04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7292 í B-deild Alþingistíðinda. (5322)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir gefur svo sannarlega tilefni til þess að ræða um landbúnað, stöðu hans og framtíð, en þó aðallega um það flókna og þunglamalega sölufyrirkomulag sem hann býr við. Ég ætla þó ekki að eyða dýrmætum tíma hv. þingdeildar með því að fara mjög ítarlega út í þau mál, en gera stuttlega grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við nál.

Meginatriði frv. felst í að lagfæra þann þátt sem snýr að sauðfjárbændum. Sú aðgerð er þó ekki einhliða. Hún tekur einnig til sláturleyfishafa og ríkissjóðs. Það er mikið umhugsunarefni hvernig staða yfirleitt allra framleiðslufyrirtækja í landinu er, þar á meðal sláturleyfishafa, og það er reyndar einsýnt að ef ekki verður tekið á þeim vanda, sem fyrirtækin eiga við að glíma, verða þau gjaldþrota eitt af öðru og fjöldi fólks, einkum á landsbyggðinni, missir vinnu sína og jafnvel eignir.

Það er sífellt talað um vanda landsbyggðarinnar þegar rætt er um þessi mál, en menn verða að fara að gera sér grein fyrir að hér er alls ekki um einangrað vandamál landsbyggðarinnar að ræða. Vandi landsbyggðarinnar hlýtur að vera vandi sem snertir alla þegna þessa lands og til þess að leysa hann verður að taka pólitískar ákvarðanir. Verst er auðvitað ástandið þar sem atvinnulífið er einhæft og byggir einkum á þjónustu við landbúnaðinn, en eins og menn vita hefur orðið mikill samdráttur í landbúnaði á sl. árum. Á mörgum svæðum þar sem aðallega er stunduð sauðfjárrækt og þar sem ekki hafa komið til nýjar búgreinar horfir jafnvel til auðnar.

Eins og áður sagði er frv. ætlað að rétta hag sauðfjárbænda og tryggja þeim sams konar greiðslufyrirkomulag og gildir um mjólkurafurðir. Það er hins vegar einn stór galli á frv. Ekkert í því tryggir að staðið verði við fjármögnunarhlið þess. Sláturleyfishafar telja að þeim verði torvelt að standa skil á þessum greiðslum til bænda. Það vekur upp spurninguna um hvort sá háttur sem nú er hafður á sé sá ákjósanlegasti. Sú staða sem sláturleyfishafar hafa þráfaldlega komist í, að vera á milli steins og sleggju milli ríkissjóðs og framleiðenda, er með öllu óviðunandi fyrir alla aðila. Væri ekki athugandi hvort Framleiðsluráð landbúnaðarins tæki að sér að inna þessar greiðslur af hendi? Ég varpa þessu hér með fram sem hugmynd til nánari skoðunar.

Ég er mjög hlynnt meginefni frv., enda eru langflestar umsagnir sem um það bárust jákvæðar, og vísa á bug tæknilegum örðugleikum við framkvæmd þessa greiðslufyrirkomulags. Hins vegar er fjármagnsþáttur þess engan veginn tryggður og á því byggist fyrirvari minn. Hér hefur reyndar verið borin fram tillaga af hæstv. forsrh., sem mér sýnist vera til bóta, að til standi að taka þetta mál upp og tryggja að slíkt greiðslufyrirkomulag taki gildi í næstu sláturtíð. Því hlýt ég að styðja þá tillögu sem slíka.