04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7384 í B-deild Alþingistíðinda. (5392)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins vegna þessa frv. um Kennaraháskóla Íslands lýsa yfir ánægju minni með það að þetta frv. er á hraðri leið til samþykktar hér á þinginu. Ég tel að það sé mjög gott að tekist hefur svo mikil samstaða um þetta mál og að fá afgreiðslu þess fram hér.

Málefni Kennaraháskólans hafa oft verið á döfinni hér á Alþingi og nauðsyn þess að styrkja þá stofnun, m.a. með breytingu á lögum um hana. Ég hygg að þau ákvæði sem hér er verið að lögfesta séu almennt til bóta og veiti Kennaraháskólanum svigrúm bæði til að taka upp nýbreytni í sínum störfum, svo og að þróa þar nýjar aðferðir sem gætu orðið til styrktar kennaramenntun í landinu.

Ég vil nefna það í tengslum við þetta mál að snemma á þingi fluttum við nokkrir þm. Alþb. till. til þál. um framtíðarskipan kennaramenntunar. Sú tillaga hefur verið til meðferðar í hv. félmn. Sþ. og fengið út af fyrir sig góðar undirtektir margra þeirra sem fengið hafa hana til umsagnar. Hún snertir vissulega málefni kennaramenntunar innan Kennaraháskóla Íslands en einnig kennaramenntun í Háskóla Íslands og nauðsynina á að tryggja tengsl á milli menntastofnana fyrir kennara og framtíðaruppbyggingu þeirra bæði til skemmri og lengri tíma, svo og um marga þætti kennaranámsins, þar á meðal um endurmenntun kennara og betri tengsl á milli fræðslu í uppeldis- og kennslufræðum við þær námsgreinar sem verið er að kenna hverju sinni eða sem kennaraefnin ætla sér að sinna sérstaklega í sínu starfi.

Eftir að samþykkt verða lög um Kennaraháskólann þarf að mínu mati einnig að huga að þessu máli, tengslunum á milli kennaramenntunar við Háskólann og kennaramenntunar innan Kennaraháskóla Íslands. Í sambandi við þessi efni hefur oft verið rætt um þörfina á því að ná fram betri tengslum þarna á milli. Ég er ekki í vafa um að sú þörf er áfram til staðar. En það frv. sem hér er verið að ræða er gott innlegg í þetta mál. Það kemur senn til lokaafgreiðslu í þinginu og þá verður hægt að taka á málinu í ljósi ákvarðana þingsins um Kennaraháskólann varðandi tengslin á milli annarra menntastofnana sem annast kennaramenntun. Auk Háskólans og Kennaraháskólans eru vissulega ýmsir sérskólar sem taka þar á einstökum þáttum, eins og Tónlistarskóli, Myndlista- og handíðaskóli, Íþróttakennaraskóli, Fósturskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands. Milli allra þessara stofnana þarf að takast betra samstarf og samvinna en er í dag.