04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7277 í B-deild Alþingistíðinda. (5306)

Forgangsröð mála

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það leyndi sér ekki að það var mikið valdsmannsyfirbragð á hv. þm. Halldóri Blöndal sem var að veita mér föðurlegt tiltal áður. Hann var sérstaklega í þessu sambandi að tala um að það hefði verið gert sérstakt samkomulag sem menn ættu að standa við og a.m.k. ættu flokksbræður ekki að hindra menn í að geta haldið samkomulag. Hverjir hafa verið að gera þetta samkomulag? Mér er spurn. Ekki hefur það verið orðað við mig, ekki einu einasta orði, að þessu máli yrði skákað hér enn þá til hliðar. (HBl: Það er rangt.) Ekki einu einasta orði. (HBl: Það er rangt.) Ég bankaði á dyr hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. áðan og sagði honum frá því að ég mundi ganga eftir því í upphafi þessa fundar ef ekki yrði af að þetta mál yrði tekið á dagskrá. Hann orðaði það ekki einu einasta orði að það hefði verið gert samkomulag um annað, enda hefur það ekki verið orðað við mig. Auðvitað mátti hv. þm. vel vita að þetta er eina málið, sem búið er að vera á þessari dagskrá í þrjá fundi, sem ekki hefur verið tekið hér til afgreiðslu og umræðu. Þannig er það fullkomlega óeðlilegt og hreinn yfirgangur að vera í einhverjum samkomulagsviðræðum án þess að hafa um það samband við þá þingmenn sem hér eiga hlut að máli.

Það eru á þessari dagskrá m.a. mál frá landbn. Ed. Alþingis. Ég er ekkert viss um að ég taki til með að lýsa þeim með því að það eigi að sparka þessu máli út af.

Ég vil sem sagt alveg sérstaklega mótmæla því sem kom fram áðan og mér finnst harðar og ómaklegar aðdróttanir að ég sé hér einhver friðarspillir. Ef það er einhver ófriður hér á ferð er til hans stofnað vegna tillitsleysis við mig og okkur sem að þessu nál. stöndum. Ég held að það sé út af fyrir sig ágætur skóli fyrir þá sem telja sig hafa völd og umboð til að semja hér áfram um mál, ráða vinnubrögðum, að þeir komist að því að það þurfi stundum að taka tillit til þeirra sem vinna ýmis störf hér og m.a. ríkisstjórn á ýmislegt undir að mál geti gengið fram.