04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7314 í B-deild Alþingistíðinda. (5338)

431. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé eitt af síðustu meiri háttar málunum sem rædd verða í þessari deild í vetur. Hér er um að ræða viðamikla skattkerfisbreytingu.

Ríkisstjórnin hefur flutt í vetur 81 stjfrv., þar af eru 20 skattafrumvörp. Til þess að segja ríkisstjórninni eitthvað til málsbóta er rétt að geta þess strax í upphafi að hún hefur verið mikilvirk í því að leggja á skatta. Hún hefur gengið lengra í því en nokkur önnur ríkisstjórn. Skattar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verða hærri á þessu ári en verið hefur um langt árabil. Það þarf að fara langt aftur í svæsnustu vinstri stjórnir til að finna því samjöfnuð.

Mega það heita nokkur tíðindi að Sjálfstfl. skuli í þessari deild hafa tekið að sér forustuhlutverkið við að knýja fram þær skattahækkanir og skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur gert tillögur um og leggjast á almenning í landinu og eru upp á 8–9 þús. milljónir kr. Það er upphæðin sem nýir skattar þessarar ríkisstjórnar nema á árinu 1988.

Það er einnig athyglisvert að einmitt þetta mál skuli vera eina stóra málið sem stjórnarflokkarnir sameinast um núna á síðustu dögum þingsins. Það er ekki verið að taka á vandamálum atvinnuveganna þegar okkur berast fréttir um eitt gjaldþrot á dag eða svo í fyrirtækjum allt í kringum landið, síðast nú í kvöldfréttum í kjördæmi hv. þm., þ.e. Rækjuvinnslan á Kópaskeri. Hef ég þó ekki trú á því að tækniframfarir né heldur bættar samgöngur hafi riðið Rækjuvinnslunni á Kópaskeri að fullu, en það voru meginskýringarnar á vanda atvinnuveganna sem hv. þm. rakti hér áðan.

Ég hygg líka að það séu aðrar skýringar á því að í hádeginu í dag birtust fréttir um tap hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Nýlega birtust fréttir um gjaldþrot hjá Kaupfélagi Vestur-Barðstrendinga. Það birtust nýlega fréttir um stórfellt tap hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar, verulegt tap hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, verulegt tap hjá Kaupfélagi Þingeyinga, vöggu samvinnuhreyfingarinnar, og Kaupfélagi Héraðsbúa. Hvar sem borið er niður á landsbyggðinni kemur í ljós að fyrirtækin eru rekin með tapi. Sjávarútvegurinn, undirstaðan, er rekin með stórkostlegu tapi upp á 10%, segir Þjóðhagsstofnun í skýrslu sem birt er í dag í fjölmiðlum en er auðvitað leyniplagg hér og fær ekki að koma inn í þingið frekar en önnur merkileg plögg.

En ekkert af þessu er hér á dagskrá að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Egill Jónsson getur með „nöd og næppe“, eins og það heitir á heimsmálinu, pínt það í gegn í dag að það fáist rætt um vandamál landbúnaðarins. Hann situr lengi vel undir skömmum frá hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir þau strákapör í umræðu um þingsköp hér í dag. En að frumkvæði ríkisstjórnarinnar er ekki verið að ræða um vandamál atvinnuveganna, ekki iðnaðarins, ekki sjávarútvegsins, ekki landbúnaðarins.

Einu nýju starfstækifærin sem ríkisstjórnin hefur forustu um að skapa eru 40 ný störf í virðisaukaskattskerfinu, 40 nýir skriffinnar í virðisaukaskattskerfinu og auk þess margir tugir í fyrirtækjunum allt í kringum landið eftir að virðisaukaskatturinn hefur verið tekinn upp. Margir tugir manna sem munu keppast við að halda bókhaldinu stöðugu og halda bókhaldinu í lagi eftir þeim kröfum sem hér er verið að gera.

Það er makalaust að þetta skuli vera ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. er innbyrðis, flokkur sem hefur stundum státað sig af því að hann vildi hugsa um hagsmuni íslenskra atvinnuvega, að í þessari ríkisstjórn skuli vera Framsfl. sem hefur státað sig af því að hann vilji halda utan um hagsmuni landsbyggðarinnar. Það er hins vegar ekkert merkilegt með Alþfl. í þessu efni. Alþfl. hefur gengið fram í núverandi ríkisstjórn sem flokkur skriffinnanna, hinna glöðu skattlagningarmanna sem ætla að senda hersveitir skriffinna inn á svo að segja hvert heimili í landinu til að skattleggja hér og skattleggja þar.

Það er út af fyrir sig nokkuð til í því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að langflestir talsmenn hagsmunasamtaka styðja upptöku virðisaukaskatts. Það er best að því verði slegið alveg föstu hér að þeir bera ábyrgð á þessu máli líka. Þar er ekki við ríkisstjórnina eina að sakast eins og staðan er.

