05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7457 í B-deild Alþingistíðinda. (5517)

517. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er spurt um heildarfjárhæð tekinna erlendra lána hjá Framkvæmdasjóði á árinu 1987.

Svarið er þetta: Heildarfjárhæð tekinna erlendra lána Framkvæmdasjóðs Íslands árið 1987 nam 3436 millj. kr. Þar af var notað til að endurgreiða fyrir fram erlend lán í yenum 1884 millj. kr. Ný erlend lán voru því 1552 millj. kr.

Spurt er að því hverjir hafi fengið lán og styrki úr sjóðnum og hvernig þær lánveitingar skiptist eftir kjördæmum, hver sé heildarfjárhæð lánanna og styrkjanna.

Heildarfjárhæð lánanna var 2,6 milljarðar kr. og heildarfjárhæð styrkja 7 millj. kr. Lánveitingar til fjárfestingarlánasjóða námu 1,9 milljörðum kr., lán til fiskeldis 353 millj. kr. og önnur lán námu um 302 millj. kr.

Fyrirspurnatími gefur ekki rúm til að lesa upp lánveitingar til einstakra aðila. Þær eru þó ekkert leyndarmál og geta menn gengið eftir þeim og hægt að birta þær hinu háa Alþingi sem svar við skriflegri fsp. ef hún yrði lögð fram.

Þá er spurt að því í þriðja lagi hverjir hafi fengið skuldbreytingu lána á árinu 1987 og hvað þær skuldbreytingar nemi háum fjárhæðum. Það eru þrír aðilar sem hafa fengið skuldbreytingu og samtals nema þær 9,9 millj. kr.

Og loks er í fjórða lagi spurt: „Hefur orðið breyting á hlutabréfaeign sjóðsins? Ef svo er, hverjum hafa verið seld þau hlutabréf og á hvaða verði?"

31. des. 1986 átti Framkvæmdasjóður hlutabréf í Álafossi hf. upp á 117 millj. 750 þús. kr. og í Fjárfestingarfélaginu upp á 4 millj. 279 þús. kr.

Á árinu 1987 var hlutur Framkvæmdasjóðs í Fjárfestingarfélagi Íslands seldur Eimskipafélaginu á nafnverði, 4,2 millj. kr. Í árslok 1987 á Framkvæmdasjóður síðan hlutabréf upp á 250 millj. kr. í hinu nýja fyrirtæki Álafossi. Hann á hlutabréf í gamla Alafossi upp á 1 millj. og svo hlutabréf í fyrirtækjum sem gamli Álafoss átti og það eru hlutabréf í Iðnaðarbanka Íslands upp á 4,8 millj., í Íslenskum markaði upp á 4,9 millj., í Fljótsbæ hf. upp á 325 þús. og Tollvörugeymslu upp á 7000.

Það er ráðgert og í undirbúningi af hálfu Framkvæmdasjóðs að selja þessi hlutabréf sem komist hafa í hans eigu eftir að gamli Álafoss var lagður niður.