11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég trúi því vart að ég sé einn um það í hv. deild að undrast nokkuð tilhögun þingstarfa hér þann mánuð sem liðinn er síðan Alþingi var sett. Hér gerist það að settur er fundur í hv. Nd. og ríkisstjórn Íslands er fjarverandi. Það er enginn ráðherra úr ríkisstjórninni viðstaddur á þessum fundi. Það eru tólf stjórnarliðar sem mættir eru í hv. þingdeild. Það er kannski ekki ástæða til að kvarta eins og ég heyrði hér úr horni.

En það er fleira sem athygli vekur á þessum degi og varðandi liðna daga. Hæstv. ríkisstjórn lagði fyrir Alþingi sem fylgiskjal með stefnuræðu forsætisráðherra lista yfir 104 fyrirhuguð stjfrv. Inn í þingið eru komin nú, þegar mánuður er liðinn frá upphafi þings, sjö stjfrv. af 104. Það eru ekki líkur á því að úr þessu rætist mikið í dag eða alveg á næstu dögum því fjarverandi þingstörf eru sex ráðherrar úr ríkisstjórninni, þar af fimm erlendis og fjórir þeirra með varamenn inni í þinginu þannig að ekki mun það flýta fyrir endurkomu þeirra hér í þingsali. — Ég bið hv. varaþm. ekki að taka þetta sem aðfinnslu að þeirra viðveru hér á fundi því að fáir sitja betur fundi en varamenn sem koma inn í þingið og oft eru þeir í meiri hluta í þingsal.

Tveir hæstv. ráðherrar hafa boðað fjarveru af þeim fimm sem gætu verið hér, hæstv. forsrh., sem ég ætlaði að óska eftir að væri viðstaddur upphaf þingfundar til að svara fyrir um þau mál sem ég vík hér að undir þingskapaumræðum, og hæstv. utanrrh. er einnig með fjarvistarleyfi, en það eru þó þrír aðrir ráðherrar sem eru einhvers staðar, líklega utan þinghúss, án leyfis, hæstv. iðnrh., hæstv. félmrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh., og það er varla að maður muni hver á heima í hvaða þingdeild því þeir sitja ekki svo fast í sætum sínum á þingfundum að það festist manni í minni á nokkrum vikum.

Við þetta bætist að formenn tveggja stærri stjórnarþingflokkanna eru erlendis með fjarvistarleyfi, hv. þm. Páll Pétursson og Ólafur G. Einarsson, og mér er sagt að varaformaður þingflokks Framsfl. sé einnig utan þings svo það eru svo sem ekki miklar líkur á að úr rætist í sambandi við stjfrv. alveg á næstunni þegar þessi mynd er dregin upp og við virðum hana fyrir okkur. (MB: Það er nú kominn einn ellefti af ríkisstjórninni.) Einn ellefti mættur. Það er þó nokkuð. Ég fagna alveg sérstaklega viðveru hæstv. heilbr.- og trmrh. hér á fundi. Hann er kominn kortér yfir ráðgerðan fundartíma. En það eru aðrir sem að hafa lakari „kladda“ en hann enn.

Þegar sameinað þing kom saman sl. mánudag höfðu fimmtán þm. boðað fjarvist, ýmist fjarverandi eða veikir, og ég taldi á fingrum mér hér eina tólf sem lesnir voru upp í upphafi fundar, ég er ekki viss um að talan sé nákvæm sem hæstv. forseti las upp fyrir okkur um fjarvistarleyfi þm. úr þessari deild.

Það er vakin sérstök athygli á því, herra forseti, að ráðherrum fjölgar hér. Það eru komnir 2/3 af þeim sem gætu verið viðstaddir þingfund samkvæmt upplýsingum skrifstofu þingsins og því sem hefur verið tilkynnt. (Forseti: Vegna orða hv. þm. vil ég geta þess að hæstv. iðnrh. hafði samband við mig rétt fyrir fund og mun vera væntanlegur í salinn eftir fáeinar mínútur. Ég vil láta það koma fram.) Herra forseti. Það gleður vort hjarta. Ég reyndi að ná hæstv. iðnrh. kl. 1.30 símleiðis til að gera honum viðvart að ég ætlaði að ræða um þingstörfin eftir að hafa leitast við að ná í hæstv. forsrh., en fékk svo upplýsingu um að hann hefði fjarvistarleyfi í dag. Senn verður því kollheimt, þrír elleftu af ríkisstjórninni viðstaddir.

