04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7275 í B-deild Alþingistíðinda. (5302)

Forgangsröð mála

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessum gauragangi núna, sérstaklega hjá hv. síðasta ræðumanni. Auðvitað fær það mál sem þeir bera svo mjög fyrir brjósti, hann og hv. þm. Egill Jónsson, þinglega meðferð. Auðvitað verður það rætt hér. Hvernig dettur mönnum annað í hug?

Hér er einfaldlega um það að ræða að hagræða svolítið vinnubrögðum þannig að stórt mál og viðamikið, sem nefnd hefur lokið umfjöllun um í þessari hv. deild, geti fengið umræðu í dag og komist svo fljótt sem verða má til meðferðar í hv. Nd. Þetta er forgangsmál af hálfu meiri hlutans hér.

Mér sýnist að það væri kannski að sumu leyti eðlilegt, virðulegi forseti, þar sem ég veit að aðalforseti þessarar deildar gekk frá þessari dagskrá, hann hefur lögmæt forföll um sinn, hann kemur fljótlega aftur, að við héldum fundinum áfram og þessi umræða biði þá eftir honum vegna þess að það er ekki við fyrri varaforseta, sem nú situr í forsetastól, að sakast um hvernig þessi dagskrá er saman sett eða prentuð. Ég vildi eindregið mælast til þess að við getum haldið áfram eðlilegum störfum og þessi umræða biði þar til síðar, en tek að öðru leyti undir með hv. þm. Halldóri Blöndal.