04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7394 í B-deild Alþingistíðinda. (5433)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er um að breyta ávöxtun á skyldusparnaði. Allt frá því að lög um skyldusparnað voru fyrst sett 1957 hefur tilgangur skyldusparnaðar annars vegar verið að tryggja að ungt fólk legði fyrir fé af launum sínum, sem mundi síðar nýtast því þegar það keypti sína fyrstu íbúð, og hins vegar tryggja Byggingarsjóði ríkisins greiðan aðgang að fjármagni sem nota ætti til útlána.

Fram til ársins 1970 var skyldusparnaðarprósenta 6%, en þá var skyldusparnaður hækkaður í 15% og hefur það hlutfall haldist óbreytt síðan. Í upphafi var reynt að miða við að ávöxtun á skyldusparnaði væri ávallt sú besta sem völ væri á, en skv. núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins væru vextir þeir sömu og gilda á hverjum tíma um lán úr sjóðnum að viðbættum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands. Auk þess voru ákvæði í skattalögum um að skyldusparnaður væri frádráttarbær til skatts. Þetta varð til þess að í mörgum tilvikum var um mjög fýsilegan ávöxtunarkost að ræða, einkum hjá þeim ungmennum sem höfðu miklar tekjur.

Um sl. áramót féll niður heimild til að draga skyldusparnað frá skatti. Sú breyting ásamt þeirri staðreynd að nú bjóðast fólki mun hærri vextir á sparifé sitt en hér um ræðir á almennum lánsfjármarkaði veldur því að nauðsynlegt er að endurskoða ákvæði húsnæðislaganna um skyldusparnað.

Hér er því lagt til að bæta ávöxtun á skyldusparnaði og jafnframt að tryggt verði að sama ávöxtun haldist áfram eftir að 26 ára aldri er náð. Nefnd á vegum félmrn., sem fjallaði um málið, lagði til að markmið lagabreytingarinnar yrði að bæta ávöxtun eftir því sem skyldusparnaður liggur lengur óhreyfður inni á reikningi og að við ákvörðun vaxta verði höfð hliðsjón af ávöxtun í ríkisbönkum og við það miðað að hún sé ekki lakari en ríkissjóður býður á hverjum tíma. Þessum markmiðum hefur verið leitast við að framfylgja við samningu frv. Jafnframt var haft samráð við starfsmenn Seðlabanka og Húsnæðisstofnunar. Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur einnig fjallað um frv. og er sammála þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Frv. gerir ráð fyrir breytingu á 71. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins þannig að í 2. mgr. greinarinnar verði ríkisstjórn falið að ákveða vexti á skyldusparnaði að fengnum tillögum og umsögn Seðlabankans. Þetta er sama reglan og gildir um lán úr Byggingarsjóði ríkisins, sbr. 3. mgr. 30. gr. laganna um Húsnæðisstofnun.

Gert er ráð fyrir að ákvörðun um vexti sé tekin fyrir eitt ár í senn og er það gert svo að vextir á skyldusparnaði séu í sem bestu samræmi við vexti á almennum peningamarkaði. Enn fremur er gert ráð fyrir að við ákvörðun vaxta verði höfð hliðsjón af ávöxtunarkjörum hjá ríkisbönkum og þeim sem ríkissjóður býður á hverjum tíma. Með þessari breytingu mun Byggingarsjóður ríkisins þurfa að greiða hærri vexti fyrir skyldusparnað en hingað til. Á móti viðbótarkostnaði Byggingarsjóðs vegna hækkaðra vaxta er á það að líta að kostnaður ríkissjóðs vegna fyrri skattfríðinda skyldusparnaðar fellur niður. Samkvæmt upplýsingum vararíkisskattstjóra nam frádráttur vegna skyldusparnaðar árið 1986 samtals 466 millj, kr. Erfitt er að leggja mat á hvað það þýðir í raunverulegum tekjum fyrir ríkissjóð, en samkvæmt upplýsingum starfsmanna fjmrn. var talið að tekjutap ríkissjóðs 1987 vegna skattafrádráttar skyldusparnaðar hafi verið um 80–90 millj. kr.

Í frv. er gert ráð fyrir að innistæða á skyldusparnaðarreikningi sem reikningseigandi leysir ekki út við 26 ára aldur skuli bera sömu ávöxtun. Hingað til hafa ávöxtunarkjör skyldusparnaðar breyst við 26 ára aldur og sparnaður borið almenna sparisjóðsvexti eftir það. Þetta hefur leitt til þess að sparendur hafa leyst skyldusparnað sinn út eins fljótt og hægt hefur verið eftir 26 ára aldur. Þessi breyting á lögunum á að stuðla að því að fólk telji sér hag í því að ávaxta fé sitt áfram á skyldusparnaðarreikningi og þannig sé hægt að styrkja stöðu Byggingarsjóðs.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.