Iðnaðurinn kallar á virðisaukaskatt. Forustumenn Landssambands iðnaðarmanna kalla á virðisaukaskatt. Samtök í sjávarútvegi sjá stórkostlega meinbugi á því að hafa virðisaukaskatt en vilja samt fá hann. Meira að segja Stéttarsamband bænda kallar á virðisaukaskatt. Ég hefði gaman af því að vita hversu margir bændur hafa verið spurðir ráða áður en Stéttarsamband bænda sendi sína fulltrúa á fund fjh.- og viðskn. Ed. til að blessa virðisaukaskattinn. Ætli ríki gleði og tilhlökkun hjá smábændum á Vestfjörðum, Vesturlandi eða Norðurlandi eystra, Norður-Þingeyjarsýslu eða annars staðar, yfir því að fá að bæta við sig nokkrum vinnustundum á viku við að færa virðisaukaskattsbókhaldið fyrir hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. fjmrh.? (Gripið fram í: Á númeruðum reikningum.) Á númeruðum reikningum að sjálfsögðu og helst númeruðum á vinnustað eins og kom hér fram í svari við frammíkalli mínu hér áðan varðandi byggingariðnaðinn. Það á helst að skrifa þá á vinnustað og númera þá þar strax.

Hér er um kostulega hluti að ræða og mikla oftrú á skriffinnskuna. Bókhaldssýkin læsir sig í allt þjóðfélagið, inn í hvert einasta smáfyrirtæki í landinu, inn á hvert einasta bóndabýli, hvern einasta trillukarl, hvern einasta einyrkja sem gerir út vörubíl eða drossíu til að lifa af — hann skal halda bókhald um útskatt og innskatt og innskatt og útskatt daginn út og daginn inn. Þetta er Sjálfstfl., flokkur frelsisins, hins mikla athafnafrelsis þar sem fólkið og frumkvæði þess á að fá að njóta sín. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig menn munu njóta sín á litlu bændabýlunum í kringum landið þegar þeir þurfa að hlaupa frá heyskapnum til að færa bókhald. Þá þurfa menn að nota þerrinn ekki bara til þess að taka saman og hirða heldur líka til að færa bókhald, útskatt og innskatt og innskatt og útskatt, fyrir hæstv. ríkisstjórn, hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. fjmrh.

Ég hygg að menn geri sér almennt ekki grein fyrir því þegar verið er að setja þessa hluti fram að hér er um að ræða skattakerfi sem er búið til fyrir milljónaþjóðir, háþróuð iðnaðarþjóðfélög þar sem uppistaða atvinnulífsins eru stór, þróuð iðnaðar- og þjónustufyrirtæki sem hafa þróast á markaði um áratuga skeið. Þar eru aðstæður allt aðrar en hér á landi. Enn þá einu sinni er verið að apa eftir öðrum til þess að hægt sé að segja í einhverjum heldrimannasamkomum hjá EFTA og Efnahagsbandalaginu og OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum: Já, við erum líka með virðisaukaskatt rétt eins og hinir. Menn þurfa ekki að skammast sín lengur og roðna og segjast vera með gamla gamaldags söluskattinn.

Ég held, hæstv. forseti, að þessar staðreyndir um það hvað virðisaukaskatturinn, bókhaldið og skriffinnskan er mikil fjarstæða miðað við íslenskar aðstæður, valdi því að í stjórnarflokkunum hafa verið verulegar og tilfinnanlegar „innantökur“ núna að undanförnu um það hvort ætti að afgreiða þetta frv. Mér er kunnugt um það af samtölum við fjöldamarga þm. úr öllum stjórnarflokkunum að þar hafa menn verulegar áhyggjur af þessu kerfi, alveg sérstaklega í Sjálfstfl. Í hinum flokkunum eru menn meira kerfistrúar en í Sjálfstfl., þetta hefur verið erfiðara fyrir ýmsa þm. Sjálfstfl. en þm. framsóknar og kratanna - ég tala nú ekki um þá síðastnefndu.

Það er ekki lengra síðan en núna um helgina að hæstv. sjútvrh., varaformaður Framsfl., sagði í viðtali við eitthvert blað að í raun og veru mætti þessi virðisaukaskattur vel bíða. En síðan tóku þeir á sig rögg og ákváðu að drífa málið í gegn þrátt fyrir þessar innantökur, þrátt fyrir þessa erfiðleika í stjórnarflokkunum. Það hafa verið haldnir fundir daglangt og náttlangt í fjh.- og viðskn. Ed. Og það er engin ástæða til að draga neina fjöður yfir það að þar hefur verið vel unnið eftir því sem kostur hefur verið á. Þar hafa menn verið kallaðir fyrir skv. þeim óskum sem komið hafa bæði frá stjórnarþingmönnum og stjórnarandstöðu og er ekkert upp á það að klaga.

