05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7456 í B-deild Alþingistíðinda. (5516)

517. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 969 legg ég fram fsp. til forsrh. um Framkvæmdasjóð Íslands.

Er Framkvæmdastofnun var lögð niður árið 1985 og Byggðastofnun stofnsett var Framkvæmdasjóður Íslands gerður að sérstakri stofnun undir forsrh. Var þá ákveðið jafnframt að embættismenn skyldu skipa stjórn stofnunarinnar en ekki í hana kosið af Alþingi eins og Byggðastofnun. Skyldi forsrh. skipa einn mann, fjmrh. annan og Seðlabanki hinn þriðja. Þar við situr enn.

Það sem fsp. beinist að er starfsemi þessarar stofnunar og sá sess sem hún skipar í lánveitingum til framkvæmda og rekstur þessarar stofnunar. Það er almennt viðurkennt að þessi stofnun nýtur mikils trausts erlendis og hefur í gegnum árin, og gerir enn, fengið erlend lán með mun hagstæðari kjörum en almennt gengur og gerist hjá bönkum og sjóðum þó svo þau hafi ríkisábyrgð. Hefur sá háttur verið hafður á að stofnunin hefur tekið lán, þar á meðal fyrir Byggðastofnun og aðra opinbera sjóði, og hefur þannig þróast út í það að vera endurlánasjóður. Sjóður þessi mun einnig hafa lánað til fleiri aðila og notið til þess bæði eigin fjár svo og erlends fjár.

Spurningin er því sú hvaða aðilar þetta eru og úr hvaða kjördæmum.

Fsp. er annars þannig:

„1. Hver er heildarfjárhæð tekinna erlendra lána Framkvæmdasjóðs Íslands árið 1987?

2. Hverjir hafa fengið lán og styrki úr sjóðnum og hvernig skiptast lánveitingarnar eftir kjördæmum? Hver er heildarfjárhæð lánanna og styrkjanna?

3. Hverjir hafa fengið skuldbreytingu lána 1987 og hvað nema þær skuldbreytingar háum fjárhæðum?

4. Hefur orðið breyting á hlutabréfaeign sjóðsins? Ef svo er, hverjum hafa verið seld þau hlutabréf og á hvaða verði?"

Hin síðastgreinda spurning beinist að sölu á hlutabréfaeign sjóðsins, en hann mun hafa átt hlutabréf að mig minnir bæði í Fjárfestingarfélaginu og m.a. í Álafossi og svo ýmsum öðrum fyrirtækjum.