05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7478 í B-deild Alþingistíðinda. (5537)

436. mál, bifreiðagjald

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni staðfesting á bráðabirgðalögum frá því í sumar er ríkisstjórnin tók upp á því að leggja sérstök gjöld á bifreiðar. En ég ætla að vekja athygli á því að eftir stutta stund munum við eiga von á því að málsvarar stjórnarflokkanna komi hér upp hver á fætur öðrum og mæli eindregið fyrir því að felld verði niður gjöld af bifreiðum og ýmis gjöld sem bifreiðaeigendur þurfa að bera í sambandi við skráningu og ýmislegt þess háttar. Þá snýst allt við. Þá er ekki lengur þörf á að fá peninga í ríkiskassann. Með þessu frv. er þörf á að fá mikinn pening í ríkiskassann, en þegar kemur að því að ræða um skráningu og bifreiðaeftirlit er mikil þörf á því að losna við þá peninga sem ríkið hefur tekið í gegnum skráningargjöldin í ríkiskassann.