05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7458 í B-deild Alþingistíðinda. (5519)

517. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ákvörðun um sölu á hlutabréfaeign í Fjárfestingarfélaginu var tekin af stjórn sjóðsins og mér er ekki kunnugt um með hvaða hætti staðið var að þeirri sölu. Að því er varðar skiptingu lánveitinga milli kjördæma er rétt að geta þess að langstærsti hluti af útlánum Framkvæmdasjóðs fer til einstakra fjárfestingarlánasjóða eða um tæpir 2 milljarðar kr. og það eru þeir sjóðir sem geta síðan gefið upplýsingar um með hvaða hætti útlánin dreifast milli einstakra kjördæma. En að því er varðar bæði lán til fiskeldis og önnur útlán er hægt að greina þær lánveitingar milli einstakra aðila í sundur á þeim lista sem fyrir liggur um þær lánveitingar.