Ég vil láta þennan almenna inngang koma hér fram, virðulegi forseti, vegna þess að hann sýnir hvað þetta mál er í rauninni gjörsamlega óþarft. Það er ekkert í íslenska þjóðlífinu í dag sem kallar á þetta mál. Ekki Rækjuvinnslan á Kópaskeri, ekki Kaupfélag Borgfirðinga, ekki Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga, sem er gjaldþrota, eða Kaupfélag Berufjarðar, sem er gjaldþrota, ekki Kaupfélag Suður-Þingeyinga. Atvinnufyrirtækin og efnahagsaðstæðurnar í þjóðfélaginu kalla ekki á það að virðisaukaskattur verði afgreiddur.

Það sem við ættum að vera að fjalla um hér núna er frv. til laga um ráðstafanir til að taka á vandamálum atvinnulífsins í landinu. Því það er alveg sama hvað við erum með fullkomið skattakerfi, ef atvinnuvegirnir eru á heljarþröm koma engir skattar. Það er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess af þm. Sjálfstfl. og Framsfl., sem sumir hverjir hafa komið nálægt atvinnulífi, að þeir geri sér grein fyrir þessu samhengi hlutanna, atvinnuveganna annars vegar og skattlagningarinnar hins vegar. En það er engin ástæða til að gera kröfu til þess að þm. eða ráðherrar Alþfl. skilji þetta samhengi hlutanna og það verður ekki gert af mér. (Gripið fram í.) Birtist ekki með máli allt í einu hæstv. viðskrh. sem var reynt að særa hér inn í deildina í allan heila dag og hefur nú ekki verið beðinn um að tala hér í kvöld, en er vafalaust velkominn til þess og vonandi situr hann hér sem lengst. Mun ég varpa á hann orði síðar í ræðu minni.

Ég vil þessu næst víkja að nál. minni hl. sem birtist á þskj. 1061 og er undirritað af mér og hv. þm. Júlíusi Sólnes. Hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir, fulltrúi Samtaka um kvennalista í fjh.- og viðskn., er sammála því nál. Í nál. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að frv. um virðisaukaskatt væri tilbúið í haust var það ekki lagt fram fyrr en á síðustu dögum þingsins og hefur því ekki fengið nægilega glögga meðferð að mati minni hl. Því er tillaga minni hl. sú að frv. verði fellt. Minni hl. mun síðan fyrir 3. umr. málsins leggja fram brtt. við frv. ef í ljós kemur að það verður samþykkt við 2. umr.

Minni hl. lýsir beinni andstöðu við frv. um virðisaukaskatt á eftirfarandi forsendum:

Með lögfestingu virðisaukaskatts er gert ráð fyrir því að framlengja hinn illræmda matarskatt sem lagður var á af núverandi ríkisstjórn og hefur í för með sér 6000 millj. kr. skattheimtu af almenningi í landinu á þessu ári.

Þá er gert ráð fyrir sérstakri og víðtækri skattlagningu á menningarstarfsemi í þessu frv. Er þar gengið lengra en í virðisaukaskatti grannlanda okkar.“

Ég ætla aðeins í tilefni af þessari fullyrðingu minni hl. að víkja að brtt. 1.c á þskj. 1006 frá meiri hl., þar sem segir að undanþegin eigi að vera virðisaukaskatti starfsemi safna og bókasafna og hliðstæð menningarstarfsemi. Ég kallaði fram í hjá hv. frsm. og spurði hann hvað væri hliðstæð menningarstarfsemi og fékk ekki skýr svör sem ekki er kannski von og ekki sanngjarnt að ætlast til. En hvað gæti verið hliðstæð menningarstarfsemi? Það eru ekki leikhús og leikfélög, eða hvað? Skv. frv. eins og það lítur út núna og ég les það er ætlunin að leggja virðisaukaskatt á leikhús, leikfélög, kvikmyndasýningar og hljómleika. Og ekki einasta þegar um er að ræða reglulegar leiksýningar, reglulega hljómleika eða reglulegar kvikmyndasýningar, heldur líka einstaka listviðburði af þessu tagi. Þegar menn halda tónleika, sýna kvikmynd eða þegar efnt er til leiksýningar virðist eiga að taka af þessu virðisaukaskatt ef marka má plöggin eins og þau líta út núna.

Ég vil nefna dæmi til að sýna hvað þetta getur þýtt. Talið er að veltan hjá Leikfélagi Reykjavíkur á árinu 1988–1989 geti orðið í kringum 30 millj. kr. Virðisaukaskattur ofan á þessa veltu, sölu miða, mundi gera 6–7 millj. kr. Ljóst er að ef aðgangseyrir gæti skilað þetta miklu meira fé en gert er núna ráð fyrir hefur Leikfélag Reykjavíkur, svo að ég nefni dæmi, full not fyrir þá fjármuni, m.a. til að standa undir þeim framkvæmdum sem Leikfélagið núna stendur í.

