04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7298 í B-deild Alþingistíðinda. (5327)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hlýt ég að fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og þakka hana. Það er afar mikilvægt að hér skuli á þessum degi hafa farið fram umræða um landbúnaðarmál sem einnig hefur tekið til byggðamála. Ég er sannfærður um að þessi umræða mun skila árangri. Ég held að það hefði verið býsna köld sumarkveðja frá Alþingi til bænda landsins og til hinna dreifðu byggða ef það hefði ekki heyrst einhver rödd eða raddir um málefni þess atvinnuvegar.

Ég ætla ekki að leyna því að mér hefur fundist vera þyngra fyrir fæti en efni standa til. Kannski er ástæðan að einhverju leyti sú að umræðan sem skýrir þróun þessara mála fer nú fyrst fram. Menn eru þess vegna ekki eins viðbúnir að taka afstöðu í þessum málaflokki og annars væri. Ég get t.d. alveg ómögulega skilið vegna hvers menn geta ekki fallist á eða setja það fyrir sig að bændum berist fullar greiðslur á tilsettum tíma þegar fyrir liggur að fyrirgreiðslur í afurðalánum og staðgreiðslulánum mæta allri útborgunarþörfinni til framleiðenda. Ég á óskaplega erfitt með að skilja hvað menn setja fyrir sig því að auðvitað gengur ekki að taka á móti afurðalánum og staðgreiðslulánum nema fullur árangur komi á móti, þ.e. að greiða bændum eins og lög ákveða. Mér er þess vegna alveg óskiljanleg sú staðhæfing að það séu erfiðleikar á að samþykkja þetta frv.

Ég held að það sé nokkuð ljóst að þeir sem eru í andstöðu við staðgreiðslu á sauðfjárafurðum eru í raun að afþakka þessa fyrirgreiðslu. Það fjármagn sem er lagt til staðgreiðslulánanna er afhent afurðastöðvunum til þess að þeir sem taka á móti því geri full skil. Svo einfalt er málið. Fyrir þann tíma sem staðgreiðsla var lögleidd höfðu sláturleyfishafar einungis afurðalán og í sama hlutfalli og nú er. Það er því alveg augljóst mál að þeir sem taka við þessum peningum eiga að verja þeim til greiðslu á þeim kostnaði sem fylgir staðgreiðslu á búvörum. Svo einfalt er málið.

Ég held að það sé rannsóknarefni hvort staða sláturleyfishafa vegna viðskiptanna við sauðfjárbændur sé svo bágborin sem menn láta í veðri vaka. Ég held að það sé virkilega mikið rannsóknarefni. Og ég leyfi mér að draga það í efa. Mér sýnist að sauðfjárafurðir séu nefnilega látnar bera uppi vinnslu- og dreifingarkostnað á öðrum kjötvörum. Það er spurning hvort sá rekstrarhalli sem svo mjög er umtalaður á sláturhúsunum er ekki tilkominn vegna annarra búgreina eða hvort eitthvað hefur hugsanlega glatast í afslætti til kaupmannsins.

Þetta vil ég segja í fullri alvöru og ég trúi því og treysti að þessi mál verði athuguð út frá þessum sjónarmiðum. Það er ekki hægt fyrir sláturleyfishafa að velja sér neina vitlausari aðferð til þess að verða teknir trúanlegir í þessum efnum en þá að senda skeyti um að félagar þeirri eigi að brjóta lögin í þessu landi. Slíkar skeytasendingar hafa ekki mína samúð, það er alveg augljóst mál.

Nú er það vitanlega þannig að það hlýtur að vera erfiðara að reka þessi fyrirtæki með minnkandi framleiðslu. Ef við horfum á t.d. fjártöluna í landinu þá hefur hún minnkað um þriðjung á örfáum árum. Ég hygg að það sé talað um 640 þús. fjár á fóðrum núna, en það er ekki langt síðan að sauðfé var nærri 1 millj. Auðvitað hlýtur þetta að þrengja að, en það verða aðrir að taka mið af þessu alveg eins og bændur landsins. Það er óumflýjanlegt. Og það er vond þróun og reyndar alveg ólíðanleg að það skuli vera teknar jafnháar greiðslur út úr þessum framleiðslupakka í heildsölukostnaðinn og var á meðan framleiðslan var fjórðungi meiri en hún er núna. Það getur ekki gengið. Þegar við heyrum og sjáum kröfur milliliðanna um að hækka beri álagninguna þá er það krafa sem kemur til frádráttar hjá bændum vegna þess að þessi vara þolir ekki einu sinni það verð sem nú er, verðþol hennar er brostið. Sláturleyfishafar, smásalar og svo minnkandi niðurgreiðslur hafa hækkað þessa vöru um 26% á síðustu árum. Reyndar hafa þeir hækkað hana um 33% frá árinu 1979, en frá þeirri tölu dregst það sem bændur hafa lækkað kjötvörur í verði eða um 7% og þá fæst niðurstaða sem er 26% verðhækkun. Menn verða að horfa á þessi mál í þessu samhengi.

