04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7291 í B-deild Alþingistíðinda. (5321)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það mál sem hér um ræðir hefur m.a. verið til meðferðar og er til meðferðar hjá hæstv. landbrh. Með því hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi tillögu um að vísa því til ríkisstjórnarinnar:

„Frv. þetta felur í sér staðfestingu á markmiðum búvörulaganna um staðgreiðslu sauðfjárafurða, hliðstætt því sem gildir í mjólkurframleiðslu. Þessi breyting ætti að vera auðveld í framkvæmd og ætti tæpast að leiða til umtalsverðs kostnaðarauka vegna minni lánsþarfar (staðgreiðslulána) milli áranna 1988 og 1989. Hér er því um mál að ræða sem ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að komi til framkvæmda fyrir næstu sláturtíð.

Þar sem ríkisstjórnin hefur í athugun fleiri breytingar á tilhögun á greiðslum fyrir sauðfjárafurðir sem munu tryggja enn frekar afkomu sauðfjárbænda er lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa tillögu. Hún skýrir sig að öðru leyti sjálf.