Ég vil inna eftir þessu sérstaklega, virðulegi forseti, vegna þess að ákveðin starfsemi á að vera undanþegin virðisaukaskatti alveg skilyrðislaust, þ.e. afnotagjöld af Stöð 2. Skv. brtt. 2 á þskj. 1006 er gert ráð fyrir því að afnotagjöld á Stöð 2 eða hliðstæðum stöðvum verði virðisaukaskattslaus. Þá spyr ég: Hvaða menningarlegt mat er það sem birtist í því að menn eiga að sleppa við að borga virðisaukaskatt af afnotagjöldum af Stöð 2 en eiga að borga virðisaukaskatt af þeim kvikmyndasýningum sem þeir kaupa sig inn á í kvikmyndahúsunum, leiksýningum sem leikhúsin efna til eða af konsertum sem eru hér í almennum hljómleikasölum? Er það það menningarlega mat að nauðsynlegt sé að lyfta alveg sérstaklega undir Stöð 2 og einkarekstur útvarps og sjónvarps á kostnað annarrar menningarstarfsemi? Er það mat ríkisstjórnarinnar að þessi menningarstarfsemi sem fer fram á vegum Stöðvar 2 eigi að hafa þarna forgang umfram allt annað. Þetta vil ég spyrja um og óska eftir því að fá svör við þessu, bæði frá hæstv. fjmrh. og sömuleiðis hv. 2. þm. Norðurl. e. sem ég hygg að sé maðurinn með hið listræna hjarta sem hv. þm. nefndi áðan með allri hógværð án þess að nefna sjálfan sig í leiðinni á nafn.

Í umræðum um þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. fórum við yfir dönsk lög um virðisaukaskatt. Þar kom fram að menningarstarfsemi er almennt undanþegin virðisaukaskatti í Danmörku, en þar eru síðan tiltekin nokkur atriði sem á að leggja virðisaukaskatt á. Þau atriði eru undantekning. Reglan er sú að menningarstarfsemi er virðisaukaskattslaus. Þess vegna er það ekki of mikið sagt í áliti minni hl. á þskj. 1016 þar sem segir: „Þá er gert ráð fyrir sérstakri og víðtækri skattlagningu á menningarstarfsemi í þessu frv. Er þar gengið lengra en í virðisaukaskatti grannlanda okkar.“

Nú vill svo vel til að hæstv. fjmrh. mætir hér í deildina prýðilega vopnaður af embættisliði sem fyrr. Nú ætla ég að spyrja hann og biðja embættismennina að reikna út þangað til á eftir: Hversu mikill virðisaukaskattur á að koma inn í ríkissjóð af leiksýningum, kvikmyndasýningum, konsertum o.s.frv.? Hversu miklar upphæðir eru það sem á að láta menninguna borga í ríkissjóð skv. virðisaukaskatti? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa nákvæmar upplýsingar um þetta í fórum sínum.

Síðan segir áfram í áliti minni hl. á þessa leið:

„Í frv. er gert ráð fyrir því að leggja virðisaukaskattinn á með einni prósentu, — þ.e. að hafa sömu skattprósentu á öllum vörum og allri þjónustu. Þessu mótmælir minni hl. og bendir á að í aðildarríkjum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, er oftar um fleiri en eina prósentu að ræða og þar er matur sums staðar undanþeginn að fullu, jafnvel í Bretlandi“ Margrétar Thatcher.

„Þess ber að geta að Alþýðusamband Íslands lagðist sérstaklega gegn frv. um virðisaukaskatt á þeirri forsendu að skattinn ætti að taka með flatri prósentu yfir línuna.“

Í frv. er eins og kunnugt er gert ráð fyrir því að skatturinn verði 22%. Hv. þm. sagði í framsöguræðu sinni áðan sem ég kem nánar að á eftir: Þetta mál þarf að taka til endurskoðunar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og hv. 2. þm. Norðurl. e.: Telja þeir að það komi til mála að vera með tvær mismunandi skattaprósentur í virðisaukaskatti? Hvaða rök eru gegn því að vera með tvær slíkar prósentur eða jafnvel fleiri?

Í löndum Efnahagsbandalagsins er núna unnið að samræmingu á virðisaukaskatti. Verið er að samræma virðisaukaskatt í öllum löndum Efnahagsbandalagsins og gert er ráð fyrir því að niðurstaðan verði sú að þar verði í minnsta lagi yfirleitt um að ræða tvær prósentur. Til þess að ná fram samræmingu í samkeppnisaðstöðu milli atvinnugreina, milli Efnahagsbandalagslandanna. Þess vegna er alveg út í hött að svara þessari spurningu minni um eina eða tvær prósentur með því að segja: Það verður að vera ein til að samræma það því sem gerist í samkeppnislöndum okkar. Það er ekki gild röksemd, hvorki í núinu né heldur þegar endurskoðun á þessum reglum hefur farið fram í Efnahagsbandalagslöndunum.

