05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7453 í B-deild Alþingistíðinda. (5511)

511. mál, viðskiptahalli

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Við hv. 5. þm. Reykv. vil ég segja að það er áfall fyrir þjóðarbúið þegar verðfall verður á erlendum mörkuðum og afli verður minni en menn höfðu gert ráð fyrir og tekið útgjaldaákvarðanir sínar út frá og því verður auðvitað að mæta.

Við hv. 2. þm. Vestf. vil ég segja að fáum ætti að vera betur kunnugt um það á hvaða forsendum ríkisstjórnin hefur byggt sínar ákvarðanir og hvers vegna hann hefur stutt ráðherra síns eigin flokks til þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið og tímasetninga þeirra ákvarðana þar sem ríkisstjórnin hefur leitað þess að finna jafnvægi á milli eðlilegrar kröfu um að tryggja rekstur útflutningsframleiðslu og viðhalda svo sem best verður kostur við núverandi aðstæður kaupmætti í þjóðfélaginu.

Við hv. 7. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Þegar hann skilaði af sér sem ráðherra var viðskiptahalli á síðasta heila árinu sem hann sat í ríkisstjórn milli 8 og 9% og fór upp fyrir 10% á síðustu mánuðum sem hann sat í ríkisstjórn. Hverjar voru þær tillögur sem Alþb. lagði fram þegar sá viðskilnaður lá fyrir? Afnám vísitöluákvæða í kjarasamningum. Það er rétt að rifja þetta upp fyrir hv. þm. enn einu sinni því að hann hefur svo oft gleymt þessari staðreynd.