Ég ætlaði ekki að fjargviðrast sérstaklega út af fjarveru ráðherra. Hún auglýsir sig sjálf. Það er skiljanlegt að þeir ráðherrar sem heima sitja hafi fangið fullt því þeir gegna fyrir aðra, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. En enginn veit hvernig menn skipa ráðuneytum þegar menn eru fjarverandi því það er ekki tilkynnt hér og ég efast um að Lögbirtingablaðið hafi fyrir því að tilkynna.

En mig langaði til að vekja athygli hv. þingdeildar og alveg sérstaklega hæstv. forseta vors á stöðunni varðandi þau mál sem þó hafa komið fyrir í þinginu. Og ég vil leyfa mér, til þess að rökstyðja að þetta er tekið til umræðu um þingsköp, að vitna í 11. gr. þingskapa Alþingis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forsetar hafa sameiginlega umsjón með starfi þingnefnda. Þeir skipa fyrir um fasta fundartíma nefndanna þannig að fundir rekist ekki á. Þeir halda skrá um þingmál sem til nefndanna hefur verið vísað og fylgjast með gangi mála svo sem nauðsynlegt kann að vera til þess að geta skipað málum niður á dagskrá þingfunda í hagkvæmri tímaröð.“

Og í 15. gr. segir varðandi nefndir m.a.: „Fastanefndir þingsins skulu leitast við að skipa afgreiðslu þingmála í tímaröð svo að verkefni þingfunda í sameinuðu þingi og þingdeildum megi, eftir því sem við verður komið, dreifast sem jafnast á þingtímann.“ — Dreifast sem jafnast á þingtímann.

Ég veit að ég þarf ekki að fara að lesa þetta oftar. Ég veit að hæstv. forseti kann þetta og hv. þingdeildarmenn að sjálfsögðu einnig. En mér sýnist að þingstörfin beri þess ekki merki að þessar greinar þingskapa Alþingis séu hafðar í heiðri.

Ég vil aðeins fara yfir þau þingmál sem hafa komið fyrir hér í þinginu til umræðu. Það er sjö stjfrv. af boðuðum 104, þar af þrjú í hv. Nd. -og ég tek fram að ég ætla eingöngu að ræða um störf þessarar deildar en ekki að víkja að starfi sameinaðs þings. Það er ekki eðlilegt á þessum fundi, að mínu mati, að draga það mikið inn í umræður né heldur hv. Ed. þar sem messufall er nú að verða reglan eins og í dag. En þessi þrjú stjfrv., sem hafa verið rædd hér í Nd. og eru komin til nefndar, eru: Frv. til laga um Útflutningsráð Íslands, komið frá viðskrn. og vísað til fjh.- og viðskn. 21. okt. Það hefur enginn fundur verið í nefndinni um þetta þingmál. Annað skylt mál, 54. mál, er um útflutningsleyfi, flutt af utanrrn., vísað til fjh.- og viðskn. 2. nóv., enginn fundur verið haldinn um það mál heldur í fjh.- og viðskn. Að vísu er það mál til umræðu, en ekki í þingnefnd heldur í símtölum milli ráðherra á milli landa. Það er verið að þinga um málið af ríkisstjórnarinnar hálfu í símtölum á milli landa, milli hæstv. viðskrh., hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Það er sú málsmeðferð sem uppi er höfð varðandi þetta efni. En þingnefndin er ekki kvödd saman, enda nefndarformaðurinn í útlöndum þessa stundina þannig að ekki verður ráðin bót á í bili — eða mig minnir að hv. þm. Páll Pétursson leiði þá nefnd sem fyrr. Það er þó eitt mál sem hefur verið fjallað um í nefnd, á einum fundi að ég hygg. Það er um Húsnæðisstofnun ríkisins, eitt stjfrv., sem vísað var 2. nóv. til félmn. sem mun hafa haldið einn fund um málið. Það er sú undantekning sem sjálfsagt er að geta hér um. Ég get nefnt að svipað er uppi í Ed., án þess að fara út í þá sálma, þar sem stjfrv. liggja órædd í nefndum sem ekki eru kallaðar saman.

Frá stjórnarliðum hafa borist sex þmfrv., tvö í Nd. sem vísað hefur verið til nefndar en þrjú eru enn þá til umræðu. Eitt þeirra er um aðför og er í allshn. Nd. frá 11. nóv. Enginn fundur hefur verið haldinn í þeirri nefnd um þetta mál.

