04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7366 í B-deild Alþingistíðinda. (5348)

360. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 977 um frv. til l. um breytingu á umferðarlögunum, en það er svohljóðandi frá meiri hl. allshn.:

„Nefndin hefur athugað frv. og kallaði á fund sinn Björn Friðfinnsson, aðstoðarmann dómsmrh., Hauk Ingibergsson, framkvæmdastjóra Bifreiðaeftirlits ríkisins, Guðna Karlsson, forstöðumann Bifreiðaeftirlits ríkisins, Ágúst Jónsson verkfræðing , Jónas Þór Steinarsson frá Bílgreinasambandi Íslands, Jón Sigurðsson og Sigurbjörn Bjarnason frá Félagi bifreiðaeftirlitsmanna.

Umsagnir bárust frá Bifreiðaeftirliti ríkisins og Félagi ráðandi bifreiðaeftirlitsmanna.

Meiri hl. nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt með breytingu sem tillaga er flutt um á sérstöku þingskjali.

Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar. Stefán Guðmundsson var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.“ — Og undir þetta rita Jóhann Einvarðsson, Guðmundur Ágústsson, með fyrirvara, Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir og Salome Þorkelsdóttir.

brtt. sem flutt er við frv. er á þskj. 976 og er eins og þar kemur fram breyting á 1. málsl. 3. gr., að í framhaldi af því sem þar segir að „fela má hlutafélagi, sem ríkissjóður á hlut í, að annast skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit, sbr. 1. mgr.," komi: enda verði settar upp skoðunarstöðvar í öllum kjördæmum landsins. Það byggist á því álit okkar að landinu er nú skipt í kjördæmi og ýmiss konar þjónustustarfsemi og þjónustumiðstöðvar hafa myndast í kringum það sjónarmið.

Í þessu frv. eru fyrst og fremst þrjú atriði sem eru meginatriði fyrir utan smáleiðréttingu, í fyrsta lagi, sem er í 1. gr. og ég ætla ekki að hafa langt mál um.

Í öðru lagi er tekið upp hið svokallaða fastnúmerakerfi sem oft hefur verið rætt í þingsölum og stundum hefur náð nánast að komast í gegn en aldrei alveg. Er það gert með hliðsjón af því að talið er að að því verði verulegur sparnaður. Nefndar hafa verið mjög háar tölur í því sambandi. Í nefnd þeirri sem undirbjó frv. kemur fram að þar gæti sparnaður orðið kannski um eða yfir 100 millj. kr., en látum á milli hluta liggja hvað upphæðin er mikil í sjálfu sér, hún er umtalsverð. Enn fremur telur Bifreiðaeftirlit ríkisins að þetta geti þýtt fækkun starfsmanna um 15 stöðugildi. Það er og ljóst að um verulegan sparnað verður að ræða hjá tryggingafélögunum og einnig hjá bæjarfógetum og einfaldar allt starf og gerir léttara að gera það tölvutækt og senda upplýsingar á milli tölvumiðstöðva.

Ég tel mig ekki þurfa mörg orð til að skýra þetta. Þetta er margrætt. Það er þó tekið upp núna að það er gert ráð fyrir því að mönnum leyfist að halda sínu gamla númeri meðan bíllinn sem þeir eiga núna er ökufær eða er áfram í eigu þess aðila sem á hann þegar lögin taka gildi og er til athugunar jafnframt að heimila mönnum að kaupa ákveðin númer sem menn geta þá haft í stað þessa fastnúmerakerfis. En það skal tekið fram, eins og öllum er kunnugt, að fastnúmerakerfið hefur verið við lýði í nokkur ár og menn hafa getað séð hvaða fastnúmer þeir hafa á sínum bíl í skoðunarvottorðum sem allir hafa í sínum bíl.