Alþýðusamband Íslands lagðist sérstaklega gegn frv. um virðisaukaskatt á þeirri forsendu að það ætti að taka skattinn með einni prósentu. Það er rétt að vekja athygli á því að einu stærri samtökin í landinu sem lögðust gegn upptöku virðisaukaskatts er Alþýðusamband Íslands. Það er kannski athyglisvert að einmitt Alþfl. skuli beita sér fyrir því að leggja á þennan skatt sem er í andstöðu við verkalýðssamtökin í landinu. Síðan segir áfram í nál. minni hl. á þskj. 1016:

„Með upptöku virðisaukaskatts eykst hvers konar skriffinnska stórkostlega. Þannig er gert ráð fyrir því að starfsmenn skattstofanna verði tvisvar sinnum fleiri en nú er.“ — Talið er að þeir séu 35 í dag í söluskattinum en verði 70, að því er ríkisstjórnin sjálf segir, í virðisaukaskattinum. „Enn fremur er gert ráð fyrir stórfelldri fjölgun framteljenda frá því sem er í söluskattskerfinu.“

Samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar sjálfrar er fjölgun framteljenda frá söluskatti til virðisaukaskatts sem hér segir:

Í landbúnaði er fjölgunin 5000–5000 bændur sem eiga að fara að færa virðisaukaskattsskýrslur. Fiskveiðar, þar er fjölgunin 1450 frá því sem er í söluskatti. Fiskiðnaður 600, byggingarstarfsemi 3000 aðilar, samgöngur 1500 aðilar og annað 2500 aðilar. Samtals er fjölgun þeirra sem eiga að greiða þennan óbeina skatt frá því sem var í söluskattinum liðlega 14 þús. manns.

Ég hygg reyndar að þessi tala sé stórkostlega vanmetin. Ljóst er að fjöldi fólks sem hefur með alls konar minni háttar viðvik að gera fyrir fyrirtæki og einstaklinga, viðvik sem kannski skila 100 þús. kr. eða meira á ári, yrði þar með virðisaukaskattsskyldur. Ég gæti nefnt í þessum efnum að stórir hópar t.d. háskólamenntaðra manna sem vinna margvísleg ráðgjafar- og þjónustustörf fyrir fyrirtæki og stofnanir, m.a. á vegum ríkisins, munu skv. þessu frv. verða virðisaukaskattsskyldir og verða að halda virðisaukaskattsskýrslur. Ég held þess vegna að sú fjölgun sem hér er gert ráð fyrir verði miklu meiri en þessar tölur benda til.

Af því að ég sé hv. þm. Egil Jónsson dettur mér það í hug að ég nenni ekki að fara að skemmta deildinni með sérstökum intermezzo um landbúnaðinn og virðisaukaskattinn. En það eru ýmis viðvik í landbúnaðinum sem ég gæti nefnt hér við hv. þm. á eftir og utan fundar og utan þingtíðinda — (Gripið fram í.) Nei, ég hef svo gaman af því að sjá hv. þm. (EgJ: Það er gagnkvæmt.) Ég þakka. — og væri ákaflega gaman að rifja upp og fara yfir, hvernig menn fara að því að greiða og gera upp virðisaukaskatt fyrir alls konar snatt sem menn sinna hver fyrir annan í sveitum. En til þess notum við annað og betra tækifæri. Ég held áfram með nál. minni hl.:

„Það er því ljóst að upptaka virðisaukaskatts hefur í för með sér verulega skriffinnsku — fyrst hjá opinberum aðilum þar sem skattheimtumönnum fjölgar úr 35 í 70 og einnig hjá þeim sem telja fram en þar fjölgar ársverkum ekki minna en hjá opinberum aðilum. Því má gera ráð fyrir að upptaka virðisaukaskatts skapi að minnsta kosti 100 ný störf úti í þjóðfélaginu og auki einnig vinnuálag fyrirtækjanna, einkum smáfyrirtækjanna og einyrkjanna sem hafa síður yfir að ráða þjálfun eða þekkingu á bókhaldsverkefnum.

Minni hl. telur að fjölgun framteljenda samkvæmt þessum gögnum ríkisstjórnarinnar sé stórlega vanmetin.

Samkvæmt upplýsingum sem minni hl. hefur aflað sér liggur fyrir að svört atvinnustarfsemi í Danmörku hefur aukist eftir að virðisaukaskatturinn var tekinn upp. Þar liggja einnig fyrir rannsóknir á því að þessi skatttegund leggst þyngst á barnmargar fjölskyldur og þá sem hafa þunga framfærslubyrði. Að sama skapi er það mat nágranna okkar að virðisaukaskatturinn komi best út fyrir þá efnaðri í þjóðfélaginu. Þar hefur enn fremur verið bent á að eftir að virðisaukaskattur var á lagður hafa gjaldþrot smáfyrirtækja verið tíð vegna þess að forráðamenn þeirra ráða ekki við alla þá skriffinnsku sem kerfið gerir ráð fyrir. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem smáfyrirtæki eru hlutfallslega fleiri hér á landi en annars staðar.

