04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7358 í B-deild Alþingistíðinda. (5343)

431. mál, virðisaukaskattur

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að segja nokkur orð um það merka frv. sem hér er til umræðu.

Ég ætla að byrja á því að vitna í niðurlag nál. minni hl. þar sem segir að stjórnarflokkarnir viðurkenni að málið sé illa undirbúið og að ekki séu neinar forsendur fyrir því að afgreiða málið. Að áliti stjórnarandstöðunnar er það veikleikamerki að nefnd stjórnarflokkanna skuli eiga að vinna áfram í málinu í sumar til að fjalla sérstaklega um tíu atriði sem stjórnarsinnum þykir nauðsynlegt að skoða betur. Að mínum dómi er þetta mjög til bóta og raunar forsenda þess að ég skrifaði undir nál. án þess að hafa fyrirvara. Auðvitað eru mörg vafaatriði og ýmsir lausir endar þegar svo mikil kerfisbreyting er gerð og þess vegna er nauðsynlegt, að mínu mati, að vinna áfram í málinu í sumar.

Þau atriði sem ég tel að þurfi frekari athugunar við rúmast öll innan þeirra töluliða sem upp eru taldir í nál. og eiga að skoðast frekar nema kannski helst skattur á veiðitekjur sem skv. frv. á að taka gildi með samþykkt virðisaukaskattsins. Ég óttast að þessi skattur muni í raun lenda á veiðiréttareigendum og óska því eftir að þetta mál verði tekið til athugunar af þeirri stjórnarnefnd sem starfa mun á milli þinga.

Hér hefur verið talað mikið um að við séum fámenn þjóð og, hér eigi að vera við lýði sérhannað skattkerfi fyrir Ísland. Víst erum við Íslendingar á margan hátt sérstakt fólk, en mér er ómögulegt að skilja að ferillinn í íslensku atvinnulífi sé frábrugðinn því sem gengur og gerist meðal annarra þjóða þótt fjölmennari séu.

Ég vil að lokum segja að ég tel að virðisaukaskattur sé útflutningsatvinnuvegunum og fyrirtækjum yfirleitt til bóta og veitir ekki af. Þetta er raunar ein af aðalástæðum þess að ég styð þetta mál.

Mjög margir þeir sem komu til viðræðu við nefndina lögðu mikla áherslu á að eitt ár þyrfti til að kynna málið og kenna fólki að takast á við það. Ég legg því mikla áherslu á að þetta nýja skattkerfi, ef samþykkt verður, verði kynnt vel almenningi áður en það tekur gildi.