Ég er líka alveg sannfærður um að auðvitað finna menn rekstrargrundvöll fyrir þessi lífsnauðsynlegu verkefni, annað gengur ekki upp, en það verður að gerast með öðrum hætti en þeim að færa þann kostnað inn í búvöruverðið með einum eða öðrum hætti.

Ég vil sérstaklega undirstrika þetta og ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að það er nokkuð óvænt hvað menn eru fastir í þeim skýringum að það sé erfitt að greiða bændum vegna bágborinnar afkomu hjá sláturleyfishöfum. Ég minni á að um miðjan desember var ekki einn einasti sláturleyfishafi búinn að gera upp sína reikninga. Samt var farið að tala um erfiða kosti. Og það er núna búið að sanna að þeir fengu það fjármagn sem þeir þurftu að standa skil á til reksturs og til greiðslna til bænda þannig að eiginfjárstaðan versnaði ekki.

Það er svo annað mál, eins og ég sagði frá áðan nokkuð skýrlega, að allur sá sparnaður sem orðið hefur í landbúnaðinum, minni fjárfesting, minni kaup á rekstrarvörum og þar fram eftir götunum, allra handa þjónusta sem bændur hafa sparað að kaupa þrengir auðvitað að í atvinnulífinu úti á landi. Það er miklu meiri orsakavaldur en hvað dregið hefur úr framleiðslunni. Menn búa orðið öðruvísi, hafa fyrst og fremst að markmiði að tryggja eigin afkomu, eigin rekstur og leitast við að spara í aðföngum svo sem frekast er kostur. Það er þetta sem hefur bjargað íslenska bóndanum á síðustu árum. Þetta hefur meira að segja leitt til þess að í mjólkurframleiðslunni fara tekjur bænda batnandi. Það er búið að taka upp aðra búskaparhætti. Það væri hægt að hafa býsna langt mál um þetta. Þessar staðreyndir sýna að sú einkunn sem hæstv. viðskrh. gefur þessari stétt er röng. (SvG: Hvar er hann eiginlega?) Ég sagði frá því áðan að ráðherrann hefði ætlað að mæta í upphafi þessa fundar. Klukkuna vantar nú tæpar tuttugu mínútur í sjö og hann er ekki enn kominn. Kannski hefði hann ekkert komið hingað inn í deildina ef hann hefði vitað hvaða erindi ég átti við hann.

Ég vil svo að endingu segja að ég vona að umræður um landbúnaðinn og um dreifbýlið eigi eftir að taka á sig aðra mynd, bæði hér á Alþingi og líka hjá þeim framagosum sem eru að reyna að koma sér áfram í þjóðfélaginu. Okkur var sagt frá því, landbúnaðarnefndarmönnum, hér um daginn, sem við höfum reyndar ekki tölur um, hvernig viðhorfin eru til hinna dreifðu byggða, til þeirra fyrirtækja sem bændur eiga og stjórna. Það hefur farið fram skoðanakönnun um þessi efni. Ég held að það komi ýmsum þær niðurstöður nokkuð á óvart þegar þær munu birtast. Ég held að menn auki ekki eins mikið vinsældir sínar eins og þeir halda með neikvæðri umræðu um hinar dreifðu byggðir. Nýleg skoðanakönnun sýnir að það er góður skilningur í þéttbýlinu í garð fólksins úti á landi. Það er svo aftur á móti að auðvitað er hægt að brýna svo deigt járn að bíti. En auðvitað á Alþingi frekar að fara með sáttarorð á milli fólksins í landinu en að etja því saman.

Herra forseti. Ég er bærilega sáttur við þá afgreiðslu sem hér er lögð til. Það er rétt, sem hér kom fram og þarf ekkert að vera að dylja menn um, að hún er samkomulag í málinu. Það er betra að ná málum fram, það skilar árangri, en að blása í herlúðra því að náttúrlega er góður meiri hluti fyrir þessu frv. á Alþingi. Um það er engin spurning. En hér liggja fyrir alveg ótvíræðar yfirlýsingar. Hér er till. sem forsrh. leggur fram og þó að það sé dagskrártillaga er texti hennar alveg ótvíræður og landbrh. hefur fyrir sitt leyti í ræðu staðfest þessa niðurstöðu. Hér eru að því leyti góð leikslok að það er tekið fram að staðgreiðsla sauðfjárafurða eigi að taka gildi á grundvelli frv. á næsta hausti. Þing kemur reyndar ekki saman fyrr en 10. okt. Það er útborgunardagurinn fyrir þær sauðfjárafurðir sem seldar eru í septembermánuði. Það er þá býsna gott fyrir ríkisstjórnina að muna dagsetninguna. Það er samkomudagur Alþingis. Ég efa ekki að það mun gleðja bændur landsins að fá þá í veskið sitt þær greiðslur sem þeir eiga að sjálfsögðu siðferðislegan rétt á, sem þeir eru búnir að taka mið af í sínum búrekstri. Það er vissulega góður kostur að þessi tímamörk skuli vera miðuð við samkomudag næsta Alþingis. Þá fer ekki á milli mála hver niðurstaða þessarar afgreiðslu verður.