Allir ættu að sjá hve fráleitt það er að ætla hverjum einasta einyrkja, bónda, bílstjóra eða trillukarli að stunda smásmugulegt bókhald yfir hvert einasta viðvik. Ekki verður þetta síður fráleitt gagnvart nýrri atvinnustarfsemi sem er að hasla sér völl, oft með hluta starfs til að byrja með. Hér er því verið að leggja á skatt sem byggist á kerfi sem er fjandsamlegt nýjungum í atvinnulífinu og þeirri einyrkjastarfsemi sem alltaf hlýtur að verða stór þáttur atvinnulífs á Íslandi. Hér er verið að apa eftir milljónaþjóðum eins og oft áður í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar í vetur.

Það er enn fremur ljóst að ekkert liggur fyrir um að þessi tegund óbeinna skatta skili sér betur í ríkissjóð en söluskatturinn. Vissulega er söluskattskerfið gallað. En nær hefði verið að leggja vinnu í nýtt kerfi óbeinna skatta á Íslandi en að apa það eftir milljónaþjóðunum eins og hér er gert.

Virðisaukaskattur hækkar verð á íbúðarhúsnæði, fyrst á nýju húsnæði og síðan almennt. Þetta er viðurkennt í athugasemdum með frv. Virðisaukaskattur mun leggjast á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað, en sú vinna er nú undanþegin söluskatti. Þetta hefur í för með sér 5–7% hækkun byggingarkostnaðar. Þannig hækkar ný íbúð sem nú kostar um 4 millj. kr. um 200–300 þús. kr. Og heildartekjuauki ríkissjóðs af húsbyggjendum nemur með þessum hætti hundruðum milljóna króna. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að þessi tekjuauki ríkisins verði endurgreiddur húsbyggjendum en ekkert liggur fyrir um það nákvæmlega hvernig að því verður staðið. Það er því ljóst að óbreytt hefur þetta frv. í för með sér lakari kjör fyrir húsbyggjendur og skerðingu á kjörum þeirra. Þeir eru skv. þessu frv. gerðir að sérstökum skattstofni.“

Ég vil aðeins staldra við þetta atriði og minna á það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að Landssamband iðnaðarmanna hefði óskað eftir því að það yrði kannað að fella niður ýmsa skatta af byggingariðnaðinum fremur en að taka upp flókið endurgreiðslukerfi á virðisaukaskattinum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Telur hann að það komi til mála að fella niður ýmis gjöld af byggingariðnaðinum til að koma þannig til móts við húsbyggjendur þannig að þeir verði ekki gerðir alveg að sérstökum skotspónum þessa kerfis?

Það er hlálegt, herra forseti, að það skuli vera hlutverk Alþfl. og formanns hans að leggja fram skattafrv., eftir allt það sem á undan er gengið í húsnæðismálum, sem gerir ráð fyrir því ekki einasta að leggja skatta á matvörur, það er búið, heldur líka að leggja sérstakan skatt á húsbyggjendur. Var það skattstofninn sem Alþfl. lofaði að leggja á skatta fyrir síðustu kosningar? Gengu þeir frambjóðendur Alþfl. á Vestfjörðum, Reykjavík, Suðurnesjum fyrir kjósendur og sögðu: Þið sem eruð að byggja, þið verðið skattlagðir alveg sérstaklega ef við fáum að ráða nokkru eftir kosningar. — Auðvitað var það ekki þannig. Auðvitað var það ekki sagt frekar en þeir ættuðu að leggja á matarskatt. Það var komið aftan að kjósendum. Það er hlálegt að velja þennan hóp sérstaklega til að þyngja skatta á um mörg hundruð millj. kr. til að auka tekjur ríkissjóðs með.

Ég held þá áfram, herra forseti, með nál. minni hl. en þar segir enn fremur:

„Hér hafa verið tíndar fram nokkrar ástæður þess að minni hl. er andvígur frv. þessu. Fleira mætti tína til og verður það gert nánar í umræðum um málið. Skal þó bent á eitt atriði sem vegur þungt en það er sú tillitslausa innheimta skatta af menningarstarfsemi sem frv. gerir nú ráð fyrir“ — og ég hef rakið fyrr í ræðu minni.

„Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum stjórnarflokkanna við þessu máli. Þingmenn allra flokkanna eru meira og minna andvígir málinu. Þess vegna neyddist fjmrh. til að mismuna málinu gegnum stjórnarflokkana þannig að það er í rauninni aðeins hálfafgreitt og fjöldi óleystra vandamála bíður úrlausnar. Hér er ekki um að ræða tæknileg vandamál heldur líka pólitísk vandamál“ og eru rakin um það nokkur dæmi í nál. okkar.

