05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7433 í B-deild Alþingistíðinda. (5480)

485. mál, fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Sömuleiðis þakka ég fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær báru nokkuð vott um að umræða um þessi mál hefur viljað vera nokkuð heit. Þrátt fyrir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði held ég að það sé nauðsynlegt fyrir stjórnvöld og Alþingi í þessu efni að taka af skarið. Það er ekki hægt að skella skollaeyrunum við því að þegar fundir heillar starfsgreinar með samhljóða atkvæðum óska eftir tiltekinni skipan þessara mála og að koma þeim inn í kerfi sjútvrn. er ekki hægt fyrir ríkisstjórnina að horfa fram hjá því. Það er útilokað. Og þó að menn séu vanir að hafa hlutina í einu ráðuneyti, í þessu tilviki landbrn., er ekkert sem segir að þeir eigi að vera þar áfram. Brýnast er hins vegar að ákvörðun verði tekin og það verði tekin ákvörðun um heildarstefnumótun í fiskeldismálum. Því miður kom það fram í svari hæstv. forsrh. að á það hefur skort að á þessum málum væri tekið heildstætt. Hins vegar kom fram hjá honum og fleiri ræðumönnum vilji til þess að það verði mótuð heildarstefna fyrir þróun fiskeldis hér á landi og það er ánægjulegt. Ég tel reyndar að Alþingi hefði átt að gera þetta. Það er bersýnilegt að það tekur í raun og veru of langan tíma að bíða eftir því að ríkisstjórn komi með eitt eða neitt í þessu máli. Eðlilegast er úr því sem komið er að Alþingi taki hér af skarið og ég áskil mér rétt til að flytja um það tillögur eða frv. í haust að Alþingi taki af skarið varðandi stefnumótun í fiskeldismálum.