05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7445 í B-deild Alþingistíðinda. (5495)

508. mál, iðnráðgjöf

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við fsp. minni og ég lýsi ánægju minni yfir að hann skuli ætla að beita sér fyrir því að sett verði á nýjan leik lög um iðnráðgjöf í landshlutunum í ljósi þeirrar reynslu sem hann gat um hér áðan. Ég held að í rauninni hefði þurft að taka á þessum málum strax og lögin féllu úr gildi 1985, enda var það ætlunin, að ég tel, þegar um framlengingu til eins árs var að ræða. Það hefði sannarlega verið ástæða til þess að þetta þing hefði fjallað um frv. af þessu tagi vegna undirbúnings fjárlaga fyrir næsta ár. En ég vænti þess að á yfirlýsingu hæstv. ráðherra um þetta efni verði tekið það mark að strax í fjárlagafrv. verði fjármagn til þessara mála með hliðsjón af þeim lögum sem ríkisstjórnin ætlar sér væntanlega að styðja, um iðnráðgjöf.

Eins og hæstv. ráðherra gat um hefur óvissan í þessum efnum orðið til verulegs miska fyrir þessa starfsemi. Það hefur verið los á starfsmönnum og það hefur orðið mun meira vegna þeirrar óvissu um ráðningarkjör og yfirleitt um starfsgrundvöll þeirra en ella hefði orðið. M.a. af þeim sökum er þörf á að auka við þessa starfsemi og ég beini því til hæstv. ráðherra að hann íhugi það við undirbúning lagafrv. að taka upp heimild til þess að ráða með hliðstæðum stuðningi og verið hefur tvo starfsmenn í hverju kjördæmi til þessara verka því að það hefði ómetanlegt gildi fyrir starfsemina að mínu mati. Það mundi styrkja hana meira en svarar aukningunni vegna þess að samráð tveggja aðila eru mikilvæg á stórum landsvæðum og auk þess er þýðingarmikið, ef maður hættir starfi, að botninn detti ekki úr með þeim hætti sem hætt er við, að samhengið rofni þegar menn hverfa þannig úr störfum.

Einnig vænti ég að hæstv. ráðherra líti til reynslu nágranna okkar í þessum efnum þar sem aukið hefur verið við þessa starfsemi, t.d. í Noregi.