Eitt það sérkennilegasta við þessa afgreiðslu er að þegar fjmrh. hæstv. sá að ekki væri nokkur leið að koma þessu máli í gegnum þingið með venjulegum hætti var sagt við stjórnarliðið: Það verður allt tekið til athugunar í sumar. Prósentan verður tekin til athugunar, byggingariðnaðurinn, menningin, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn, iðnaðurinn, innflutningurinn, allt verður tekið til athugunar í sumar. Þetta er svo mikið í lausu lofti að hér gætum við alveg eins verið að fjalla um frv. sem væri einhvern veginn svona: Fjmrh. er heimilt að leggja á virðisaukaskatt eftir þeim aðstæðum sem hann telur réttar á hverjum tíma, að öðru leyti er málið sett í nefnd. (Gripið fram í.) — Og vinnist um heyannir.

Dæmi um þetta eru þessi, herra forseti: Það er fyrst skattprósentan sjálf. Það stendur jú að hún sé 22% í plagginu. En hv. þm. Halldór Blöndal viðurkennir hér áðan að skattprósentan gæti orðið önnur. Ég spyr þá hv. þm. Halldór Blöndal: Getur hún orðið hærri? Er Sjálfstfl. með þessari yfirlýsingu að boða það að virðisaukaskatturinn verði enn þá hærri? Liggur fyrir eitthvert leynisamkomulag milli stjórnarflokkanna um að virðisaukaskattsprósentan eigi að vera hærri? Það liggur fyrir í grg. frv. að það vantar milljarð eða einn og hálfan milljarð upp á að virðisaukaskatturinn skili nægilega miklu að mati ríkisstjórnarinnar. Er með þessu loðna orðalagi á virðisaukaskattsprósentunni verið að segja: Það á að leggja á meira? Er pólitískt samkomulag um það innan stjórnarinnar, hæstv. fjmrh.? Þetta er talið eitt þeirra atriða sem á að athuga nánar, 22% u.þ.b., það stendur að vísu ekki „u.þ.b.“ í frv. en gæti alveg eins verið það, svona ca. 22%.

„2. Reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingarstarfsemi er vísað til embættismannanefndar“ og stjórnmálamanna — stjórnarflokkanna, auðvitað fær ekki stjórnarandstaðan að koma þarna nálægt enda geri ég ekki ráð fyrir að hún kæri sig mikið um það. A.m.k. ekki alþýðubandalagsmenn. Þetta er eitt af þeim álitamálum sem er bara vísað út í bláinn, út í buskann í sumar, athuga nánar, skoða.

„3. Reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af orkugjöfum til hitunar íbúðarhúsnæðis er vísað til sérstakrar nefndar.“ Þetta er vandamál upp á u.þ.b. 950 millj. skv. því sem stendur í frv. — Vesen í kringum það, komin ályktun frá Sambandi ísl. hitaveitna. Dálítið flókið mál, sagði hv. 2. þm. Norðurl. e., vísað í nefnd, skoðað í sumar.

„4. Reglum um skattskil fiskveiða og fiskvinnslu er vísað til nefndarvinnu“ — í sumar. Þar er verið að tala um smáupphæðir. Skattstofninn er 15 milljarðar kr. Á það leggjast 22%, eða 3000 millj. kr. Það á að athuga það nánar í sumar hvernig verður farið með þessar 3000 millj. Þetta eru minni háttar upphæðir, menn eru vanir stórum tölum í fjmrn.

„5. Reglum um virðisaukaskatt af menningar- og listastarfsemi er vísað til nefndarvinnu“ — í sumar. Það verður tekið um leið og fiskurinn.

„6. Reglum sem „tryggja jafnræði í samkeppni einkaaðila og opinberra aðila“ er vísað til nefndar“ — í sumar.

„7. Reglum um skatt af útgáfu tímarita er vísað til nefndar.

8. Reglum um skattskil af viðskiptum bænda og afurðastöðva er vísað til nefndar, svo og öðru sem varðar landbúnað sérstaklega.“ En það er ekki bara uppgjörið milli afurðastöðva og bænda heldur líka annað sem varðar bændur og landbúnaðinn yfirleitt sérstaklega.

„9. Reglum um gjaldfrest af innflutningi er vísað til nefndar.

10. Reglum um virðisaukaskatt af fólksflutningum er vísað til nefndar.“

Hverju er ekki vísað til nefndar? Það er landbúnaður, sjávarútvegur, menning, iðnaður, innflutningur, tímarit, fólksflutningar, prósentan sjálf og byggingarstarfsemi. Þetta fer allt í nefnd, þetta á að skoða í sumar, athuga málið í sumar. Þess vegna væri miklu eðlilegra að frv. væri orðað eins og ég var að tala um áðan: Fjmrh. er heimilt að leggja á virðisaukaskatt eftir efnum og ástæðum og eftir því sem samkomulag næst um í stjórnarflokkunum í sumar.

