04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7356 í B-deild Alþingistíðinda. (5342)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég get ekki talað af jafnmiklum fjálgleik um skatta og flokksbróðir minn, hv. þm. Halldór Blöndal, og fylli ekki þann hóp sjálfstæðismanna sem eru alteknir skattagleði.

Frv. sem hér er til umræðu er veigamikið og gert ráð fyrir því, verði það afgreitt á þessu þingi, að það verði aftur tekið upp næstkomandi haust og er það vel, enda kemur fram í nál. meiri hl. að hann gerir ráð fyrir því að það þurfi að gera ýmsar breytingar frá því sem frv. felur í sér við nánari athugun.

Hér hefur mikið verið talað um menninguna að sjálfsögðu og talað um matarskatta, prósentur, álagningarprósentur o.s.frv. En ég geri ráð fyrir að allir þingmenn séu sammála um að hjá því verði ekki komist að afla ríkissjóði tekna til að mæta þörfum hans og öðru því sem fjárlög fela í sér. Ég þarf ekki að orðlengja afstöðu mína í þeim efnum. Hins vegar getur okkur greint á um leiðir og áherslur.

Ég mun ekki, herra forseti, flytja langt mál, en ég ítreka að þegar verið er að tala um íslenska menningu er það auðvitað teygjanlegt hugtak og fer eftir því hvar hver er staddur í menningunni hvað hann telur vera menningu. Sumir eru svo hátt komnir í stiga íslenskrar menningar að aðrir mega þar helst ekki upp koma eða um tala, en ég ætla að leyfa mér að tala um almenna íslenska menningu þó að það meiði kannski fínar tilfinningar þeirra sem eru í þessum æðstu menningarklúbbum íslensks þjóðfélags.

Það vill svo til að þegar talað er um íslenska menningu á það við um fleira en bókmenntir. Það getur einnig átt við um tímarit og það getur einnig átt við um fólk almennt sem reynir að tileinka sér íslenska menningu með ýmsum hætti. En það sem mér finnst eftirtektarvert við þetta frv., sem lýtur að menningu og útgáfu, er að í því er gert ráð fyrir að erlendum aðilum sé gert hærra undir höfði en innlendum sem fást við útgáfustarfsemi.

Þegar komið er í bókaverslanir í Reykjavík blasa við manni í flestöllum bókaverslunum tugir ef ekki hundruð erlendra blaða og tímarita, svokallaðra afþreyingarblaða, en þar eru einnig fagtímarit sem koma hingað reglulega, vikulega og mánaðarlega, og Íslendingar kaupa mikið af. Þessari útgáfustarfsemi er gert hærra undir höfði en íslenskri útgáfustarfsemi. Frv., eins og það er útbúið, felur beinlínis í sér að aðstaða hinna erlendu útgefenda verður betri en innlendra. Að mínu mati er það ekki að styðja íslenska menningu að þannig skuli að verki staðið. Ég legg áherslu á það eins og fleiri að til þess að við getum verið sjálfstæð menningarþjóð þurfum við að hlúa að íslenskri útgáfustarfsemi og leyfa íslensku þjóðinni að meta það sjálfri hvað hún vill helst af þeirri menningu.

Þess vegna vil ég, með leyfi forseta, leggja fram brtt. við 12. gr. frv. sem er svohljóðandi:

„Við 1. mgr. 12. gr. bætist nýr töluliður sem hér segir:

10. Útgáfa og sala innlendra tímarita.“

Það liggur í augum uppi þegar hv. þm. lesa 12. gr. að erlendum tímaritum er gert hærra undir höfði skv. 8. tölul., en þar segir: „Tímarit á erlendu tungumáli sem erlendur útgefandi sendir áskrifanda.“ Velta samkvæmt því telst ekki skattskyld.

Ég fjölyrði ekki frekar um það og vænti þess að hv. þm. taki vel í þessa brtt. Hún er einföld í sniðum og ætti ekki að vefjast fyrir hv. þm. að afgreiða hana. (EG: Það verður mjög einfalt.) Já, ég hef reynt hv. þm. að því að standa með tjáningarfrelsinu. Ég vona að hann reynist leiðitamari í þetta skipti en fyrir tíu árum þegar menn voru að ræða hér um frjálsar útvarpsstöðvar. Þá var hv. þm. Eiður Guðnason mjög mikið á móti því, en sem betur fór áttaði hann sig á því að það var ekki hægt að stöðva þá þróun frekar en fleira sem lýtur að því að fólk fái að vera frjálst. Það eru ekki aðeins forréttindi þeirra sem eru menntaðir eða hafa komist í stöður að mega meta hvernig þeir vilja lifa í þessu þjóðfélagi. Og ætla ég ekki að fara að skipta þjóðinni upp í hámenningu og lágmenningu. Ég læt aðra um það.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði að aðstöðumunur mundi minnka eða hverfa við virðisaukaskattinn. Till. sem ég legg til er einmitt þess eðlis að hún mun draga úr og minnka þann aðstöðumun sem erlendir útgefendur hafa á Íslandi ef þessi till. verður ekki samþykkt.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða, herra forseti, um frv. núna. Ég fagna því áliti sem meiri hl. hefur lagt hér fram með frv. Þar eru ýmsir fyrirvarar og þar eru talin upp mörg atriði sem nefnd á að athuga á milli þinga varðandi frv. og er það af hinu góða.

En ég vil þó segja nokkur orð um lið 1 sem fellur undir það sem nefndin á sérstaklega að athuga, mat á skattprósentu virðisaukaskatts. Ég er þeirrar skoðunar og hefði talið æskilegt að það hefði verið unnt að hafa skattþrepin fleiri en ráð er fyrir gert í þessu frv., en skv. 14. gr. er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur skuli vera 22%. Ég hefði talið æskilegra að í virðisaukaskatti hefðu verið tvö þrep þannig að annað þrepið hefði verið vegna matvæla og hitt fyrir aðrar vörur og þjónustu. Þá var hugsun mín sú að sjálfsögðu að skattprósentan yrði lægri á matvælum en öðrum vörum og þjónustu.

Ég ætla ekki að svo komnu máli, herra forseti, að kveða upp úr um hver sú prósenta ætti að vera. Ég treysti þeirri nefnd, sem á að fjalla um það, að hún komist að æskilegri niðurstöðu, en legg áherslu á að í störfum nefndarinnar verði þetta atriði athugað sérstaklega.