04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7293 í B-deild Alþingistíðinda. (5324)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af hv. nefndarmönnum sem skrifa undir með fyrirvara og mig langar í örstuttu máli að gera grein fyrir hvers vegna.

Ég er í meginatriðum sammála hv. fim. hvað það snertir að greiða sauðfjárbændum fyrr fyrir sínar afurðir. Það er réttlætismál og gott mál. En þar sem okkur greinir á er varðandi afurðastöðvarnar. Ég fullyrði að þær eiga í verulegum erfiðleikum með að láta enda ná saman og sú fjármögnun sem þær hafa fengið af hálfu ríkisvaldsins hefur ekki nægt. Þar af leiðandi get ég ekki annað en skrifað undir með fyrirvara.

Hv. flm. vitnaði í skeyti frá sláturleyfishöfum og fleira sem frá þeim hefði komið varðandi þetta mál og eins það að þeir hefðu verið þeir einu sem hefðu gefið þá umsögn um frv. að þeir mæltu ekki með að það yrði samþykkt. Það er ósköp einfalt mál að meðan ríkisvaldið stendur ekki við að fjármagna þeirra rekstur og þeim hefur verið gert þetta enn erfiðara með því að fyrir rúmu ári var fyrirkomulagi varðandi vaxta- og geymslugjald breytt. Þetta eru ástæður þess að þeir treysta sér ekki til að borga bændum fyrr án þess að hafa það alveg tryggt að ríkisvaldið ætli að koma inn í.

Ég fagna því að hér hefur komið tillaga frá forsrh. um að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem þar sé verið að vinna að þessum málum og mun styðja þá tillögu.