05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7449 í B-deild Alþingistíðinda. (5506)

511. mál, viðskiptahalli

Fyrirspyrjandi (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 929 til forsrh. um viðskiptahalla, svohljóðandi: „Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við spám Þjóðhagsstofnunar um viðskiptahalla við útlönd sem talið er að verði vel yfir 10 milljarða króna, jafnvel allt að 20 milljörðum króna á árinu 1988?"

Fsp. hefur tvívegis áður verið á dagskrá virðulegs sameinaðs Alþingis, en í bæði skiptin tekin út af dagskrá. Það var stjórnarþingmaður sem bar þessa fsp. tvisvar sinnum fram, hv. 10. þm. Reykv., án þess að þessari miklu spurningu hafi verið svarað. En ég tel að það sé með stærstu málum sem snerta þjóðina í dag hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessum mikla viðskiptahalla.

Nú vitum við að áður en ríkisstjórnin gerði sínar síðustu efnahagsráðstafanir, ef efnahagsráðstafanir skal kalla, þær voru ekki ráðstafanir til hins góða heldur íþyngjandi fyrir þjóðfélagið eins og allir vita, kom skyndilega í ljós að viðskiptahallinn, sem reiknað var með að gæti farið upp í 10 milljarða, hefði verið tekinn niður úr 13–14 milljörðum í 10 milljarða með efnahagsráðstöfunum. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan það var og síðan þessi fsp. var lögð fram af hv. 10. þm. Reykv. hefur margoft komið í ljós í blöðum að viðskiptahallinn stefndi miklu hærra en hann var áður en þessi leiðrétting svokölluð var gerð með síðustu efnahagsráðstöfunum. Þess vegna þótti mér rétt að taka upp fsp. hv. 10. þm. Reykv. með það í huga að fá svar við þessari fsp. stjórnarþingmannsins.