10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

64. mál, Þjóðhagsstofnun

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir jákvæðar undirtektir efnislega við þetta mál. Ég tók orð hans svo að hann teldi að hér væri um verðugt verkefni að ræða sem hann þá væntanlega mundi stuðla að sem húsbóndi þessarar stofnunar, Þjóðhagsstofnunar, eða annarra aðila sem fengju þetta verkefni því hæstv. forsrh. ræður einnig ríkjum í Byggðastofnun lögum samkvæmt þannig að það reynir þá einnig á þann sem gegnir forsætisráðherrastarfinu að hafa yfirumsjón með þætti sem þessum eða hafa áhrif á það hvernig hann er ræktur.

Ég vil taka það fram strax að mig skiptir í rauninni ekki miklu hvar verkefni af þessu tagi er vistað, hvort það er innan Þjóðhagsstofnunar, innan Seðlabanka eða innan Byggðastofnunar. Allt getur það vissulega komið til álita. Aðalatriðið er það að upplýsingar af þessu tagi séu dregnar fram og liggi fyrir í aðgengilegu formi með sem minnstum tilkostnaði, sé unnið á sem hagkvæmastan hátt. Og ef það yrði niðurstaða eftir skoðun í nefnd að hægt væri að taka á einhverjum þáttum sem hér eru tilgreindir, eins og varðandi innlán og útlán innlánsstofnana skipt eftir kjördæmum, annars staðar en í Þjóðhagsstofnun þá hefði ég ekkert við það að athuga og tel það sjálfsagt verkefni við frekari athugun málsins á vegum þingsins hvar best væri að koma þessu fyrir. Hins vegar sýnist mér miðað við gildandi lög um Þjóðhagsstofnun og heimildasöfnun og útgáfu, sem við hv. alþm. þekkjum, að þessum verkefnum væri vel komið þar, það komi fyllilega til greina í öllu falli með þorra þeirra verkefna sem hér er verið að fjalla um. Ég vitnaði til tiltekinnar greinar í lögum um Byggðastofnun og benti á að þar er vísað til Þjóðhagsstofnunar þannig að samvinna milli þessara aðila er auðvitað nauðsynleg og sjálfsögð. Það er kannski ekki síst Byggðastofnun sem ætti að njóta afrakstursins af svona starfi í þeirri stefnumótun og stuðningi við byggðastefnu í landinu sem þeirri stofnun er ætlað að rækja.

Þetta vildi ég segja almennt um þetta atriði. Ég get ekki ímyndað mér að það verði ágreiningsefni í sambandi við þetta mál og tök þess. En í stuttu samtali sem ég átti við núverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar komu ekki sérstakar athugasemdir við þetta, en hann hafði vissulega ekki fjallað neitt náið um málið, ég kynnti honum þetta aðeins símleiðis, og væntanlega verður hans álits og annarra starfsmanna í Þjóðhagsstofnun aflað af hv. fjh.- og viðskn.