Svo að ég víki að þmfrv. frá stjórnarandstæðingum, þá hafa verið flutt hér fimmtán slík frv., þar af níu verið lögð fram í Nd. og rædd. Þar á meðal eru mál eins og eignarréttur íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotns sem vísað var til allshn. Hvenær halda hv. þm.? 14. okt. Mér er sagt af skrifstofu þingsins að enginn fundur hafi verið haldinn um þetta mál í nefndinni. Frv. um jarðhitaréttindi var vísað til iðnn. 5. nóv. Enginn fundur verið kvaddur saman í þeirri nefnd um það efni mér vitanlega. Frv. um framhaldsskóla var vísað til menntmn. Nd. 21. okt. Enginn fundur hefur verið kvaddur saman í menntmn. deildarinnar. En undantekningar finnast þó þar sem er frv. til l. um almannatryggingar sem vísað var til heilbr.- og trn. Þar hefur þó verið haldinn fundur um málið, en málið fór þangað um miðjan október.

Þetta er, herra forseti, svipurinn á þingstörfunum á þessum degi og á liðnum dögum þessa þinghalds.

Ég nefni það svo aðeins til upplýsingar að í Sþ. hafa komið fram sjö þáltill. frá stjórnarliðum og átján þmtill. frá stjórnarandstæðingum í Sþ., en ég ætla ekki á þessum fundi að ræða stöðu þeirra mála eða störf Sþ. þar sem við erum að þinga í hv. Nd.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ýmsu hefur maður vanist á undanförnum þingum sem ég hef setið. Síðasta þing var með mjög einkennilegum hætti, þinghaldið í fyrra, framan af hvað snerti málafylgju af hálfu ríkisstjórnar, en nú keyrir örugglega um þverbak. Og eins og ég gat um eru horfurnar varðandi úrlausn af hálfu ríkisstjórnar í sambandi við hennar mál ekki mjög bjartar nú alveg á næstunni eins og fjarvistum ráðherra og ferðalögum er háttað. Það er einn ráðherrann í ríkisstjórninni sem maður er búinn að gleyma í rauninni að eigi þar sæti. Hann er búinn að vera einar þrjár vikur erlendis, að ég hygg. Ég veit ekki hvenær hann birtist hér. Ekki greiðir það fyrir þingstörfum, enda hlaðast fsp. upp hjá hæstv. menntmrh. Það fer að verða ástæða til að lýsa eftir honum sérstaklega.

Og ég vil segja við hæstv. forseta: Hvernig heldur hann að verði háttað vinnulagi í þessari hv. deild þegar kemur fram í desembermánuð? Er hæstv. forseti farinn að gera sér grein fyrir því hvernig líkurnar séu á að þingstörfum verði háttað þegar kemur fram í desember? Nema hæstv. ríkisstjórn ætli bara að sofa á þessum málum og það er kannski það besta. Og það geta hæstv. viðstaddir ráðherrar, hæstv. félmrh. og hæstv, heilbr.- og trmrh., e.t.v. eitthvað upplýst um, hvort búið sé að endurskoða þennan lista 104 stjfrv. sem var lagður hér fyrir fyrir nokkrum vikum. Ekki mundum við syrgja það og ekki syrgjum við það út af fyrir sig, stjórnarandstæðingar hér, a.m.k. ekki í mínum þingflokki, að hér er ágætur tími til að ræða okkar mál. En ég gagnrýni harðlega að málefni sem vísað er til nefnda, málefni stjórnarandstöðunnar, skuli ekki vera tekin fyrir og fá eðlilega meðferð í þingnefndum. Það er nefnilega oft svo, virðulegur forseti, að menn reyna að bjarga andliti Alþingis með því að segja: Það er ekki að marka að horfa á þingsalinn því að það er unnið svo mikið í nefndum, það fer svo mikið af störfum þingsins fram í nefndum. Ég hef lengi haft grun um það og þóst sjá það og reyna að ekki er allt sem sýnist í sambandi við þessi nefndastörf þingsins. Þau þyrftu sannarlega athugunar við eins og svo margt annað í þinghaldinu og er ég þá ekki að hallmæla þeim tilraunum til endurbóta á störfum þingsins sem hafa verið uppi hafðar og við m.a. reynum á þessum dögum þegar verið er að taka upp nýja fundatíma og fleira sem til bóta horfir. En hér er það hins vegar málsmeðferðin, starfshættir þingsins sem við hljótum að hafa miklar áhyggjur af eins og horfir. Ég treysti hæstv. forseta þessarar deildar til að taka á þessum málum við sína starfsbræður, hæstv. forseta Sþ. og hæstv. forseta Ed., og mér sýnist að það væri ekki vanþörf á að ræða þetta aðeins við forustuna í ríkisstjórninni líka, t.d. þá ráðherra sem boða að hingað eigi að koma 20 stjfrv., eins og hæstv. dóms- og kirkjumrh., og ekki eitt einasta farið að sjást. Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að taka meiri tíma í umræður um þetta, en ég vænti þess að þessi orð mín verði til þess að það verði eitthvað hugað að vinnulaginu hér á næstunni.