05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7428 í B-deild Alþingistíðinda. (5467)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Já, herra forseti. Við heyrðum hér í fulltrúa Tímans. Þeim er greinilega sama hvað þeir birta á þeim bænum ef þeir fá borgað fyrir það. En svo er ekki um ræðumann. Ég tel að auglýsingar hæstv. fjmrh., og þá á ég við auglýsingar ráðuneytisins sjálfs, séu hneyksli, stórpólitískt hneyksli. Það er misnotkun á opinberu fé að auglýsa matarskattinn sem sérstakt réttlætismál og leggja undir það heilsíðu eftir heilsíðu að fullyrða að þar sé einhver sérstök blessun og eitthvert sérstakt réttlæti á ferðinni fyrir fólkið í landinu.

Ég segi við hv. þm. Reykn. Níels Árna: Það er tvennt ólíkt að kynna með hlutlausum hætti einhverjar kerfisbreytingar sem eiga sér stað, enda fari þá sú kynning fram á vegum viðkomandi stofnunar, þ.e. ríkisskattstjóra, eins og staðgreiðslukerfisbreytingin hefur verið auglýst. Þar er um allt annan og algjörlega óskyldan hlut að ræða. Ég er hér að gagnrýna auglýsingar ráðuneytisins sjálfs, almennar pólitískar auglýsingar þar sem reynt er að réttlæta hina pólitísku stefnu ráðherrans í skattamálum sem er allt annað en auglýsing á einhverri tiltekinni kerfisbreytingu.

Ég gagnrýni sömuleiðis auglýsingar viðskrn. vegna þess að þar er í fyrsta lagi farið inn á verksvið verðlagsstjóra. Auglýsingar af þessu tagi eru á verksviði verðlagsskrifstofu og verðlagsstjóra og ættu því að birtast þar en ekki af hálfu ráðherrans eða ráðuneytisins. Hér má ekki rugla saman þessu tvennu, annars vegar hlutlausri kynningu, eðlilegu fræðslustarfi tiltekinna opinberra stofnana, hins vegar pólitískum auglýsingum viðkomandi ráðherra kostuðum af almannafé.

Það er, herra forseti, að mínu mati stórpólitískt hneyksli og allri ríkisstjórninni til skammar ef haldið verður áfram á þessari braut. Það getur ekki þýtt annað en það að aðrir stjórnmálaflokkar í landinu taka til við að gera kröfur um hliðstæðan fjárstuðning til að kynna sína stefnu. Ef ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. ætla að halda áfram að reka áróður fyrir skattastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir opinbert fé hlýtur stjórnarandstaðan að koma og gera kröfur um sambærilegan fjárstuðning til að kynna sína stefnu. Allt annað væri hróplegt ranglæti og mismunun.

Ég er hins vegar ekki að biðja um að farið verði út á þá braut. Ég er að biðja um að þessum ósóma verði hætt.