05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7462 í B-deild Alþingistíðinda. (5526)

490. mál, biðlaun

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég verð í upphafi að biðjast velvirðingar á því að svör við þessum tveimur spurningum eru ekki að öllu leyti fullnægjandi af þeirri ástæðu einfaldlega að upplýsingar í vinnsluhæfu formi bárust ekki í tæka tíð frá öllum þeim stofnunum sem hér um ræðir.

Fyrsta spurningin var þessi: „Hvað greiddi ríkissjóður háar fjárhæðir í skaðabætur og biðlaun vegna skipulagsbreytinga, sölu ríkisfyrirtækja, ólögmætra uppsagna eða annarra ástæðna á árunum 1984–1987?"

Hér á eftir eru tilgreindar upphæðir sem greiddar voru sem biðlaun til ríkisstarfsmanna árin 1985–1987: Það mun hafa verið í ársbyrjun 1985 sem launadeild fjmrn. tók upp sérstakar merkingar fyrir greiðslu biðlauna. A.m.k. er engin biðlaunagreiðsla merkt 1984, en það ár var t.d. Framleiðsluráð sjávarafurða lagt niður og þá um leið allnokkrar stöður þar sem leiddu til biðlaunagreiðslu. Ekki er heldur víst að þær tölur sem ég nefni hér á eftir séu tæmandi því að launadeildirnar og þá einkum fjmrn., Pósts og síma og ríkisspítala, þar sem um flesta er að ræða, voru misfljótar að taka upp það kerfi að merkja biðlaunin sérstaklega.

Af þessum tæknilegu ástæðum liggja ekki fyrir í mínum höndum upplýsingar sem svara því hve langan tíma að meðaltali hver um sig, sem biðlauna naut, naut þessara launa. Ég býðst til þess að láta vinna að frekari upplýsingaöflun um það og koma þeim á framfæri við hv. fyrirspyrjanda.

En ef saman eru dregnar þessar upplýsingar, þ.e. hversu mörgum voru greidd biðlaun af hálfu ríkisins og ríkisfyrirtækja á þessum árum og hverjar voru upphæðirnar, er svarið þetta:

Árið 1985 þá voru mánaðarlaunagreiðslur vegna biðlauna 102 þúsund. Laun voru 2 millj. 290 þús. 710 kr. Launatengd gjöld 271 þús. 86 kr. Samtals árið 1985 2 millj. 561 þús. 796 kr. Fyrir árið 1986 eru samsvarandi tölur: 190 þús. mánaðarlaun, útborguð laun 6 millj. 170 þús. 342 kr. Launatengd gjöld 693 þús. 930 kr. Samtals árið 1986 6 millj. 864 þús. 272 kr. Árið 1987 eru tölurnar þessar: Mánaðarlaunafjöldi 310 þús. Útborguð laun 12 millj. 949 þús. 429 kr. Launatengd gjöld 1 millj. 432 þús. 738 kr. Samtals árið 1987 14 millj. 382 þús. 167 kr. Alls voru því greidd biðlaun á þessum þremur árum í útborguðum launum: 21 millj. 410 þús. 481 kr. Launatengd gjöld: 2 millj. 397 þús. 754 kr. Samtals 23 millj. 808 þús. 235 kr.

Nú tek ég það fram að inn í þessar upplýsingar vantar til að þessum spurningum sé svarað á fullnægjandi máta: Í fyrsta lagi upplýsingar um skaðabætur sérstaklega og í annan stað hversu langan tíma að meðaltali hver um sig, sem biðlauna naut, naut þeirra. Að þeirri upplýsingaöflun verður unnið frekar.