04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7276 í B-deild Alþingistíðinda. (5304)

Forgangsröð mála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Menn geta auðvitað notað orðið „sanngirni“ með ýmsum hætti og hver hlýtur að gera það út frá því sem hann telur sanngjarnt. Ég heyri það á hv. 5. þm. Austurl. að honum þykir það helst sanngjarnt í þessu tilviki sem honum hentar best og í samræmi við það sem eru gildandi reglur hér í þinginu. Á tímabili heyrðist mér hann tala eins og framsóknarmaður þegar hann var að tala um samkomulagið í ríkisstjórninni og hvernig einstakir stjórnarsinnar ættu að haga sér hver gegn öðrum. Er það síst til fyrirmyndar og ég held að hann ætti að taka sér fremur flokksbræður sína til fyrirmyndar og vera bljúgur og kurteis gagnvart öðrum stjórnarþingmönnum og ráðherrum og ríkisstjórn sérstaklega.

Ég vil aðeins segja það, hæstv. forseti, að um það hafði náðst samkomulag að frv. um virðisaukaskatt yrði tekið hér til umræðu í dag og ég hygg að það hafi verið þingmönnum úr öllum flokkum kunnugt. Nú má það vel vera að okkur sækist vel og það sé síðan svigrúm til að taka önnur mál á dagskrá. Ekki skal ég um það segja. En hitt veit ég að hv. 5. þm. Austurl. sækir þetta mál nú af fullri hörku og getur ekki hugsað sér að samstarfsmenn hans hér í þinginu hafi sóma af því samkomulagi sem þeir hafa gert um vinnubrögð í dag. Má vel vera að það bæti þann málstað sem hann er að berjast fyrir að tala með þeim hætti.

Ég bað þennan hv. þm. um það áðan hann mundi sýna sanngirni í garð sinna vina, falla frá kröfunni sem hann hefur gert um að það mál sem hann ber fyrir brjósti verði tekið til umræðu í dag og greiði með þeim hætti fyrir þingstörfum. Hv. þm. er vel um það kunnugt að það frv. sem hann ber fyrir brjósti er með engum hætti sambærilegt við frv. um virðisaukaskatt að öllu umfangi og þeirri vinnu sem þarf að leggja í athugun málsins. Þess vegna veit hann jafn vel og ég að það ríður á að koma því máli til Nd. Hitt er mér algerlega ljóst að þessi hv. þm. getur hagað sér með ýmsum hætti í deildinni í dag og verður þá við það að sitja.

En ég vildi biðja hæstv. forseta að gera hlé á þessum fundi þannig að einstakir þingmenn geti komið sér saman um hvernig eigi að starfa í dag en að fundurinn og dagurinn allur fari ekki í tómt kjaftæði um aukaatriði.