03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7223 í B-deild Alþingistíðinda. (5279)

Almennar stjórnmálaumræður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hér í dag eins og oft endranær ræða menn gjarnan viðskiptahalla, stöðu atvinnuvega og ríkissjóðs. Efnahagsmálin eru vissulega sífellt viðfangsefni stjórnmálanna og viðskiptahalli og afkoma ríkis og fyrirtækja eru vitaskuld mælikvarði á hvernig til hefur tekist eða hvert stefnir.

Væntanlega dregur enginn í efa að ískyggilega horfir um stöðu þjóðarbúsins og við margvíslegan vanda er að fást. Hinu mega menn ekki gleyma að viðskiptahalli og staða atvinnugreina eru ekki einu mælikvarðarnir á hvernig til tekst í landsstjórninni og hver viðfangsefnin eru. Við eigum líka að spyrja: Hvernig hefur tekist til um réttlæti í tekjuskiptingu? Hvernig höfum við séð fyrir heilbrigðisþjónustu? Hvernig mætum við þörfum aldraðra? Hvernig höfum við sinnt nauðsyn unga fólksins fyrir íbúðir? Hvernig býr skólakerfið börnin undir lífið? Og hvernig kemur þjóðfélagið til móts við þarfir nútímafjölskyldunnar?

Svar mitt er að því fer víðs fjarri að okkur hafi tekist að mæta þessum verkefnum með viðunandi hætti. Við þokumst of hægt til réttrar áttar. Hér bíða brýn úrlausnarefni sem hverfa nú í skuggann. Pólitík snýst nefnilega ekki bara um viðskiptahalla og gengisstefnu. Hún snýst um lífið sjálft.

Lífeyrisréttindamál eru í ólestri, sameiginlegt lífeyrisréttindakerfi lætur á sér standa, tilfinnanlega skortir vistunarrými fyrir aldraða, heilbrigðiskerfið þarfnast sífelldra endurbóta og húsnæðislánakerfið rís ekki undir hlutverki sínu.

En við skulum hyggja að því hvað felst í þessum málaflokkum. Húsnæðismál má t.d. ekki skoða eingöngu sem hugtak sem menn geta hent á milli sín í deilum um hvort kerfið sé sprungið eða ónýtt eða það vanti í það 1 milljarð kr. eða fleiri. Húsnæðismál snúast um lifandi fólk, áhyggjufulla foreldra og aðbúnað barna. Skólamál eru ekki bara póstur á fjárlögum. Þau eru um það hvort skólinn sé góður, hvort þar ríki gott andrúmsloft, hvort öllum sé komið til þroska. Og þau snúast líka um hvernig skólakerfið er sniðið að þörfum fjölskyldunnar.

Í nútímaþjóðfélagi er það regla frekar en undantekning að báðir foreldrar vinni utan heimilis og veitir víst oft ekki af. Af því verður að taka mið, ekki bara í dagvistunarmálum heldur líka í skipulagi skólastarfs. Þessar aðstæður gera kröfu til þess að skóladagur sé samfelldur og mataraðstaða sé fyrir börnin. Mín skoðun er sú að þegar þurfi að vinna áætlun um að koma á samfelldum skóladegi innan fáeinna ára.

Auðvitað kostar þetta allt peninga. Þess vegna þarf traust skattkerfi og að því hefur verið unnið. Ég tel tvímælalaust að staðgreiðsla skatta sé mikið framfaraspor þó ekki sé nema vegna þess eins að þá eiga menn þá peninga sem þeir hafa á milli handanna og þurfa ekki að berjast við drauga af gömlum skattaskuldum.

Hitt veit ég að mörgum þykir nóg um skattbyrðina. Í því sambandi vil ég þó minna á þá breytingu að barnabætur eru nú útgreiddar en koma ekki til lækkunar skatta eins og áður var. Þetta þýðir að launaseðillinn sýnir hærri frádrátt til skatta en áður hjá barnafólki, jafnvel þótt heildarskattbyrðin sé nú lægri þegar barnabæturnar, sem eru útgreiddar, eru teknar með í reikninginn. Að þessu skyldu menn hyggja.

En þetta haggar þó ekki því að skattbyrðin er nú við efri mörk hins mögulega og skynsamlega. Þess vegna verður að endurskipuleggja ríkisbúskapinn þannig að fjármunir nýtist betur. Í ríkisbúskap eins og í öðrum rekstri er sífelld þörf fyrir nýsköpun og hagræðingu. Mikilvægast er þó að stefnumörkun sé sniðin að þjóðhagslegum markmiðum og hag þjóðarinnar allrar.

