að við snúum okkur aftur að frv. og efni þess og tilgangi, þá er í stuttri grg. sagt að hér sé um að ræða undirstöðuatriði til að unnt sé að átta sig á mikilvægum þáttum byggðamála og framlagi einstakra kjördæma til þjóðarbúsins. Það veltist reyndar nokkuð fyrir mér að hvaða beinu gagni upplýsingar sem þessar komi. Það er auðvitað ekki spurning að niðurstöður slíkrar vinnu, sem hér er verið að tala um, yrðu afar fróðlegar og hefðu umtalsvert upplýsingagildi. Það er hins vegar svolítil spurning í huga mér hvert yrði notagildi slíkra upplýsinga og þrátt fyrir ræðu hv. fyrsta flm. fannst mér ekki koma þar fyllilega fram hverjar væru hugmyndir flm. í þessu efni og þætti vænt um að fá það betur skýrt. Ég sé það sem sagt ekki alveg í hendi mér hvert notagildið mætti vera. Mér þykir heldur ótrúlegt að hv. flm. séu hér að hugsa um t.d. að leggja það til að fjárveitingar til einstakra byggðarlaga færu að einhverju leyti eftir því hvern þátt þau eiga í gjaldeyrisöflun og varla þá heldur að það ætti að refsa þeim sem ekki eru jafnfiskin í þeim efnum.

Ég bið hv. flm. að taka þetta ekki illa upp. Ég ætla þeim ekki að hafa þessar forsendur fyrir tillögum sínum en mér finnst verða að skýra þetta ögn betur. Mér skilst að þessi verkefni mundu kosta umtalsverðan tíma og fyrirhöfn og mannafla og þar með peninga þar sem sú skýrslugerð sem nú er innt af höndum er ekki í því formi að slík gagnasöfnun sé nánast framkvæmanleg. Og nú er ég bara að vitna til þess sem hagfræðingar hafa sagt mér. Sjálf er ég heldur illa kunnug skýrslugerðum og hagfræðivinnu.

Ég bið hv. flm. að skilja ekki orð mín svo að hér sé verið að mæla gegn þessu frv. Það er ég alls ekki að gera á þessu stigi. En tilgangurinn verður að vera ljós og notagildið helst þekkt stærð ef á að auka verkefni Þjóðhagsstofnunar á þann veg sem hér er lagt til.