05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7431 í B-deild Alþingistíðinda. (5473)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þar sem ég var einn af þeim sem lögðu á það áherslu um síðustu áramót að almenningi yrðu kynnt þau áform um skattkerfisbreytingar sem þá voru til umræðu, þ.e. staðgreiðslukerfisbreytingin, vil ég sérstaklega mótmæla þeim tilraunum hæstv. fjmrh. til að skjóta sér á bak við þá kynningu sem er allt annars eðlis. Ég held að allir hv. þm. treysti embætti ríkisskattstjóra vel til að standa fyrir hlutlausri og hlutlægri kynningu á þeim breytingum. Það er allt annað en pólitísk misnotkun hæstv. fjmrh. á opinberu fé til að kynna skattastefnu Alþfl. Og ég endurtek: Þessir reikningar eiga að greiðast úr flokkssjóðum Alþfl. þegar þeir berast ráðuneytinu.