04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7274 í B-deild Alþingistíðinda. (5301)

Forgangsröð mála

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir ósk hv. þm. Egils Jónssonar, formanns landbn., um það að 5. málið á dagskránni verði tekið fyrir nú þegar í upphafi fundar. Þetta er mál sem hv. landbn. er búin að hafa til umfjöllunar í vetur og þar hefur verið rætt um málið á nokkrum fundum og er a.m.k. samstaða um að taka það til umfjöllunar hér í hv. deild. Allir nefndarmenn hafa skrifað undir nál., sumir reyndar með fyrirvara. Það er sem sagt stuðningur allra nefndarmanna við frv. að það fái þinglega meðferð. Mér sýnist allt stefna í þá átt, miðað við að málið er búið að vera hér á dagskrá á þremur fundum, held ég fari rétt með, að það eigi að láta þetta mál liggja og ekki að fjalla um það. Það er meira að segja komið upp í ræðustól og óskað eftir því að það sé farið að fjalla um mál sem ekki er á dagskrá. Hv. þm. Halldór Blöndal ræddi um að hér þyrfti að fara að fjalla um virðisaukaskatt sem ekki er á dagskránni.

Ég tel það sjálfsagða skyldu deildarinnar að taka fyrir þetta mál sem fjallar um eitt aðalmálefni bændastéttarinnar. Það hefur ekki verið of mikið fjallað um þau mál í hv. deild. Ég óska þess eindregið að forseti verði við óskum hv. þm. um að þetta mál verði tekið á dagskrá fundarins. Ég mundi segja að það væri svo sem allt í lagi að 1. málið, ábúðarlögin, yrði afgreitt, en það er alveg fráleitt að fara að taka mál eins og umferðarlögin og ætla sér að þrýsta þeim hér í gegn í dag áður en þetta mál hefur fengið eðlilega umfjöllun sem hefur fengið miklu betri umfjöllun í nefnd en mál eins og umferðarlögin.