Í þessu sambandi verður ekki hjá því komist að minna sérstaklega á landbúnaðarmálin. Það kerfi sem hirðir milljarða á milljarða ofan ár eftir ár í alls kyns bætur og styrki úr ríkissjóði á sama tíma og sífellt sverfur meira og meira að bændum getur ekki gengið. Þetta er sóun sem við þolum ekki. Þetta kerfi þjónar ekki hagsmunum bænda og það er andstætt þjóðarhag. Þess vegna verður að leita nýrra leiða. Meðan ekki er náð tökum á þessu fargani verða bæði bændur og ríkissjóður í sífelldri úlfakreppu. Mín skoðun er sú að hætt sé þá við að þau brýnu viðfangsefni sem ég taldi hér í upphafi muni áfram sitja á hakanum.

Við erum dugleg að fjárfesta, Íslendingar, í steinsteypu, í verslunarhöllum, í virkjunum, í landbúnaði og í veiðiskipum, svo dugleg að það keyrir atvinnugreinarnar um koll og njörvar þær niður í óhagkvæm og flókin skömmtunarkerfi. Þetta bitnar á afkomu atvinnuveganna og lífskjörum fólksins í landinu. Slíkri óráðsíu verður að linna. Stjórnkerfi atvinnugreinanna verður að breyta þannig að það stuðli að hagkvæmni, hagræðingu, ráðdeild og skynsemi í fjárfestingu. Við þurfum nefnilega svigrúm til að fjárfesta líka í betra mannlífi.

Um þessar mundir ræða menn mjög rekstrarvanda atvinnuveganna og velta vöngum um stöðu gengisins. Ég geri ekki lítið úr vanda atvinnugreinanna og úr honum verður að leysa, en ég minni á að þessi umræða er ekki ný af nálinni. Hún hefur gengið í síbylju árum saman, stundum með nokkrum hléum þegar vel árar, en nær viðstöðulaust þegar verra er árferðið. Þetta er alltaf eins. Umræðan fellur því undir skilgreininguna „fastir liðir eins og venjulega“.

Ég spyr: Viljum við hafa þetta svona eða er okkur ekki sjálfrátt? Hversu lengi ætlum við að hjakka í sama farinu og hvað ræður því að sú umsköpun í atvinnulífi, sem á sér stað í öllum öðrum þróuðum löndum, nær ekki til okkar? Fer öll orkan í að halda því gangandi sem fyrir er og eins og það er? Meðal annarra þjóða er sífelld endurnýjun og nýsköpun. Sumar greinar dragast saman meðan aðrar spretta upp. Fyrirtæki eru endurvædd til að mæta nýjum kröfum og standa sig í samkeppninni. Þetta er órjúfanlegur hluti af lífsþrótti atvinnulífsins meðal þeirra þjóða sem standa sig best. Á þetta skortir hjá okkur. Og maður spyr: Hvað ræður því að framþróun í iðnaði er svona lítil á Íslandi meðan stórstígar framfarir eru í löndunum í kringum okkur? Allt minnir þetta á að við verðum að komast úr gamla farinu, horfa fram á veginn og tileinka okkur ný viðhorf, forðast stöðnun, blása þrótti í atvinnuþróunina, annars drögumst við aftur úr.

Tíundi áratugurinn mun einkennast af harðnandi samkeppni og vaxandi samvinnu þjóða í milli enn frekar en sá níundi. Ríki og fyrirtæki munu sameina krafta sína yfir landamærin til að nýta sem best þekkingu og tækni, framleiðslugetu og fjármagn. Þróunin í Evrópu og ákvörðun Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað er nærtækur hluti af þessari framvindu. Þótt aðild okkar að bandalaginu sé ekki á dagskrá verðum við að tileinka okkur þá breytingu sem hér er á ferðinni og aðlaga atvinnu- og efnahagslíf okkar að hinum nýju aðstæðum. Við megum ekki einangrast. Við verðum að taka þátt í þróuninni.

Þeir sögðu það Eurovision-þátttakendur okkar, Stormsker og félagar, að Íslendingar ættu margt ólært og staðfestu það reyndar eftirminnilega í þeirri keppni. Og það er auðvitað rétt. Allir eiga margt ólært. Við líka, ekki síður en aðrir. Á hinn bóginn höfum við dæmin um að Íslendingar geta skipað sér í fremstu röð. Það gera ýmsir listamenn okkar, íþróttamenn og skáksnillingar eins og sífellt sannast. Þá er einkar ánægjulegt að vera Íslendingur. En þetta sannar líka að með þjóðinni býr þróttur sem þarf til að gera vel. Þennan eiginleika verðum við að leggja rækt við og láta hann nýtast á öllum sviðum, þar á meðal í atvinnulífi og stjórnkerfi. Þannig treystum við undirstöður þjóðlífs og menningar. Á þeim grunni getum við aukið velferð og hagsæld. Þannig getum við bætt lífið, líf okkar sjálfra og það er meginviðfangsefnið. Það er markmið jafnaðarmanna. Það er stefna Alþfl. Góðar stundir.