Þetta sýnir uppgjöf stjórnarflokkanna á því að fara í alvöru í gegn með þetta mál. Það er verið að svindla málinu í gegn. Það er verið að segja við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson: Heyrðu, vertu rólegur, vinur, vegna þess að fiskurinn verður skoðaður alveg sérstaklega í sumar.

Og það er verið að segja við hv. þm. Egil Jónsson: Heyrðu, vertu bara rólegur í sumar, þetta er allt í lagi, við skoðum landbúnaðinn alveg sérstaklega.

Og það er verið að segja við hv. þm. Halldór Blöndal: Heyrðu, vertu nú til friðs vegna þess að við ætlum aðeins að kíkja nánar á menningarmálin í sumar.

Og það er verið að segja við þm. Reykv. sem hafa áhyggjur af málefnum Hitaveitu Reykjavíkur í þessu kraðaki: Heyrið þið, verið rólegir, við skoðum hitaveituna og þetta drasl allt saman í sumar upp á 900–1000 millj. kr.

Það er verið að segja við þá sem gefa út tímarit eins og hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson sem gefur út „Frelsið“ af og til: Heyrðu, vertu rólegur, því að við ætlum ekki að leggja virðisaukaskatt á tímaritin — enda vafasamur virðisaukinn af sumum þeim bókum sem þeir gefa út, en það er svo annað mál.

Þetta sýnir algjöra uppgjöf stjórnarflokkanna á því að afgreiða þetta mál í alvöru. Gallinn er hins vegar sá, herra forseti, að í raun og veru fær fjmrh. allt sitt og kratarnir allt sitt. Það er íhaldið sem er platað. Hv. þm. Halldór Blöndal, Egill Jónsson, Guðmundur H. Garðarsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, það er þetta lið sem verið er að plata. Kratarnir hafa kerfið og kverkatökin þegar þörf krefur. Það kemur í ljós í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að þessi ríkisstjórn líkist einna helst því að vera ríkisstjórn Alþfl. undir forustu Sjálfstfl. með hlutleysi Framsfl.

Í lok nál. minni hl. á þskj. 1016 segir svo, með leyfi forseta:

„Eins og sést af þessum tíu dæmum er ljóst að meiri hl., stjórnarflokkarnir, viðurkennir að málið er illa undirbúið og að ekki eru neinar forsendur fyrir því að afgreiða það. Þar eru tæknileg atriði í lausu lofti og hið sama er einnig að segja um pólitísk grundvallaratriði. Því væri það öllum fyrir bestu að máli þessu verði hafnað.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nefndaráliti þessu. Alþingi, 4. maí 1988. Svavar Gestsson, Júlíus Sólnes.“

Ég hef þá rakið nokkuð, herra forseti, nái. minni hl. fjh.- og viðskn. og farið um mál þetta nokkrum almennum orðum. Þetta er 20. skattafrv. sem fer hér í gegnum þingið í vetur. Af 80 stórum umbótamálum sem formaður Alþfl. hældi sér af í útvarpsumræðunum hér í gær eða fyrradag eru 20 skattafrv. Hér er ekki verið að taka á vandamálum atvinnulífsins á Íslandi, fólksins í landinu. Hér er verið að búa til skattakerfi eins og það gerist með milljónaþjóðum og það er látið skeika að sköpuðu þó að þetta kerfi gangi augljóslega engan veginn upp miðað við íslenskar aðstæður, hvort sem það snertir menningarmál, mat, almenn lífskjör eða atvinnulíf í landinu.

En ég vil einnig, herra forseti, ljúka ræðu minni með því að segja: Ábyrgð forustumanna atvinnuveganna, stjórnarforustu atvinnuveganna, sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar, er mikil. Hún skal stimpluð hér inn í þingtíðindin og sagt: Ef þeir hefðu ekki blessað þetta mál í bak og fyrir og beinlínis pantað þetta yfir sig hefði stjórnin ekki þorað í gegn með málið. Það eru fulltrúar þessara margumtöluðu atvinnuvega sem alltaf þykjast bera hagsmuni þeirra fyrir brjósti og hlaupa hér inn vælandi í tíma og ótíma að biðja stóru mömmu, ríkið, að hjálpa sér, sem bera hér úrslitaábyrgð og það skal stimplað fast í þingtíðindin. Þeirra ábyrgð er mikil og það skal munað þegar þeir koma á næsta þingi og næsta og þarnæsta að klaga undan ákvæðum laga um virðisaukaskatt sem þeir sjálfir eru að kalla yfir sig, hvort sem þeir heita SÍS eða SÍF eða hvað þeir heita.