05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7458 í B-deild Alþingistíðinda. (5520)

512. mál, innheimta söluskatts

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til fjmrh. á þskj. 931 um innheimtu á söluskatti. Hún er í þremur liðum:

„1. Hvað veldur því að fjmrh. hefur ekki enn gefið út reglugerð um sérstaka innsiglaða afgreiðslukassa í verslunum?

2. Hver eru skil verslana á söluskatti fyrstu þrjá mánuði þessa árs í samanburði við sl. ár?

3. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu þess opinbera til að sporna við svokallaðri „svartri atvinnustarfsemi“?"

Í umræðum utan dagskrár 4. febr. sl. sagði hæstv. fjmrh. m.a. um þessi mál, með leyfi herra forseta: Ég hef tekið þetta mál upp á mína arma, rannsakað það í þaula, talað við tæknimenn, haft samráð við kaupmenn, aflað upplýsinga erlendis frá og mun á morgun gefa út reglugerð um það að þann 1. maí skal hver einasti smásöluaðili í þessu landi hafa slíka löggilta innsiglaða sjóðvél.“

Og enn þá sagði fjmrh.: „Ég hef haft marga vinnufundi með skattkerfinu svokallaða. Ég hef rætt við ríkisskattstjóraembættið, skattrannsóknarstjóra og skattayfirvöld í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég hef lagt fram sjálfur tillögur og ég hef heimtað tillögur.“

Og svo: „Það má heita svo að enginn fjmrh. hafi talað við þetta skattkerfi síðan Magnús á Mel var.“ Nú er spurningin þessi: Heyrði enginn í kerfinu til hæstv. fjmrh. um þetta efni og hvað veldur því raunverulega að í dag er komið fram í maímánuð og mér er ekki kunnugt um það að nein reglugerð sé enn komin út um þessa svokölluðu sjóðkassa?

Ég spyr einnig um svarta atvinnustarfsemi sem hér hefur áður verið til umræðu. Mér skilst að virðisaukaskatturinn, nái hann fram, muni ekki verða til þess að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi nema síður sé. Þess vegna eru þessar fsp. bornar fram.