Þá er það sá þáttur sem hv. 10. þm. Reykn., Kristín Halldórsdóttir, vék að: Hvert er markmiðið? Hvert á að vera notagildi upplýsinga af þessu tagi? Ég er viss um að hv. þm. áttar sig á hvaða þýðingu það hefur að hafa sem skýrastar upplýsingar af þessu tagi fyrirliggjandi við stefnumörkun um byggðaþróun í landinu. Varðandi ráðstöfun fjármagns til verkefna og einstakra svæða, sem er jú spurning um byggðaþróunina, ein af stóru spurningunum sem við þurfum að svara í sambandi við byggðaþróun. Það fólst kannski í ábendingum hv. 10. Reykn. að ekki væri eðlilegt að fara að skammta úr sameiginlegum sjóði eftir þeim mælikvörðum sem hér ætti að draga fram, eins og gjaldeyrisöflun. Ég vil ekki vera að gera hv. þm. upp skoðanir að þessu leyti, en ég minni á að vissulega hafa hugmyndir af því tagi komið fram og heyrst hér á Alþingi. Og ég er í þeim hópi sem telur að það þurfi að líta á þennan undirstöðuþátt í þjóðarbúskap okkar Íslendinga, hvar við öflum tekna til útgjalda. Við lifum jú að miklu leyti á innflutningi. Við búum að verulegu leyti að innflutningi í okkar landi, meira en við þyrftum að gera, vissulega. Það væri sjálfsagt unnt að haga því með öðrum hætti ef menn væru samtaka um það. En það er undirstaðan fyrir okkar eyðslu, undirstaðan fyrir okkar neyslu í landinu að allverulegu leyti. Og þess vegna þurfum við að sjálfsögðu að treysta þá undirstöðu ef við ætlum ekki að hverfa hér að sjálfsþurftarbúskap, en um það hef ég ekki heyrt tillögur hér á Alþingi. Ég tel að ein meginskekkjan í okkar þjóðarbúskap núna felist í því að það er ekki gert nógu vel við þessa undirstöðu. Það er ekki gert nógu vel við frumframleiðsluna í landinu og það fólk sem að henni starfar. Ekki í samanburði við þá sem mest eyða í samfélaginu og ekki heldur miðað við þá eyðslu sem fer í afleidda starfsemi, eins og við stundum orðum það, þjónustustarfsemi af margvíslegu tagi — það er vítt og rúmt hugtak, þjónustustarfsemi — og eyðslustarfsemi, eyðslu í þjóðfélaginu sem birtist okkur í framkvæmdum sem sannarlega eru umdeildar, a.m.k. umdeilanlegar út frá eðlilegum, þjóðhagslegum markmiðum.

Þetta er spurning um pólitískt mat og það er verkefni okkar þingmanna að meta þjóðfélagsþróunina, efnahagsstefnuna í landinu út frá eigin hyggjuviti og viðhorfum til þess hvað sé eðlilegt í þeim efnum. Þarna tel ég nauðsynlegt að draga fram þá þætti sem hér eru taldir og fleiri og fleiri.

Sú tilfærsla fólks í landinu og tilfærsla í byggðinni í landinu á sér stað vegna þess hvert fjármagninu er ráðstafað. Menn spyrja kannski hvað sé upphafið í þeim efnum. Er það vilji fólksins að flytja sig til eða er það vegna þess að það eru skapaðar aðstæður í krafti fjármagns til nýrra verkefna? Og þróunin í þjónustu og á menningarsviðum til menningarlegs lífs er sköpuð á ákveðnum svæðum en verður eftir á öðrum. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér en ég vek athygli á því að þetta er meginatriði, tilfærsla fjármagnsins, hvernig við miðlum því um æðar þjóðarbúsins og það er ekki síst það sem við höfum verið að leita eftir.

Ég tók orð hv. 10. þm. Reykn. sem vinsamlegar ábendingar og veit að hún þekkir talsvert til þessara mála sem fulltrúi í sínum þingflokki í byggðanefnd þingflokkanna sem skilaði áliti líklega 1985. Þar hefur þessi mál eflaust borið á góma og ég veit um stuðning hv. þm. við það sjónarmið sem ég hef borið hér fram, bæði í þáltill. og í frv., brtt. við sveitarstjórnarlögin, að deila landinu upp í sjálfstjórnareiningar, millistig í stjórnsýslunni, héruð. Til þess að það verði gert með skikkanlegum hætti og þeim falin verkefni við hæfi þurfum við að hafa svona gögn í höndunum. Það er kannski ekki undirstaðan ef pólitískur vilji er til staðar, en við þekkjum það, það er oft verið að hengja hatt sinn á skort á upplýsingum og menn segja: Við tökum ekki ákvarðanirnar vegna þess að við þekkjum ekki nógu vel til málsins, okkur vantar upplýsingar. Þær á að draga fram hér og það verður verkefni þeirra sem væntanlega fá það lögum samkvæmt eftir skoðun frv. og samþykkt laga þar að lútandi að leggja þær á borðið, en Pg er hvenær sem er fús til frekari viðræðu um undirstöðuþætti þessa máls og markmiðið sem liggur að baki frv.