11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég kem ekki upp til að kvarta undan fjarveru ráðherranna. Ég harma það ekkert þó að þeir tækju sér lengra frí en þeir hafa kannski ætlað sér að gera, en ég sé að starfsfyrirkomulag ríkisstjórnarinnar virðist vera orðið þannig að helming má telja til eins konar útlagastjórnar sem stjórnar í gegnum síma eftir upplýsingum sem frummælandi gaf og hinn helmingurinn sé eins konar heimastjórn sem hefur ákveðið að sitja heima og gera ekki neitt ef marka má orð frummælanda. Hvoru tveggja þessara ráðstafana get ég svo sannarlega samþykkt miðað við það sem ríkisstjórnin hefur gert frá því að hún tók við, sem hafa verið nýir skattar og hærri skattar, meiri álögur, niðurfelling þeirra hlunninda sem gamalt fólk hefur haft og nú ráðgera þeir að leggja enn nýja skatta á sparifé og eignatekjur fólks sem aðallega er þá gamalt fólk. Af hverju erum við svo, stjórnarandstaðan, að kvarta yfir fjarveru eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar ef hún einhvern tíma tekur sér frí frá slíkri iðju sem hingað til hefur borið mest á í hennar afgreiðslum? Það skil ég ekki.

En er það rétt að núna, 11. nóvember, þegar rúmur mánuður er til jólafrís, skuli eiga eftir að koma fram um 100 boðuð frv.? Hv. frummælandi gat þess að ríkisstjórnin hefði boðað 107 stjfrv. og sjö væru komin fram og það eru um það bil 30–35 vinnudagar eftir til jóla. Við skulum segja að þeir séu 40. Það er alveg útilokað að ríkisstjórnin geti ætlast til þess að stjórnarandstaðan taki þátt í slíku kapphlaupi við tímann eins og ríkisstjórnin er að bjóða upp á rétt fyrir áramót eða í desember eins og hv. frummælandi tók til orða. Ég vara við þessum vinnubrögðum. Það hafa komið kvartanir af minni ástæðum en þessari, sem liggur fyrir, til þeirra ríkisstjórna sem á undan þessari ríkisstjórn hafa verið. Ég get ekki skilið hvers vegna mál koma ekki fyrir þingið og fyrir þingnefndir á sama tíma sem flokkarnir eru beðnir um að skipa menn í sérnefndir, ríkisstjórnar eða ráðherra, til að skoða einstök mál sem eiga svo eftir að koma fyrir þingið og síðan fyrir þingnefndir. Þessi vinnubrögð eru alveg furðuleg.

Ég vil líka gera athugasemdir við það, og er ekki sá fyrsti sem geri þá athugasemd, hvers vegna við tökum þátt í starfi Norðurlandaráðs eða Norðurlandaþings á þeim tíma sem erfiðast er fyrir Alþingi að missa menn út af þingi? Hvers vegna? Hvað á þetta að þýða? Ég hef mætt á þessum fundum Norðurlandaráðs og ég sé ekki meira gagn í að fara þangað fyrir land og þjóð en sitja sem kjörinn þm. og ræða um áríðandi mál fyrir land og þjóð heima á þjóðþinginu.

Nei, ég tek undir allt það sem frummælandi sagði og vara ríkisstjórnina við þessari málsmeðferð. Það er engin afsökun til fyrir því hvernig þingið er nú leitt. Það eru ágætar upplýsingar sem koma frá hv. formanni iðnn., en það eru ekkert annað en upplýsingar. Það vita allir að sameinað Alþingi hefur tekið þingnefndarfundartíma. Auðvitað verður þá nefndin að breyta um fundatíma. Og það að breyta einum nefndarfundatíma á ekki að taka fram í næstu viku að ákveða. Það getum við gert strax á nokkrum mínútum. Það er enginn vandi. Ég er reiðubúinn að mæta á iðnaðarnefndarfund í dag ef formaðurinn boðar fund eða á morgun ef það er þægilegra eða hvaða dag sem er þegar aðrir nefndarmenn eru lausir. Við erum hér til að þjóna þinginu en ekki einhverjum öðrum aðilum, hvort sem þeir heita Norðurlandaráð eða tímaleysi þm. sem eru í nefndum vegna þess að þeir eru uppteknir utan þings. Þetta er fullt starf. Það er bara yfirklór að benda á að sameinað Alþingi hafi tekið upp nefndartímann.

En ég tek eindregið undir og þakka frummælanda fyrir að hafa vakið athygli á því sem fram undan er því að það er ekkert lítið verk sem bíður okkar þegar loksins ríkisstjórnin ákveður að stíga á bensínið ef þeir finna það. (MB: Það kom eitt stjfrv. á meðan þm. talaði.) Má ég þakka fyrir upplýsingarnar. Það var bent á það úr sal, til þess að það sé skráð hér, að það hafi borist stjfrv. Það er eins og þrekvirki hafi skeð! Mér liggur við að biðja þingheim um að standa upp og hrópa ferfalt húrra, en ég ætla ekki að gera það.