04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7411 í B-deild Alþingistíðinda. (5448)

454. mál, viðskiptabankar

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er um mikilsvert mál að ræða, eiginlega prinsippmál, hvort á að hleypa erlendu fé inn í bankana í meira mæli en hingað til hefur verið hægt. Hér er um það að ræða að erlendir aðilar geti fjármagnað íslenska bankakerfið allt að einum fjórða. Við kvennalistakonur höfum efasemdir um að rétt sé að haga málum á þennan hátt. Fyrst er á það að líta að hér á landi er engin heildarlöggjöf um erlenda fjárfestingu né hvernig slíkum málum skuli hagað og okkur finnst varhugavert að samþykkja frv. án þess að slík heildarlöggjöf liggi fyrir og ekki eðlilegt að þessi þáttur sé tekinn út úr. Ég vil minna á að þegar iðnaðarlögin voru rædd hér í vetur og sú breyting á þeim að erlendir menn gætu fjárfest hér þá vöruðu ýmsir við því að erlendu fjármagni yrði veitt inn í landið í stórum stíl og bentu á augljós áhrif slíkra aðgerða á hagkerfið. Íslenskt hagkerfi er ekki stórt, a.m.k. ekki á alþjóðlegan mælikvarða, og þar af leiðir að það er mjög viðkvæmt fyrir öllum sveiflum. Einnig og ekki síst þeim sveiflum sem erlent fjármagn getur orsakað, fjármagn sem við höfum takmörkuð yfirráð yfir og sem eigendurnir geta dregið í burtu eða aukið við nánast eftir geðþótta og þannig valdið straumkasti innan hagkerfisins sem við kynnum að eiga erfitt með að stjórna. Því kynni þetta fjármagn að reynast okkur dýrkeypt. Það er kannski ekki mikill munur á, sbr. breytinguna á iðnaðarlögunum, hvernig erlendu fjármagni er veitt inn í landið, hvort það er beint eða í gegnum bankakerfið. Þó er kannski skárra að stjórna því ef það er gert í gegnum bankana. Við ættum trúlega betra með það. En fyrst og fremst verðum við að varðveita fjárhagslegt sjálfstæði okkar sem þjóðar og það sjálfstæði verður ekki tryggt með erlendu fjármagni, það eru alveg hreinar línur, fremur hið gagnstæða.

Þessi breyting kynni að verða fyrsta skref til frekari opnunar efnahagskerfisins fyrir erlendu fé og hvar verður þá staðnæmst? Það hljóta menn að óttast. Við stöndum frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum í efnahagsmálum núna, en stafa þeir af skorti á fjármagni? Það er spurningin. Stafa þeir ekki fremur af því að fjármagnið er of dýrt og atvinnulífið þolir ekki þann fjármagnskostnað sem því er ætlað að bera við núverandi aðstæður? Það er meginmálið.

Aðgerðunum sem frv. boðar er bersýnilega ætlað að styrkja bankakerfið og þá er spurning hvort ekki er hagkvæmara og um leið þjóðhollara að gera það á annan máta. Í starfsáætlun hæstv. ríkisstjórnar stendur, með leyfi hæstv. forseta, að „stefnt skuli að samruna banka með það að markmiði að ná aukinni hagkvæmni og rekstraröryggi í bankakerfinu.“ Hæstv. ríkisstjórn hefur engu áorkað í þessa veru enn þá. Og það læðist að manni grunur um að hún sé e.t.v. ekki svo mjög áfjáð í að breyta neinu í þessum efnum og að hún vilji kannski koma sér hjá öllum óþægilegum og gagngerum breytingum og umróti og kjósi fremur auðveldari leið, þ.e. að veita erlendu fjármagni til bankanna, og það held ég að megi segja að sé „billeg“ lausn.

Það er rétt að huga að því hvort að hin leiðin, sú að sameina bankana, sé ekki hentugri okkur. Íslenskir bankar eru yfirleitt vel stæðir nú og væru þeir sameinaðir í stærri einingar væru þeir atvinnulífinu styrkari stoðir og jafnframt væru þeir öflugri og færari um að mæta áföllum ef eitthvað fer úrskeiðis svo sem við höfum dæmi um að geti gerst. Ávöxtun fjár á Íslandi er mjög arðvænleg eins og er og það kann því að vera áhugavert fyrir erlenda aðila nú að veita fé inn í bankakerfið okkar. Verði þetta frv. samþykkt er ekkert sem hindrar þá í því. Þeir geta komið með sitt fé. Þeir geta líka dregið sig til baka og farið ef þeim býður svo við að horfa ef hallar undan fæti hjá okkur á einhvern máta og féð ávaxtast ekki svo sem þeir sætta sig við. Og hvernig stöndum við þá? Vegna smæðar samfélags okkar getur sú breyting sem þetta frv. boðar haft verulega afdrifarík áhrif á efnahagslíf okkar og ekki endilega til hins betra.

Við kvennalistakonur teljum því sameiningu bankanna farsælli leið til eflingar bankakerfinu en að opna það upp á gátt eða þó ekki sé nema í hálfa gátt fyrir erlendu fé og við vörum við þeirri stefnu því að eins og ég sagði áðan: Hvar verður staðnæmst?

Ég hef enn aðeins fjallað um 1. gr. frv. Um aðrar greinar þess er það að segja að þær miða yfirleitt að því að tryggja öryggi í viðskiptum og að farið sé af fyllstu gát með lánveitingar og að draga úr hættu af hagsmunaárekstrum. Vissulega er þarft að á þessum atriðum sé hert og þessar greinar eru allar til bóta í bankalöggjöfinni. Ég vil því lýsa stuðningi Kvennalistans við þær. En því er ekki að leyna að 1. gr. er okkur verulegur þyrnir í augum og við höfum áhyggjur af sívaxandi kröfum vissra hópa um að fá erlent fjármagn inn í landið. Við heyrum oft þau rök að við þurfum að laða erlent fjármagn, áhættufjármagn, að okkur og það er talið betra en að við tökum lán. Ég efast um að erlendir fjármagnseigendur muni vilja fjárfesta hér á landi nema því aðeins að þeir fái þá mikinn arð af því fé og kannski meiri en við höfum ráð á að borga þegar til lengri tíma er litið. Ég hef verulegar áhyggjur af því að við töpum yfirráðum yfir auðlindum okkar í hendur útlendinga verði þetta frv. að lögum þegar einnig er búið að breyta iðnaðarlögunum eins og gert var í vetur. Ég skil ekki hvers vegna liggur svo á að samþykkja þetta frv. og mér fyndist réttast að samþykkja alls ekki 1. gr. þess, en huga heldur að því að styrkja bankakerfið á annan og þjóðhollari hátt án þess að fjárhagslegu sjálfstæði okkar sé á nokkurn hátt stefnt í hættu.