05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7420 í B-deild Alþingistíðinda. (5454)

319. mál, staðgreiðsla skatta af orlofsfé

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram á þskj. 635 fsp. til fjmrh. um staðgreiðslu skatta af orlofsfé. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með hverjum hætti fer fram staðgreiðsla skatta af orlofsfé sem launþegi fær ekki í hendur fyrr en að orlofi kemur?"

Með þessari fsp. þarf í rauninni ekki að halda langa ræðu eða um hana að fara mörgum orðum.

Hér er eingöngu um það að ræða að varpa fram spurningunni: Með hverjum hætti fer fram staðgreiðsla af orlofsfé t.d. vikukaupsmanna? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er staðgreiðsla skatta af orlofsfé nokkuð mismunandi eftir því með hverjum hætti launþegar fá laun sín greidd. Mánaðarkaupsmenn taka sumarfrí ákveðinn mánuð af ári og þá er orlof tekið af mánaðarlaununum. Þá er staðgreiðsla tekin af mánaðarlaununum þann mánuð sem þeir fara í sumarfrí. Vikukaupsmenn fá orlof sitt inn á reikning í hverri viku, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef greiða þeir skatta af þessu orlofsfé í staðgreiðslu jafnóðum og það er ekki dregið af orlofsfénu sjálfu þannig að minni upphæð fari inn á orlofsreikninginn heldur dregið af launum þeirra, en orlofsféð fer óskert inn þannig að í rauninni er hér um misræmi að ræða milli mánaðarkaupsmanna og vikukaupsmanna þannig að þeir sem á vikukaupi eru greiða fyrir fram skatta samkvæmt staðgreiðslukerfinu ef ég skil þetta rétt.

Nú hygg ég að þetta hafi hvorki verið skilningur þingsins né jafnvel ráðuneytisins í upphafi án þess að mér sé um það kunnugt. Því hef ég varpað þessari spurningu fram til að fá það fram á þinginu hvort fjmrh. er þess meðvitandi að staðgreiðsla af orlofsfé sé á þennan hátt og hvort hann hyggst gera á því einhverjar breytingar.