05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7450 í B-deild Alþingistíðinda. (5507)

511. mál, viðskiptahalli

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er eitt mikilsverðasta markmið og verkefni ríkisstjórnar að ná niður viðskiptahalla.

Vegna fsp. þar sem segir að fyrir liggi spár um 1020 milljarða kr. viðskiptahalla á þessu ári er þess að geta að Þjóðhagsstofnun hefur reiknað með að viðskiptahalli geti orðið rúmlega 10 milljarðar á þessu ári miðað við núverandi aðstæður. Aðrir sérfræðingar, sem um þessi mál hafa fjallað, hafa talað um að þessi tala gæti orðið lægri, þar á meðal sérfræðingar fjmrh. og Seðlabanka. Hvergi hafa komið fram tölur eða spár um að viðskiptahalli á þessu ári geti orðið 20 milljarðar. Það mun hafa komið fram hjá málshefjanda stjórnarandstöðu við umræður um vantraust á ríkisstjórnina að samanlagður viðskiptahalli einhverra ára gæti numið 20 milljörðum, en það er ekki spá um viðskiptahalla á þessu ári heldur fremur leikur til að blekkja kjósendur með talnaleik.

Þau atriði í almennri efnahagsstjórn sem ráða hvað mestu um viðskiptahalla eða viðskiptajöfnuð eru skráning á gengi krónunnar, stefnan í ríkisfjármálum og stefnan í peningamálum. Hér hefur verið að því er varðar aðgerðir í peningamálum fylgt efnahagsstefnu sem hefur haldið uppi innlendum sparnaði og með markvissum aðgerðum í þeim efnum hefur verið stuðlað að því að draga úr viðskiptahalla. Jafnframt hafa verið teknar ákvarðanir sem draga úr erlendum lántökum, bæði að því er varðar heimildir fjárfestingarlánasjóða, að því er varðar ákvarðanir ríkissjóðs um að taka ekki erlend lán til eigin þarfa og enn fremur með því að skattleggja erlendar lántökur.

Að því er varðar stefnuna í ríkisfjármálum hefur komið skýrt fram að ríkissjóður er nú rekinn með jöfnuði og það er mjög mikilvægt þegar við vanda er að etja sem felst í vaxandi viðskiptahalla. M.a. af þeim sökum voru ákvarðanir teknar í þeim efnum og öllum tillögum, m.a. frá stjórnarandstöðunni, um að reka ríkissjóð með halla á þessu ári var hafnað og vísað frá vegna þess að þær hefðu leitt til meiri vanda að því er varðar viðskiptahalla.

Að því er varðar gengisskráninguna hefur verið farið varlegar í þeim efnum en á hinum tveimur sviðunum fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin hefur í lengstu lög viljað viðhalda þeim kaupmætti sem um hefur verið samið. Auðvitað eru áhöld um hversu lengi slíkt er hægt eftir að þjóð hefur orðið fyrir efnahagslegum áföllum, en það hefur verið meginsjónarmiðið að baki því að fara varlega í því að breyta gengi krónunnar. Það var þó gert í tengslum við efnahagsráðstafanir í lok febrúar. Þær ráðstafanir skiluðu þeim árangri að mati Þjóðhagsstofnunar að lækka fyrirsjáanlegan viðskiptahalla um 3–4 milljarða kr.

Viðskiptahalli hefur verið mjög þrálátt vandamál lengi í íslensku efnahagslífi og þau eru færri árin sl. tvo áratugi sem við höfum haft jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Hann hefur jafnvel farið upp í tæp 11% af framleiðslu þjóðarinnar. Núna eru horfur á því að hann geti orðið milli 4 og 5%. Það er svipaður vandi og við áttum við að etja á árunum 1984–1985 að þessu leyti. Ég lít á það sem eitt af höfuðverkefnunum og þátt í því að rétta við stöðu útflutningsframleiðslunnar að ná meiri og betri árangri í þessu efni en við höfum þegar gert og með þeirri almennu stefnu í efnahagsmálum sem fylgt verður og þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru fram undan til að treysta undirstöðu framleiðsluatvinnuveganna í landinu væntum við þess að ná enn frekari árangri í baráttunni fyrir því að lækka viðskiptahallann.