Þá er í frv. gefin heimild til ríkisstjórnarinnar eða ráðherra að fela hlutafélagi sem ríkissjóður á hlut í að annast skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit. Ég held að það sé ljóst að hér hefur verið mikil þörf úrbóta í skoðun ökutækja og þekkjum við það allir sem hafa átt bíla og þurft að sækja til Bifreiðaeftirlitsins, að þar hefur aðstaða til ýmissar skoðunar og nauðsynlegrar á ökutækjum ekki verið fyrir hendi. Það hefur þótt fýsilegt að mati þeirra manna sem undirbjuggu þetta frv., og ég held að við í meiri hl. allshn. tökum undir það, að það sé ástæða til að fá fleiri aðila inn í þetta verkefni. Hafa þar verið nefnd tryggingafélögin, það hefur verið nefnt Félag ísl. bifreiðaeigenda, Félag ísl. bifreiðavirkja, Bílgreinasambandið og reyndar fleiri. Ég held að það sé út af fyrir sig gott að fá slíka aðila inn. Menn nefna ýmis rök því til hagsbóta að fela slíku hlutafélagi að annast þetta. Menn telja að kostirnir við hlutafélagið geti í fyrsta lagi verið bein tengsl við neytandann hann borgar fyrir það sem hann fær en þeir sem ekki fá þjónustu fyrirtækisins borga ekkert. Rekstur yrði allur mun auðveldari, sveigjanlegri og hagkvæmari, m.a. vegna breytts launakerfis, og því mundu fjármunir nýtast betur. Fyrirtækið yrði væntanlega „meira þjónustusinnað“ en ríkisstofnun og minni hætta á stöðnun t.d. í skoðunartækni og hagsmunaaðilar hefðu bein áhrif á rekstur fyrirtækisins í gegnum eignaraðila.

Þeir sem hafa mælt gegn þessu fyrirkomulagi og vilja heldur að ríkissjóður eigi þetta áfram og reki eins og Bifreiðaeftirlit ríkisins hefur verið telja hættu á því að bifreiðaeigendur hafi ekki trú á fyrirtækinu sem hlutlausum aðila og jafnframt að fyrirtækið sem yrði notkunaraðili, líklega með bundinni arðsemi eiginfjár, eigi það þannig að gallar einokunarfyrirtækja mundu að einhverju leyti koma fram í rekstri þess. Því mundi það vera kostur fyrir bifreiðaeigendur að líta á þetta sem ríkisstofnun en aðeins að stofna þetta hlutafélag

Ég held hins vegar að til þess að fá nýtt blóð inn í þetta, ef ég má orða það svo, nýrri og ferskari umræðu um þessi skoðunarmál væri heppileg aðferð að stokka hlutina upp og stofna hlutafélag. Ég hygg jafnframt að það yrði léttara að reisa þessar skoðunarstöðvar með hlutafé og eigin fé þessa fyrirtækis með tilvísun til þeirrar reynslu sem hefur verið af því að fá fjármagn til að byggja yfir Bifreiðaeftirlit ríkisins á fjárlögum sem ég hygg að verði áfram jafnerfitt og það hefur verið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði. Þetta skýrir sig að verulegu leyti sjálft og menn hafa sjálfsagt lesið sér líka til í nál.

Í þriðja lagi er í frv. heimild handa sveitarstjórnum að annast framkvæmd ákvæða um sektir og reyndar refsingar við því ef bílar eru stöðvaðir á röngum stöðum og innheimta þau gjöld sem af því leiðir og fjarlægja þá með sérstökum aðgerðum ef á þarf að halda. Þessi heimild til sveitarstjórna, ef þær óska eftir, er komin inn að beiðni borgarstjórnar Reykjavíkur.

Hæstv. torseti. Ég held að á þessum tíma sólarhrings sé ekki ástæða til að fjölyrða mikið um þetta. Þeir aðilar sem til okkar hafa komið hafa haft verulega skiptar skoðanir um þetta. Meiri hluti þeirra sem við höfum rætt við telur þó að þetta sé til bóta. Í fyrsta lagi megi reikna út hagnað af fastnúmerakerfinu. Ég held að það fari ekkert á milli mála þrátt fyrir áhuga ýmissa á því að halda sínum númerum, að það sé sparnaðaratriði og einföldunaratriði og létti allt eftirlit með ökutækjum að fast númer sé á þeim.

Um skoðunina held ég að fleiri séu þeirrar skoðunar að það sé mikill kostur að taka inn ferskan anda í bifreiðaeftirlitið og reyna að stokka þá hluti upp því að ljóst er að bifreiðaskoðun hefur verið hér á eftir miðað við það sem er erlendis, en þar eru á mörgum stöðum komin upp sjálfstæð fyrirtæki sem reka skoðunarstöðvar fyrir eigin reikning og kanna ýmsa aðra hluti jafnframt til tekjuauka.

Ég ætla að láta þetta duga við 2. umr. ef ekkert sérstakt kemur fram og lýsi því aftur yfir að meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem við flytjum á sérstöku þskj.